Starfsreglur um:
Starfsreglur um biskup Íslands nr. 6/2024 - 2025.
1. gr. Ísland er eitt biskupsdæmi. Biskupsdæmið skiptist í vígslubiskupsumdæmi, prófastsdæmi, sóknir og prestaköll samkvæmt starfsreglum kirkjuþings.
2. gr. Biskup skal tryggja þjónustu orðs og sakramenta og gæta postullegrar trúar samkvæmt orði Guðs og játningu og kirkjuskipan evangelisk lúterskrar kirkju. Biskup skal efla og varðveita einingu kirkjunnar.
3. gr. Biskup hefur tilsjón með þjónustu og starfi safnaðanna, vígðra þjóna og starfsmanna kirkjunnar hvað varðar helgihald, fræðslu, kærleiksþjónustu og boðun trúarinnar. Enn fremur skal biskup veita forystu og almenna tilsjón með söfnuðum, sjálfboðaliðum, prestum, djáknum, stofnunum og starfsfólki kirkjunnar.
4. gr. Biskup er æðsti yfirmaður hinnar vígðu þjónustu og gætir þess að samþætta starfsemi hennar og kirkjulegra stjórnvalda. Biskup skal
1. Sjá til þess að djáknar, prestar, prófastar og sóknir sinni skyldum sínum að veita kirkjulega þjónustu í umdæmum sínum.
2. Sjá til þess að prestar hafi sakramentin um hönd, boði fagnaðarerindið með orðum og verkum eins og því er vitni borið í játningum kirkjunnar, lögum og starfsreglum og að vígðir þjónar kirkjunnar lifi og starfi í samræmi við áminningu og fyrirheiti vígslunnar.
3. Skera úr í deilumálum varðandi prestsþjónustu, notkun kirkna og safnaðarheimila og veita undanþágur frá gildandi helgisiðum.
4. Sjá til þess að guðsþjónusta, fræðsla og kærleiksþjónusta kirkjunnar standi sóknarbörnum til boða.
5. Tryggja handleiðslu, símenntun og endurmenntun presta samkvæmt starfsreglum þar að lútandi.
6. Útnefna prófasta og setja inn í embætti.
5. gr. Biskup situr kirkjuþing með málfrelsi og tillögurétt. Biskup situr fundi stjórnar Þjóðkirkjunnar og sinnir öðrum verkefnum biskups samkvæmt lögum, starfsreglum, samþykktum, hefð og venju þjóðkirkjunnar.
6. gr. Dómkirkjan í Reykjavík er kirkja biskups. Biskup hefur afnot af kirkjum biskupsdæmisins til helgihalds og boðunar þegar hann þarf á að halda. Biskup vísiterar kirkjur, presta og söfnuði biskupsdæmisins. Á vísitasíu skal biskup kynna sér þjónustu kirkjunnar og starfsemi, stöðu hennar í samfélaginu, ásigkomulag kirkna og eigna kirkjunnar, eiga starfsmannasamtöl við vígða þjóna og kynna sér samskipti þeirra og safnaðar. Biskup skal njóta þjónustu prófasts á vísitasíum. Biskup skal láta halda fullnægjandi skrá um ásigkomulag kirkna, innanstokksmuni og gripi, eignir hennar og hlunnindi.
7. gr. Biskup vígir presta og djákna samkvæmt fyrirmælum Handbókar kirkjunnar og Samþykktum um innri málefni kirkjunnar. Biskup gefur út vígslubréf sem staðfesting þess að viðkomandi hefur þegið vígslu og lúti tilsjón biskups og tilmæli til safnaðar að veita vígðum þjóni sínum viðtöku sem réttilega kölluðum þjóni Biskup setur prestum og djáknum erindisbréf.
8. gr.Biskup vígir kirkjur og kapellur. Biskup getur veitt leyfi til notkunar óvígðra húsakynna til helgihalds kirkjunnar samkvæmt samþykktum um innri málefni kirkjunnar.
9. gr. Biskup Íslands er vígður af forvera sínum eða þeim vígslubiskupi sem eldri er að vígslu. Áminningar og heit vígslunnar eru skuldbindandi fyrir líf og þjónustu biskups.
10. gr. Biskup vinnur í samstarfi við framkvæmdastjóra þjóðkirkjunnar fjárhagsáætlun fyrir vígða þjónustu ár hvert.
11. gr. Starfsreglur þessar sem settar eru með heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 öðlast gildi við birtingu. Þær koma í stað Erindisbréfs handa biskupum 1746 sem féll úr gildi við gildistöku laganna.
Gildistaka 1. nóvember 2024.
Starfsreglur um biskupafund nr. 34/2022-2023.
1. gr. Biskup Íslands boðar vígslubiskupa til biskupafundar og stýrir honum.
2. gr. Biskupafundur er haldinn ársfjórðungslega og oftar ef þurfa þykir.
3. gr. Biskupafundur fjallar um málefni sem starfsreglur, ályktanir og samþykktir kveða á um varðandi trú og kenningu kirkjunnar, helgisiði og helgihald. Biskupafundur býr mál er varða trú, kenningu, helgisiði og helgihald í hendur kirkjuþings.
4. gr. Biskupafundur er haldinn til samráðs um biskupsþjónustuna og upplýsinga um málefni kirkju og kristni.
Biskupafundur skipuleggur vísitasíur biskups Íslands og vígslubiskupa og gerir samræmda áætlun um þær.
5. gr. Biskupafundur endurskoðar árlega skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma. Biskupafundur gerir tillögur um þau efni á grundvelli starfsreglna, þingsályktana og stefnumörkunar kirkjuþings og býr mál er varða breytingar í þeim efnum í hendur kirkjuþings.
Biskupafundur fjallar auk þess um allar tillögur um þessi efni sem kunna að berast og býr þær til flutnings á kirkjuþingi eftir því sem málavextir gefa tilefni til og greinir kirkjuþingi frá málsmeðferð.
6. gr. Starfsreglur þessar sem settar eru með heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 öðlast gildi við birtingu. Jafnframt falla brott starfsreglur um biskupafund nr. 964/2006 frá sama tíma.
Gildistaka 24. október 2022.
Starfsreglur um djákna nr. 31/2022-2023.
1. gr. Djákna er skylt að sinna starfi sínu samkvæmt þeirri köllun sem hann hefur hlotið og vígslubréfi, svo og samkvæmt þeim lögum og reglum sem um starf hans gilda á hverjum tíma. Enn fremur ber djákna að fara að ákvæðum ráðningarsamnings og erindisbréfs.
2. gr. Djáknar starfa á sviði fræðslu- og líknarmála. Djáknar starfa innan safnaðar, stofnunar eða á vegum líknarfélags.
