mál Tillaga til þingsályktunar um breytingu á starfsreglum um söfnuði og sóknarnefndir nr. 16/2021-2022 (ftr. sóknarnefnda sem tengiliður við æskulýðsfélag kirkjunnar og haldi fundi með æskulýðsstarfsmönnum amk einu sinni á önn)
mál Tillaga til þingsályktunar um átak í sunnudagaskólafræðslu (20. mál 67. kirkjuþings 2025-2026)
mál Tillaga til þingsályktunar um hvatningu til stofnunar ungmennaráða í öllum æskulýðsfélögum þjóðkirkjunnar
mál Tillaga til þingsályktunar um að koma aftur á leikskóla- og skólaheimsóknum í kirkjur á aðventunni
mál Tillaga til þingsályktunar um að greitt verði fyrir setu á kirkjuþingi unga fólksins sem samsvarar 40% af þingfararkaupi á hinu almenna kirkjuþingi
Starfsreglur um kirkjuþing unga fólksins
nr. 42/2021-2022, sbr. starfsrgl. nr. 29/2023-2024 og starfsrgl. nr. 15/2024-2025.
Hlutverk og skipulag.
1. gr. Biskup Íslands skipar verkefnastjóra kirkjuþings unga fólksins að vori ár hvert og boðar til þingsins í samráði við forseta kirkjuþings hins almenna. Þingið skal haldið árlega að hausti og starfi í tvo daga yfir helgi. Þingmál skulu hafa borist þingfulltrúum a.m.k. fimm virkum dögum fyrir þingdag.
2. gr. Hlutverk kirkjuþings unga fólksins er að ræða stöðu og hlutverk ungs fólks í þjóðkirkjunni og í samfélagi kirkna um heim allan. Kirkjuþing unga fólksins er vettvangur ungs fólks til að hafa áhrif á starfsemi kirkjunnar.
3. gr. Biskup annast undirbúning kirkjuþings unga fólksins í samvinnu við verkefnastjóra og starfandi svæðisstjóra æskulýðsmála.
Þingfulltrúar.
4. gr. Á kirkjuþingi unga fólksins eiga sæti 21 fulltrúi prófastsdæmanna með málfrelsi, tillögu- og atkvæðisrétt. Fjöldi fulltrúa hvers prófastsdæmis er sem hér segir:
a. Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, 3 fulltrúar
b. Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, 3 fulltrúar
c. Kjalarnessprófastsdæmi, 3 fulltrúar
d. Vesturlandsprófastsdæmi, 2 fulltrúar
e. Vestfjarðaprófastsdæmi, 2 fulltrúar
f. Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi, 2 fulltrúar
g. Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, 2 fulltrúar
h. Austurlandsprófastsdæmi, 2 fulltrúar
i. Suðurprófastsdæmi, 2 fulltrúar.
Tveir fulltrúar KFUM og KFUK á Íslandi eiga seturétt á kirkjuþinginu með málfrelsi og tillögurétt.
Fulltrúar skulu vera á aldursbilinu 16 til 35 ára, skráðir í þjóðkirkjuna og með tengst við þjóðkirkjuna í því kjördæmi sem þeir sitja fyrir. Svæðisstjórar bera ábyrgð á tilnefningum og vali fulltrúa til kirkjuþings unga fólksins í samráði við sóknarpresta, presta, djákna, æskulýðsfulltrúa og aðra sem bera ábyrgð á kirkjustarfi í hverju prófastsdæmi. Í þeim prófastdæmum þar sem svæðisstjóri er ekki starfandi skal prófastur annast tilnefningar. Biskup tilkynnir öllum sem að framan greinir um rétt þeirra til að tilnefna fulltrúa. Svæðisstjóri og prófastur, þar sem við á, tilkynna valda fulltrúa til verkefnisstjóra kirkjuþings unga fólksins. Skulu fulltrúar kirkjuþings unga fólksins vera valdir til tveggja ára. Geti fulltrúi ekki komist á þingið af einhverjum orsökum skal nýr fulltrúi (varamaður) vera valinn í hans stað sem hefur þá þátttökurétt til tveggja ára.
Biskup Íslands boðar valda þingfulltrúa til kirkjuþings unga fólksins fjórum vikum fyrir þingdag. Forráðamenn þingfulltrúa, sem ekki hafa náð lögaldri, gefa skriflegt leyfi fyrir þátttöku þeirra á þinginu. Þingið telst þinghæft ef tveir þriðju sæta eru setin.
Þingsköp.
5. gr. Kirkjuþing unga fólksins hefst með helgistund er biskup Íslands annast. Þá setur forseti kirkjuþings þingið og stýrir því fram yfir kosningu forseta og varaforseta.
6. gr. Í upphafi kirkjuþings unga fólksins eru kosnir forseti, tveir varaforsetar og tveir fundarritarar.
7. gr. Kirkjuþing unga fólksins starfar á boðuðum þingfundum og í þremur þingnefndum. Í upphafi þingsins skulu lögð fram mál sem fjalla á um á þinginu. Fulltrúum ber að skila inn þingmálum til verkefnisstjóra kirkjuþings unga fólksins og biskupsstofu a.m.k. tíu dögum fyrir upphaf þings. Þessum aðilum ber að koma málunum fullunnum til þingmanna ekki síðar en fimm sólarhringum fyrir upphaf þingsins.
Eftir fyrri umræðu skal málinu vísað til nefndar. Forseti og varaforsetar skipa fulltrúa í nefndirnar svo og formenn þeirra. Formaður nefndar ber ábyrgð á skipulagningu nefndarstarfsins og getur kallað til utanaðkomandi aðila inn á nefndarfund. Formaður kynnir á þingfundi niðurstöðu nefndar. Mál eru samþykkt með handauppréttingu eða skriflegri atkvæðagreiðslu ef einhver óskar þess og dugir einfaldur meirihluti. Ályktanir og samþykktir kirkjuþings unga fólksins skulu sendar forsætisnefnd kirkjuþings til umfjöllunar og meðferðar.
8. gr. Auk afgreiðslu mála skal kirkjuþing unga fólksins kjósa einn fulltrúa á kirkjuþing með málfrelsi og tillögurétt.
Annað
9. gr. Á kirkjuþingi unga fólksins skal að öðru leyti taka mið af þingsköpum kirkjuþings eins og við getur átt.
10. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru með heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi 1. janúar 2022. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um kirkjuþing unga fólksins nr. 952/2009, með síðari breytingum.