3. gr. Biskup Íslands auglýsir laus störf djákna í samráði við vinnuveitanda. Biskup kannar hvort umsækjendur uppfylli lögboðin skilyrði til starfsins. Að liðnum umsóknarfresti sendir biskup umsóknir ásamt umsögn sinni til hlutaðeigandi vinnuveitanda (sóknarnefndar, stofnunar eða líknarfélags), sem ákveður, að höfðu lögboðnu samráði, hver skuli ráðinn og tilkynnir það prófasti.
4. gr. Vinnuveitandi skal gera skriflegan ráðningarsamning við djákna sem kveður á um starfsskyldur hans. Tilgreina skal sérstaklega í ráðningarsamningi hvaða störfum á sviði líknar- og fræðslumála djákna ber að sinna. Drög að ráðningarsamningi skulu liggja fyrir þegar starfið er auglýst.
5. gr. Þegar djákni er ráðinn til starfa af sóknarnefnd gilda að öðru leyti ákvæði starfsreglna um söfnuði og sóknarnefndir.
6. gr. Djákna ber að hlýða löglegu boði yfirboðara síns.
7. gr. Djákna ber að viðhalda þekkingu sinni og menntun eftir föngum til að geta ávallt sem best sinnt starfi sínu.
8. gr. Djákni situr héraðsfundi í því prófastsdæmi sem hann starfar og hefur þar málfrelsi og atkvæðisrétt. Prófastur skal boða djákna prófastsdæmisins til héraðsfundar og annarra funda á vegum prófastsdæmisins eftir því sem við getur átt svo og að mæta í starfsgæðaviðtöl hjá prófasti, nema forföll hamli eða nauðsyn banni.
9. gr. Biskup setur djáknum erindisbréf.
10. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi við birtingu.
Frá sama tíma falla brott starfsreglur um djákna nr. 738/1998, með síðari breytingum og starfsreglur um þjálfun djáknaefna nr. 843/2003, með síðari breytingum.
Gildistaka 24. október 2022.
Starfsreglur um fasteignir Þjóðkirkjunnar
nr. 8/2022-2023, sbr. starfsrgl. nr. 10/2024-2025.
Gildissvið.
1. gr. Starfsreglur þessar gilda um fasteignir í eigu Þjóðkirkjunnar. Þær gilda ekki um fasteignir í eigu safnaða og kirkjugarða.
Prestssetur, samkvæmt starfsreglum þessum eru íbúðarhús ásamt hæfilegri lóð, í prestaköllum samkvæmt 7. gr. starfsreglna þessara. Ákvæði starfsreglna þessara um prestssetur gilda um biskupssetur.
Umsýsla og stjórn.
2. gr. Rekstrarstofa þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar hefur fyrirsvar vegna fasteigna Þjóðkirkjunnar og annast umsýslu þeirra, þ.m.t. gerð leigusamninga, ákvörðun leigugjalds, þ.m.t. fyrir prestssetur, innheimtu tekna og fer með stjórn málefna þeirra á grundvelli starfsreglna kirkjuþings og annarra samþykkta þingsins, sem varða fasteignir. Framleiga fasteigna Þjóðkirkjunnar er óheimil nema með leyfi rekstrarstofu.
Framkvæmdaáætlun.
3. gr. Á rekstrarstofunni skal árlega unnin framkvæmdaáætlun vegna viðhalds og endurbóta á fasteignum og henni fylgt eftir. Áætlunin skal fylgja tillögum að fjárhagsáætlun til reglulegs kirkjuþings að hausti og taka til næsta almanaksárs. Jafnframt fylgi drög að framkvæmdaáætlun vegna næstu tveggja almanaksára á eftir.
Varðveisluskylda og hagsmuna- og réttindagæsla.
4. gr. Rekstrarstofa gætir þess að eignarheimildum og öðrum réttindum Þjóðkirkjunnar sé réttilega þinglýst og að önnur opinber skráning fasteigna Þjóðkirkjunnar sé rétt, þ.m.t. skráning landamerkja.
Gæta skal allra hagsmuna og réttinda Þjóðkirkjunnar svo sem veiðiréttar í vötnum og ám, vatnsréttinda, annarra veiðiréttinda s.s. gæs, rjúpa, veiðar í sjó og dúntekja, réttar til efnistöku úr landi og réttar til arðs af hreindýraveiði. Semja má við leigutaka, prest eða annan, um að vera vörslumaður jarðar.
Kaup og sala.
5. gr. Kirkjuþing ákveður hvaða fasteignir skuli selja, hvort kaupa skuli fasteign og hvort ráðast eigi í nýbyggingu fasteignar. Víkja má frá þessu skilyrði ef sérstakar aðstæður skapast og rekstrarstofa telur brýnt að kaupa fasteign. Leita skal þá samráðs við forsætisnefnd kirkjuþings. Fasteignir, sem heimilt er að selja, skulu auglýstar á almennum markaði. Almennt skal hæsta tilboði tekið eða öllum hafnað.
Ekki skal kaupa mannvirki á jörðum, ræktun, þ.m.t. skógrækt, girðingar og aðrar umbætur og framkvæmdir, sem leigutaki hefur lagt fram, nema aflað hafi verið fyrirfram skriflegs samþykkis rekstrarstofu þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar fyrir framkvæmdunum. Hið sama á við um aðrar fasteignir Þjóðkirkjunnar eins og við getur átt. Komi til kaupa á framkvæmdum fráfarandi leigutaka skulu þau eiga sér stað við skil leigutaka á hinni leigðu fasteign.
Leiga prests- og biskupssetra.
6. gr. Prests- og biskupssetur skulu leigð vígðum þjónum, sem það kjósa, í þeim prestaköllum sem greinir í starfsreglum þessum. Kjósi prestur að leigja prestssetrið skal gerður leigusamningur um þau afnot.
Leigusamningi við prest lýkur við starfslok hans í prestakalli þar sem prestssetrið fylgir með uppsögn leigusamnings.
Sé um jörð að ræða skal litið svo á að prestsstarfi fylgi einungis íbúðarhús jarðarinnar ásamt hæfilegri lóð. Semja má um afnot prestsins af jarðnæðinu að hluta eða öllu leyti sbr. 4. gr.
Sé auglýst prestsstarf í prestakalli, þar sem til boða stendur að leigja prestssetur, skulu liggja fyrir drög að leigusamningi fyrir prestssetrið.
Prestssetur í prestaköllum.
7. gr. Prestssetur skal bjóða vígðum þjónum til leigu í þeim prestaköllum sem talin eru hér upp.
Suðurprófastsdæmi
1. Breiðabólsstaðarprestakall.
2. Fellsmúlaprestakall.
3. Hrunaprestakall.
4. Oddaprestakall.
5. Kirkjubæjarklaustursprestakall.
6. Skálholtsprestakall.
Kjalarnessprófastsdæmi
Reynivallaprestakall.
Vesturlandsprófastsdæmi
1. Borgarprestakall.
2. Dalaprestakall.
3. Reykholtsprestakall.
4. Stafholtsprestakall.
5. Staðastaðarprestakall.
Vestfjarðaprófastsdæmi
1. Ísafjarðarprestakall.
2. Patreksfjarðarprestakall.
3. Breiðafjarðar- og Strandaprestakall.
Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi
Húnavatnsprestakall.
Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi
1. Laufásprestakall.
2. Dalvíkurprestakall.
3. Langanes- og Skinnastaðarprestakall.
Austurlandsprófastsdæmi
1. Austfjarðaprestakall.
2. Egilsstaðaprestakall.
3. Hofsprestakall.
Lagðir skulu til embættisbústaðir fyrir vígslubiskupa í umdæmum hvors um sig, annars vegar á Hólum og hins vegar í Skálholti, nema um annað sé samið.
Gildistaka.
8. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru með heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi 1. janúar 2024.
Ákvæði til bráðabirgða
Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. gildir um þær prestssetursjarðir sem boðnar verða til leigu í tengslum við auglýsingu prestsstarfs eftir að starfsreglur þessar hafa öðlast gildi.
Prestar sem sitja prestssetur er lögð eru niður við gildistöku starfsreglna þessara og sem eru með skipun í prestsembætti, geta setið prestssetrin til loka skipunartímans ef þeir svo kjósa.
Starfsreglur um fjármál Þjóðkirkjunnar nr. 13/2021-2022,
sbr. starfsreglur nr. 22/2023-2024 og nr. 41/2023-2024.
I. KAFLI
Fjárhagsáætlun þjóðkirkjunnar.
1. gr. Þjóðkirkjan viðhefur ábyrgð, traust og gegnsæi í allri fjárstjórn sem endurspeglast í öllum stjórnarháttum hennar. Sundurliðuð fjárhagsáætlun skv. 5. gr ásamt ársreikningum skal birta á heimasíðu kirkjunnar. Allar fjárskuldbindingar og samningar sem gerðir eru fyrir hönd kirkjunnar skulu birtir á opnu vefsvæði kirkjunnar sé það ekki óheimilt að kröfu hins samningsaðilans.
Fjárhagsnefnd kirkjuþings skal látið í té öll fjárhagsgögn sem formaður nefndarinnar eða staðgengill hans óskar eftir, bæði við gerð fjárhagsáætlunar og við yfirferð ársreiknings. Aðrir kirkjuþingsfulltrúar fái aðgang að sömu gögnum óski þeir eftir því. Rekstur þjóðkirkjunnar greiðist samkvæmt fjárhagsáætlun sem kirkjuþing samþykkir fyrir hvert almanaksár.
Óheimilt er að inna af hendi greiðslu nema heimild sé til þess í samþykktri fjárhagsáætlun.
2. gr. Í fjárhagsáætlun kirkjuþings skal gera ráð fyrir sérstakri fjárheimild til að bregðast við útgjöldum sem brýna nauðsyn ber til að inna af hendi, eru tímabundin, ófyrirsjáanleg, óhjákvæmileg og ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti samkvæmt starfsreglum þessum. Fjárheimild þessi skal nema að lágmarki 1% af heildar útgjaldaliðum í fjárhagsáætlun. Greiðslur af fjárheimild skv. 1. mgr. eru ákvarðaðar af rekstrarskrifstofu Þjóðkirkjunnar (hér nefnd rekstrarstofa) sem hefur, eins og kostur er, samráð við stjórn Þjóðkirkjunnar og fjárhagsnefnd kirkjuþings um ráðstafanir samkvæmt 1. mgr., m.a. hvort öll skilyrði séu uppfyllt.
Sé fjárheimild skv. 1. mgr. nýtt skal gera grein fyrir því í umfjöllun um ársreikning þjóðkirkjunnar á kirkjuþingi.
3. gr. Mynda skal varasjóð sem safna skal í uns höfuðstóll hans verður 25% af árlegri heildar gagngreiðslu frá ríkinu til þjóðkirkjunnar. Skal leggja í hann a.m.k. 15% af tekjuafgangi fjárhagsársins, að frádregnu tapi sem hefur verið flutt frá fyrra ári. Úr varasjóðnum er heimilt að jafna tap á rekstri þjóðkirkjunnar, sem ekki er hægt að jafna með öðrum hætti. Greiðslur úr varasjóðnum eru ákvarðaðar af kirkjuþingi og þarf 2/3 hluta atkvæða til að hún teljist gild.
II. KAFLI
Gerð fjárhagsáætlunar.
4. gr. Rekstrarstofa Þjóðkirkjunnar, í samráði við stjórn Þjóðkirkjunnar og fjárhagsnefnd kirkjuþings, undirbýr gerð fjárhagsáætlunar kirkjunnar með gerð tillagna að fjárhagsáætlun. Skal sú vinna hefjast eigi síðar en í maí mánuði ár hvert vegna næsta árs og frumdrög áætlunar lögð fram og kynnt framangreindum aðilum þann mánuð. Fjárlagatillögur skulu sundurliðaðar í samræmi við ákvæði 5. og 6. gr.
Gengið skal frá fyrstu drögum að fjárhagsáætlun í júní og þær kynntar forsvarsmönnum sviða, stofnana og sjóða.
Um málsmeðferð vegna úthlutunar styrkja sem áður heyrðu undir ákvæði um Jöfnunarsjóð sókna og kristnisjóð, er féllu brott með 4. gr. - 6. gr. laga nr. 95/2020, fer samkvæmt 6. gr.-10. gr. starfsreglna þessara.
Rekstrarstofan skal að jafnaði ganga frá endanlegri tillögu að fjárhagsáætlun vegna næsta árs fyrir 20. september ár hvert og skulu þær þá birtar í samráðsgátt kirkjunnar.
5. gr. Fjárhagsáætlun skal sett fram með áætluðum heildartekjum, þ.m.t. sértekjum Þjóðkirkjunnar á árinu svo og með heildargjöldum.
Skal sundurliða gjaldahlið áætlunarinnar eftir liðum sem hér segir:
a. Launa- og starfskostnaður vegna prestsþjónustunnar í landinu. Kirkjuþing skal árlega uppfæra fjárhæðir þær sem greiðast sem starfskostnaður vegna prestsþjónustu og prófastsstarfa. Kirkjuþing ákvarðar einnig árlegt verð eininga sem notaðar eru til að ákvarða þóknanir sem þóknananefnd kirkjunnar mælir fyrir um og þóknanir vegna gæslu veiðihlunninda á prestssetrum.
b. Rekstrar- og launakostnaður biskups Íslands – biskupsstofu og rekstrarskrifstofu Þjóðkirkjunnar.
c. Rekstrar- og launakostnaður vegna starfsmanna sem ráðnir eru til sérstakra verkefna í þágu Þjóðkirkjunnar skv. ákvörðun kirkjuþings.
d. Rekstrarkostnaður vegna prestssetra og annarra fasteigna kirkjunnar. Rekstrarkostnaður og tekjur Skálholtsstaðar í heild sinni skal sundurgreina sérstaklega.
e. Kostnaður vegna kirkjuþings, stjórnar Þjóðkirkjunnar, prestastefnu og leikmannastefnu.
f. Kostnaður vegna nefnda sem starfa á grundvelli laga, starfsreglna eða annarra samþykkta kirkjuþings og samkvæmt ákvörðun biskups Íslands eða kirkjuþings.
6. gr. Tillögur í fjárhagsáætlun vegna verkefna sem kristnisjóður, sbr. II. kafla laga um Kristnisjóð o.fl. nr. 35/1970 og Jöfnunarsjóður sókna, sbr. II. kafla laga um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987 sinntu, skulu settar fram á eftirfarandi hátt:
1. Fjárheimildir til að styðja hvers konar starfsemi kirkjunnar til eflingar kristinni trú, svo sem útgáfu á hjálpargögnum í safnaðarstarfi og kristilegu fræðsluefni, enn fremur félög og stofnanir, sem vinna að mikilvægum verkefnum á kirkjunnar vegum.
2. Fjárheimild til þeirra verkefna sem áður heyrðu undir Jöfnunarsjóð sókna, svo sem:
a. Að veita styrki til þeirra kirkna, sem hafa sérstöðu umfram aðrar sóknarkirkjur, þannig að þær vegna sögulegra eða annarra sérstakra ástæðna geta talist kirkjur alls landsins. Er hér fyrst og fremst átt við Dómkirkjuna í Reykjavík, Hóladómkirkju, Skálholtsdómkirkju, Hallgrímskirkju í Reykjavík og Hallgrímskirkju í Saurbæ.
b. Að leitast við að jafna aðstöðu sókna og styrkja sóknir, þar sem tekjur skv. lögum um sóknargjöld o.fl., nægja ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum að dómi sóknarnefndar og sóknarprests og að fenginni umsögn héraðsnefndar.
c. Að veita styrki til nauðsynlegra verklegra framkvæmda á vegum sókna, til að styrkja rekstur kirkna, t.d. til kaupa á nauðsynlegum búnaði þeirra og til að styðja kirkjulegt starf innan sókna. Enn fremur er heimilt að veita styrki til að greiða fyrir sameiningu fámennra sókna og til að styrkja sóknir, sem bera sérstakan kostnað. Með styrkjum til verklegra framkvæmda er átt við framlög til viðhalds, endurbóta og nýbygginga kirkna. Enn fremur styrki til byggingar þjónusturýmis og safnaðarheimila, þar sem þeirra er þörf.
d. Að veita styrki til að auðvelda stofnun sókna í nýjum byggðahverfum og greiða fyrir kirkjulegu starfi þar.
e. Að styrkja safnaðaruppbyggingu og aðra kirkjulega félags- og menningarstarfssemi innan sókna eða prófastsdæma og veita héraðssjóðum styrki til verkefna, er undir þá féllu, sbr. 8. gr. laga um sóknargjöld o.fl. Við mat á styrkveitingum til héraðssjóða, skal m.a. höfð hliðsjón af því, hvort þeir fullnýti tekjustofna sína, samkvæmt gildandi starfsreglum um héraðsfundi og héraðsnefndir hverju sinni.
Enn fremur er heimilt samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. að veita styrki til kirkjulegrar félags- og menningarstarfsemi og verkefna, sem Þjóðkirkjan í heild eða einstakar stofnanir hennar standa fyrir. Enn fremur að styrkja landssamtök, sem eiga rétt á að tilnefna fulltrúa á leikmannastefnu kirkjunnar.
7. gr. Framlag skv. 1. mgr. 6. gr. skal aldrei vera lægra en 0,5% til 1. tölul. og 10% til 2. tölul. af árlegu gagngjaldi ríkisins á grundvelli viðbótarsamnings íslenska ríkis og kirkju frá 6. september 2019. Sé talin nauðsyn á að skerða fjárheimild til þessa töluliða frá því lágmarki sem ákveðið er í starfsreglum þessum, þarf samþykki a.m.k. 2/3 atkvæðisbærra kirkjuþingsmanna miðað við fullskipað þing.
III. KAFLI
Umsóknir um framlög og styrki.
8. gr. Umsóknir um styrki samkvæmt 6. gr. skulu að jafnaði berast Þjóðkirkjunni fyrir 1. september ár hvert.
Umsóknir skulu rökstuddar og þeim skulu fylgja greinargerðir, þar sem m.a. skal gerð grein fyrir fjárþörf og þeim verkefnum, sem sótt er um styrk til, ásamt ársreikningum. Úthlutun skal að jafnaði lokið fyrir 1. febrúar ár hvert. Styrkir skulu að jafnaði greiðast á því ári sem þeir eru veittir. Í undantekningartilvikum má færa styrk milli ára, s.s. ef framkvæmdir hafa farið seint af stað eða ekki hefur verið unnt að greiða út styrkinn af öðrum ástæðum.
Styrkur færist þó ekki yfir um ár oftar en einu sinni. Sé ekki hægt að greiða styrkinn út innan þess tíma fellur hann niður. Það er á ábyrgð styrkþega að óska eftir að ógreiddur styrkur færist yfir á næsta ár. Slík beiðni skal lögð fram fyrir 1. desember úthlutunarárs.
Úthlutunarnefnd skal gæta þess að upplýsingar um fresti, skilyrði, heimildir til að færa styrki til milli ára og önnur atriði, séu ávallt aðgengilegar umsækjendum.
IV. KAFLI
Málsmeðferð við úthlutun styrkja skv. 6. gr.
9. gr. Kirkjuþing kýs nefnd til fjögurra ára sem úthlutar styrkjum skv. 6. gr. Kjósa skal þrjá aðalmenn og þrjá varamenn, sem taka sæti í þeirri röð sem þeir eru kosnir til. Kirkjuþing ákveður hver er formaður nefndarinnar og varaformaður.
Hlutverk úthlutunarnefndar er að fjalla um styrkumsóknir og veita úrlausn um þær, sbr. 1. mgr. Úthlutunarnefnd ber að fjalla um allar umsóknir og skal rökstyðja niðurstöðu sína í hverju tilfelli.
10. gr. Úthlutunarnefnd skal hafa lokið yfirferð yfir allar umsóknir fyrir 15. desember og skulu tillögur að úthlutunum þá sendar til umsagnar héraðsnefnda.
Heimilt er að veita vilyrði fyrir styrk til allt að fjögurra ára.
Nú er starfandi prestur í úthlutunarnefnd og er honum þá óheimilt að fjalla um umsókn sóknar úr prestakalli sem hann þjónar þegar nefndin fjallar um þá umsókn. Sé leikmaður í úthlutunarnefnd sem jafnframt situr í sóknarnefnd er honum óheimilt að fjalla um umsókn þeirrar sóknar.
Stjórn Þjóðkirkjunnar staðfestir verklagsreglur úthlutunarnefndar þar sem frekari skilyrði umsókna skulu tilgreind. Verklagsreglurnar skal birta á umsóknarvef kirkjunnar.
V. KAFLI
Framkvæmd samþykktrar fjárhagsáætlunar.
11. gr. Fjárhagsáætlun skal samþykkt á haustþingi. Rekstrarstofa Þjóðkirkjunnar annast um framkvæmd samþykktrar fjárhagsáætlunar og eftirlit með útgjöldum. Skal eftirliti m.a. hagað þannig að bera að lágmarki saman rauntölur og fjárhagsáætlun á þriggja mánaða fresti.
Komi fram frávik frá samþykktri fjárhagsáætlun þannig að gjöld séu umfram tekjur eða tekjur lægri en áætlað var, skal rekstrarstofa Þjóðkirkjunnar þegar í stað gera nauðsynlegar ráðstafanir til að bregðast við þannig að samþykkt fjárhagsáætlun haldi.
VI. KAFLI
Ársreikningur.
12. gr. Ársreikningur Þjóðkirkjunnar skal gerður fyrir hvert almanaksár. Reikningsskil skulu vera í samræmi við viðurkenndar bókhalds- og reikningsskilareglur. Skal reikningurinn áritaður af stjórn Þjóðkirkjunnar og endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda. Kirkjuþing kýs endurskoðanda, eða staðfestir kjör þess sem fyrir er, á vorþingi ár hvert. Ársreikningurinn skal lagður fyrir kirkjuþing að vori.
Ritun firma og prókúra.
13. gr Meiri hluti stjórnar Þjóðkirkjunnar er bær til þess að rita firmað Þjóðkirkjan og gera bindandi löggerninga. Felst m.a. í því heimild til að rita undir öll skjöl er varða fasteignir Þjóðkirkjunnar svo sem kaupsamninga, afsöl, leigusamninga, veðleyfi, skuldabréf og skiptasamninga.
Þá getur stjórnin veitt framkvæmdastjóra rekstrarstofu Þjóðkirkjunnar og tilteknum starfsmönnum Þjóðkirkjunnar heimild til að rita firmað Þjóðkirkjan.
Stjórnin veitir framkvæmdastjóra rekstrarstofu Þjóðkirkjunnar prókúruumboð. Nefndin getur einnig veitt tilteknum starfsmönnum Þjóðkirkjunnar prókúruumboð.
Gildistaka.
14. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru með heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi 1. janúar 2022.
Starfsreglur um héraðsfundi og héraðsnefndir nr. 43/2021-2022.
Almennt.
1. gr. Héraðsfundi skal halda í hverju prófastsdæmi ár hvert. Héraðsfundur er vettvangur til að ræða sameiginleg málefni kirkjunnar í héraðinu. Héraðsnefnd prófastsdæmis er framkvæmdanefnd héraðsfundar.
Um héraðsfundi.
2. gr. Héraðsfundur er aðalfundur prófastsdæmis og fjallar um málefni sem varða starf þjóðkirkjunnar í prófastsdæminu. Þar fara fram starfsskil héraðsnefndar vegna síðasta árs, svo og reikningsskil héraðssjóðs. Héraðsfundur samræmir og markar sameiginlegt kirkjustarf í prófastsdæminu og ráðstafar héraðssjóði fyrir næsta ár og afgreiðir fjárhagsáætlun héraðssjóðs fyrir næsta ár.
3. gr. Á héraðsfundi mæta:
a. þjónandi prestar í prófastsdæminu.
b. Safnaðarfulltrúar og formenn sóknarnefnda eða varamenn þeirra.
c. Djáknar, starfandi í prófastsdæminu.
d. Kirkjuþingsmenn viðkomandi kjördæmis.
e. Fulltrúar prófastsdæmisins á leikmannastefnu.
Vígslubiskupi umdæmisins skal boðið að sitja héraðsfund með málfrelsi og tillögurétt. Starfsmönnum sókna og prófastsdæmis svo og öllum áhugamönnum innan þjóðkirkjunnar um kirkjuleg málefni er heimilt að mæta á héraðsfundi með málfrelsi og tillögurétt.
Á héraðsfundi hafa atkvæðisrétt tveir fulltrúar frá hverri sókn, sbr. b-lið, starfandi prestar og djáknar. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á héraðsfundi. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði prófasts.
4. gr. Héraðsfundi skal halda að jafnaði í hverju prófastsdæmi eigi síðar en 15. júní ár hvert. Héraðsfundur er vettvangur prófastsdæmis til þess að ræða um sameiginleg málefni þjóðkirkjunnar í prófastsdæminu og önnur þau málefni sem lög leggja til hans eða stjórnvöld kirkjumála vísa þangað til umfjöllunar, umsagnar eða úrlausnar eða safnaðarfundir, sóknarnefndir, sóknarprestar og starfsmenn sókna óska eftir að þar verði rædd. Héraðsnefnd ákveður fundarstað.
5. gr. Prófastur boðar héraðsfund skriflega með hálfs mánaðar fyrirvara og skal í fundarboði greina frá dagskrá fundar. Fundarboð skal sent öllum sóknarnefndum, prestum og djáknum í prófastsdæminu, fulltrúum á kirkjuþingi í kjördæminu og fulltrúum prófastsdæmisins á leikmannastefnu, sbr. starfsreglur um leikmannastefnu. Fundurinn skal einnig auglýstur. Rétt boðaður fundur er lögmætur.
6. gr. Dagskrá héraðsfundar:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla héraðsnefndar um starfsemi liðins árs þar sem m.a. skal getið um framkvæmd ályktana og samþykkta síðasta héraðsfundar.
3. Ársreikningar héraðssjóðs til samþykktar.
4. Starfsáætlun héraðsnefndar þ.m.t. styrkir og fjárhagsáætlun héraðssjóðs fyrir næsta almanaksár til samþykktar.
5. Starfsskýrslur sókna, nefnda, héraðsprests og annarra starfsmanna prófastsdæmisins lagðar fram svo og ársreikningar sókna og kirkjugarða.
6. Mál er varða kirkjuþing, tekin til umfjöllunar og afgreiðslu.
7. Samþykktir prestastefnu og leikmannastefnu kynntar.
8. Ákvörðun um greiðslur til kjörinna héraðsnefndarmanna fyrir störf þeirra á liðnu ári.
9. Sameiginleg mál sóknarnefnda er varða rekstur og starfsmannahald.
10. Kosningar:
a) Kosning aðalmanna og varamanna til héraðsnefndar, annarra en formanns, til tveggja ára í senn.
b) Kosning tveggja skoðunarmanna eða endurskoðenda reikninga héraðssjóðs og tveggja til vara til tveggja ára í senn.
c) Kosning fulltrúa og varamanna þeirra á leikmannastefnu til fjögurra ára í senn, sbr. starfsreglur um leikmannastefnu.
d) Kosning aðalmanns og varamanns til fulltrúaráðs Hjálparstarfs kirkjunnar til tveggja ára í senn.
11. Aðrar kosningar eða tilnefningar sem heyra undir héraðsfund.
12. Önnur mál.
7. gr. Prófastur boðar aukahéraðsfund, ef þurfa þykir. Skylt er að boða slíkan fund, ef fjórðungur atkvæðisbærra héraðsfundarmanna óskar þess. Ákvæði starfsreglna þessara eiga við um slíka fundi eins og við getur átt.
Um héraðsnefnd.
8. gr. Héraðsnefnd fer með stjórn héraðssjóðs. Hún er framkvæmdanefnd héraðsfundar og skal starfa á milli héraðsfunda. Héraðsnefnd er í fyrirsvari fyrir prófastsdæmið að því er varðar sameiginleg málefni prófastsdæmisins. Héraðsnefnd skipa þrír menn. Formaður nefndarinnar er starfandi prófastur en héraðsfundur kýs aðra nefndarmenn til tveggja ára í senn og varamenn þeirra með sama hætti. Héraðsfundi er þó heimilt að kjósa annan fulltrúann til eins árs, þannig að leikmaður verði eftirleiðis kosinn annað hvort á og prestur hitt. Sama gildir þá um varamenn þeirra. Nefndin skiptir að öðru leyti sjálf með sér verkum.
9. gr. Verkefni héraðsnefndar eru sem hér segir:
1. Héraðsnefnd fylgir eftir samþykktum héraðsfunda og sendir þær biskupi Íslands, vígslubiskupi og öðrum, sem hlut eiga að máli.
2. Héraðsnefnd ákveður úthlutanir úr sjóðnum á grundvelli samþykkta héraðsfunda og sér um reikningshald hans.
3. Héraðsnefnd gerir grein fyrir starfsemi sjóðsins á héraðsfundi og skal leggja fram ársreikninga liðins almanaksárs og fjárhagsáætlun næsta almanaksárs til samþykktar á héraðsfundi.
4. Héraðsnefnd ræður starfsmenn til að gegna einstökum verkefnum, sem héraðsfundur hefur samþykkt.
5. Héraðsnefnd leggur fram starfs- og fjárhagsáætlun á héraðsfundi og ber ábyrgð á framkvæmd hennar. Heimilt er héraðsnefnd að skipa starfshópa eða nefndir til að vinna að einstökum þáttum starfsáætlunar.
6. Héraðsnefnd sér til þess að starfsemi og rekstur, samkvæmt ákvörðunum héraðsfundar, færsla bókhalds, varsla gagna og önnur atriði í rekstri séu jafnan í góðu horfi.
10. gr. Prófastur kveður héraðsnefnd saman til fundar svo oft sem þörf krefur. Skylt er að halda fund ef tveir nefndarmanna óska þess. Nefndarmenn fá greidda reikninga fyrir útlagðan kostnað úr héraðssjóði. Nefndarmenn fá greidda þóknun fyrir fundarsetu, en þó ekki prófastur.
Um héraðssjóð.
11. gr. Héraðsfundi er heimilt að ákveða að allt að 5% af innheimtum sóknargjöldum, skv. I. kafla laga um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987, renni í sérstakan sjóð, héraðssjóð, í vörslu prófasts. Héraðssjóður styrkir eða kostar kirkjulega starfsemi innan prófastsdæmis, einkum er varðar samstarf og samstarfsverkefni sókna, fræðslu, málþing, náms- og mótsferðir, fundi og einstök þróunarverkefni. Sjóðnum er ætlað að standa undir kostnaði af sameiginlegum kirkjulegum verkefnum innan prófastsdæmisins eftir ákvörðun héraðsfundar og héraðsnefndar. Jafnframt er heimilt að veita styrki úr sjóðnum til einstakra sókna. Héraðssjóði er heimilt að styrkja, kosta eða veita sameiginlega þjónustu fyrir sóknir sem eru í formlegu samstarfi innan prófastsdæmisins.
12. gr. Héraðssjóður greiðir að jafnaði ekki laun utan nefndarlaun og laun sérstakra starfsmanna prófastsdæmisins, sbr. 4. tölul. 9. gr. Héraðssjóður styrkir að jafnaði ekki hefðbundið safnaðarstarf einstakra sókna, sbr. gildandi starfsreglur um söfnuði og sóknarnefndir hverju sinni, nýbyggingar og viðhald bygginga. Héraðssjóður styrkir ekki það sem fellur undir starfskostnað presta og prófasta, sbr. starfsreglur um starfskostnað vegna prestsþjónustu og prófastsstarfa.
13. gr. Endurskoðun reikninga sjóðsins annast tveir endurskoðendur eða skoðunarmenn kjörnir af héraðsfundi til tveggja ára í senn.
Gildistaka.
14. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru með heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 78/1997, öðlast gildi 1. janúar 2022. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um héraðsfundi og héraðsnefndir nr. 982/2020.
Starfsreglur um íslensku þjóðkirkjuna erlendis nr. 27/2021-2022
Gildissvið og markmið.
1. gr. Starfsreglur þessar gilda um störf, verkefni og þjónustu íslensku þjóðkirkjunnar erlendis og hafa það að markmiði að lýsa og afmarka meginhlutverk hennar.
Íslenska þjóðkirkjan erlendis.
2. gr. Íslenska þjóðkirkjan erlendis er sérstakt viðfangsefni þjóðkirkjunnar og heyrir undir biskup Íslands. Íslenska þjóðkirkjan erlendis sinnir boðun trúar, fræðslu og kærleiksþjónustu meðal Íslendinga á erlendri grund, með helgihaldi, sálgæslu, uppfræðslu í trú og sið. Jafnframt er henni ætlað að vera vettvangur fyrir og styðja við menningarlega starfsemi á kristilegum grundvelli.
Störf og starfsskyldur presta og djákna.
3. gr. Um störf og starfsskyldur presta og djákna sem starfa innan vébanda íslensku þjóðkirkjunnar erlendis gilda, auk ákvæða starfsreglna þessara, starfsreglur um djákna nr. 31/2022-2023, starfsreglur um presta nr. 6/2023-2024, Samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar, svo og aðrar starfsreglur kirkjuþings og önnur ákvæði íslenskra réttarheimilda eftir því sem við á. Prestar og djáknar íslensku þjóðkirkjunnar erlendis starfa á grundvelli vígslubréfs og erindisbréfs sem biskup setur þeim, svo og ráðningarsamnings og starfslýsingar. Um samskipti presta og djákna við sóknarnefndir eða safnaðarstjórnir erlendis skal einkum, eftir því sem við á, höfð hliðsjón af ákvæðum starfsreglna um söfnuði og sóknarnefndir nr. 16/2021-2022, með síðari breytingum.
Störf fyrir sendiráð og önnur stjórnvöld.
4. gr. Prestar og djáknar sem starfa innan vébanda íslensku þjóðkirkjunnar erlendis veita íslensku sendiráðunum og stjórnvöldum þjónustu eftir því sem um semst.
Hlutverk biskupsstofu.
5. gr. Biskupsstofa hefur þessi verkefni með höndum fyrir íslensku þjóðkirkjuna erlendis:
1. Umsjón með þjónustu, starfrækslu og fjárreiðum vegna þeirra stöðugilda sem biskup semur um.
2. Lögmælt tilsjón með söfnuðum og vígðri þjónustu.
3. Aðstoð við öflun fjár til starfseminnar og undirbúning samningsgerðar um stöðugildi við hlutaðeigandi aðila, ráðuneyti, innlendar stofnanir, kirkjuleg stjórnvöld erlendis og íslenska söfnuði.
4. Kynningu á starfseminni jafnt innan kirkjunnar sem utan.
5. Önnur verkefni eftir nánari ákvörðun biskups.
Umfang og kostun þjónustu o.fl.
6. gr. Biskup ákveður hvar skuli veita þjónustu djákna eða presta meðal Íslendinga erlendis með þeim fjárhagsskorðum sem settar eru í 2. mgr. Til þjónustu íslensku þjóðkirkjunnar erlendis er heimilt að nýta það fjárframlag sem kirkjuþing ákveður til starfseminnar ár hvert. Ennfremur er heimilt að nýta fjárframlög sem einstakir söfnuðir kjósa að leggja til þjónustunnar við viðkomandi söfnuð. Heimilt er að ákvarða og greiða starfstengdan kostnað og annan kostnað en laun í mynt þess lands þar sem viðkomandi djákni eða prestur starfar.
Ráðningar og starfslok.
7. gr. Um ráðningar djákna og presta í störf fyrir íslensku þjóðkirkjuna erlendis fer samkvæmt starfsreglum um djákna nr. 31/2022-2023 og starfsreglum um ráðningu í preststörf nr. 17/2020-2021, með síðari breytingu, eftir því sem við á. Umsækjendur um störf fyrir íslensku þjóðkirkjuna erlendis skulu uppfylla almenn lögmælt skilyrði til ráðningar í starf djákna eða prests. Að jafnaði skal einnig miða við að umsækjendur hafi góða tungumálakunnáttu, mikla færni í mannlegum samskiptum, menningarlæsi og aðlögunarhæfni, svo og reynslu af barna- og æskulýðsstarfi. Æskilegt er að umsækjendur hafi sérþekkingu og menntun á sviði sálgæslu. Ef starf eða stöðugildi er samstarfsverkefni íslensku þjóðkirkjunnar og ráðuneytis og/eða ríkisstofnunar, þá skulu samstarfsaðilar tilnefna fulltrúa sína til að gegna ráðgefandi hlutverki gagnvart matsnefnd um hæfni umsækjenda, sbr. 4. mgr. 5. gr. starfsreglna nr. 144/2016. Með sama hætti skal söfnuði ávallt boðið að tilnefna ráðgefandi fulltrúa.
Ath. að starfsreglur nr. 144/2016 féllu brott 1. janúar 2022, við gildistöku starfsreglna um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2020-2021.
Samráðsfundur íslensku þjóðkirkjunnar erlendis.
8. gr. Biskup Íslands, eða tilnefndur fulltrúi hans, kallar að jafnaði annað hvert ár til samráðsfundar íslensku þjóðkirkjunnar erlendis. Fundurinn skal vera samstarfs- og samráðsvettvangur um hvaðeina er lýtur að þjónustu þjóðkirkjunnar á erlendri grund, stefnumótun og fjáröflun. Heimilt er að halda samráðsfundi með stafrænum hætti þegar slíkt þykir henta betur, t.d. sökum kostnaðarsjónarmiða eða ferðatakmarkana. Til fundarins skal bjóða fulltrúum frá hverjum söfnuði íslensku kirkjunnar erlendis.
Lagaheimild, gildistaka o.fl.
9. gr. Starfsreglur þessar sem settar eru á grundvelli 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 öðlast gildi við birtingu á opnum vef þjóðkirkjunnar. Jafnframt falla brott frá sama tíma starfsreglur um íslensku þjóðkirkjuna erlendis nr. 1003/2005, með síðari breytingum.
Gildistaka 7. desember 2021.
Starfsreglur um kirkjur og safnaðarheimili nr. 46/2022-2023
Skilgreiningar.
1.gr. Í starfsreglum þessum merkir orðið kirkja vígt guðshús, ásamt innanstokksmunum og gripum. Eftirtaldir flokkar kirkna falla undir starfsreglur þessar:
1. Sóknarkirkjur. Guðshús sem ákveðin kirkjusókn stendur að og nýtt er af söfnuði til reglulegs helgihalds.
2. Kapellur og önnur guðshús sem nýtt eru til helgihalds eftir nánari ákvörðun umráðanda og hlutaðeigandi presta.
3. Greftrunarkirkjur, sbr. 3. mgr. 20. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993. Guðshús sem eingöngu eru nýtt við greftranir.
4. Útfararkirkjur, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993. Önnur guðshús en greftrunarkirkjur, sem nýtt eru við útfarir.
5. Höfuðkirkjur. Sóknarkirkjur sem hafa sérstöðu umfram aðrar sóknarkirkjur. Er þar átt við Dómkirkjuna í Reykjavík, Hóladómkirkju, Skálholtsdómkirkju, Hallgrímskirkju í Reykjavík og Hallgrímskirkju í Saurbæ.
6. Bændakirkjur og lénskirkjur.
7. Bænhús. Bænhús nefnast þær kirkjur, sem ekki eru sóknarkirkjur. Bænhúsi getur fylgt kirkjugarður, og er þá fjárhagur þeirra sameiginlegur, enda sé það einnig greftrunarkirkja.
Í starfsreglum þessum merkir orðið safnaðarheimili hús sem lýtur eignarráðum safnaðar og nýtt er til safnaðarstarfs. Reglur þessar taka einnig til húsnæðis sem er hluti af kirkjubyggingu og nýtt er í sama skyni. Enn fremur gilda reglurnar um húseignir sem söfnuður nýtir skv. 1. málsl. í samstarfi við annan aðila, eins og við getur átt.
Sóknarkirkja.
2. gr. Sóknarkirkja skal vera í hverri sókn. Þó er sóknum heimilt að sameinast um sóknarkirkju.
Samstarf sókna um kirkju og safnaðarheimili.
3. gr. Hyggist sóknir eiga samstarf sín á milli um byggingu og/eða rekstur kirkju og safnaðarheimilis skal samið um hvaða starfi skuli haldið uppi, hvaða reglur gildi um afnot og umgengni, hver ábyrgist daglegan rekstur og stjórn og hvaða endurgjald skuli innt af hendi fyrir afnotin.
Sameining sókna.
4. gr. Ef sóknir sameinast skal aðalsafnaðarfundur hinnar sameinuðu sóknar ákveða hvar sóknarkirkja skal vera og hvaða kirkjur verða kapellur svo og hvaða kirkjur skuli afleggjast, verða afhentar til minjavörslu ef því er að skipta, eða ráðstöfun þeirra með öðrum hætti.
Umráð kirkju og safnaðarheimilis.
5. gr. Umráð kirkju og safnaðarheimilis felast í ábyrgð á og rétti til rekstrar og stjórnar, svo og til hagnýtingar fjár og tekjustofna sem fylgja í því skyni. Umráðandi kirkju og safnaðarheimilis er sóknarnefnd þar sem kirkja og safnaðarheimili stendur, nema lög mæli annan veg, sbr. og starfsreglur um söfnuði og sóknarnefndir. Sóknarnefnd fer ekki með umráð ef um bændakirkju eða lénskirkju er að ræða sem ekki hefur verið afhent söfnuði. Sama á við um kirkjur sem reistar hafa verið að tilstuðlan ríkis eða annarra aðila og á þeirra kostnað og ekki hafa verið afhentar söfnuði. Ef um greftrunarkirkju er að ræða er hlutaðeigandi kirkjugarðsstjórn umráðandi hennar.
Afnot kirkju og safnaðarheimilis.
6. gr. Kirkjur eru fráteknar til helgra athafna. Má ekkert fara þar fram sem ekki samrýmist helgi þeirra. Hlutaðeigandi prestur og umráðandi geta sett nánari fyrirmæli um afnot kirkju og umgengni á grundvelli 1. og 2. málsl. ákvæðis þessa, en ekki má leyfa neina þá notkun sem ekki samrýmist vígslu hennar. Í slíkum fyrirmælum skal eftir því sem við á, kveðið á um almennan aðgang að kirkjunni utan helgihalds. Enn fremur skal þar tilgreint hvaða önnur starfsemi má fara þar fram en hin kirkjulega. Safnaðarheimili er ætlað til almenns safnaðarstarfs. Heimilt er umráðanda, í samráði við sóknarprest, að ráðstafa húsnæði safnaðarins með öðrum hætti. Þess skal þó jafnan gætt að ekkert fari þar fram sem samrýmist ekki starfi safnaðarins.
Ábyrgð á helgihaldi og öðru sem fram fer í kirkju og safnaðarheimili.
7. gr. Ábyrgð á helgihaldi í kirkju og öðru því sem þar fer fram er á hendi hlutaðeigandi sóknarprests í samráði við sóknarnefnd. Ef um kirkju er að ræða sem einvörðungu eða að langmestu leyti er nýtt í tengslum við sérþjónustu er ábyrgð á hendi hlutaðeigandi sérþjónustuprests í samráði við umráðanda. Ábyrgð á starfsemi í safnaðarheimilum og því sem þar fer fram er á hendi umráðanda í samráði við sóknarprest.
Umgengni um kirkjur og safnaðarheimili.
8. gr. Öll umgengni um kirkjur og safnaðarheimili skal vera snyrtileg. Prýða skal umhverfi eins og kostur er og gæta vel umhirðu og viðhalds í hvívetna. Eigi má geyma í kirkju annað en muni hennar og búnað og hluti er varða safnaðarstarfið. Forna muni kirkjunnar skal varðveita þar, sé geymsla þeirra þar talin tryggileg að mati prófasts og Þjóðminjasafns Íslands.
Auðkenning kirkna.
9. gr. Kirkjur og safnaðarheimili skulu auðkennd með táknum kristinnar kirkju.
Máldagar kirkna.
10. gr. Biskup Íslands setur hverri kirkju máldaga, þ.e. kirkjuskrá. Í máldaga skal greina eignir kirkju, tekjustofna og réttindi, kvaðir er á kirkju kunna að hvíla, sóknarmörk og þjónusturétt sem sóknin á tilkall til. Máldagann og breytingar á honum skal skrá í sérstaka bók, máldagabók, er biskup löggildir. Afrit máldagans skal vera í vörslu biskups. Öðrum guðshúsum, sbr. stafliði b-g í 1. gr. skal einnig settur máldagi. Sóknarnefnd varðveitir máldagabók og ber ábyrgð á að máldagi greini jafnan frá eignum og réttindum kirkju. Í máldagabók skal einnig skrá eins haldgóðar upplýsingar og völ er á um kirkjuna, byggingarsögu hennar, endurbætur, viðhald, búnað og kirkjumuni er kirkjan á. Biskup og prófastur kanna máldaga er þeir vísitera, árita máldagabækur og gera athugasemdir ef efni þykja standa til þess. Eftirtaldir máldagar gilda svo sem tíðkast hefur:
Í Skálholtsstifti:
Hin gamla máldagabók eða kirkjuregistur Vilchins biskups, samantekin 1397.
Í Hólastifti:
Registur og máldagabók Jóns biskups Eiríkssonar 1360,
Péturs biskups 1394,
Auðunar biskups 1398,
Ólafs biskups Rögnvaldssonar 1461 og
Sigurðar prests, sem safnað var eftir siðaskiptin. Eldri máldaga kirkju skal eftir föngum skrá í máldagabók.
Ágreiningur um fornar eignir og réttindi kirkna.
11. gr. Nú verður ágreiningur um fornar eignir og réttindi kirkna og eru þá áreiðanlegar þær skrár og löggiltar kirkjuskrár og máldagabækur, sem greinir í 10. gr. Ákvæði þessarar greinar taka einnig til ágreinings um búnað og muni kirkna eftir því sem við getur átt.
Tilsjón með kirkjum.
12. gr. Kirkjur og safnaðarheimili lúta tilsjón prófasts og biskups.
Nýbyggingar eða breytingar.
13. gr. Ákvörðun sóknarnefndar, safnaðarfunda og byggingarnefndar um gerð kirkju, stækkun eða aðrar breytingar á henni, skal kynnt þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar áður en til endanlegrar ákvörðunar kemur.
Vígsla.
14. gr. Vígja skal kirkju sem reist er eða endurbyggð frá grunni, sbr. ákvæði Kristinréttar Árna biskups Þorlákssonar 1275, enda sé hún vígsluhæf að dómi prófasts.
Kirkja sem ekki er talin þörf á lengur.
15. gr. Ef umráðandi telur að kirkju sé ekki lengur þörf til kirkjulegs starfs, en telja má æskilegt að varðveita hana, getur hann leitað aðstoðar þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar um ráðstöfun hennar. Hafa skal samráð við hlutaðeigandi sóknarprest, prófast og vígslubiskup um þá ráðstöfun svo og þjóðminjavörð og önnur stjórnvöld eða hagsmunaaðila eftir því sem við á. Ef um er að ræða kirkju í mannlausri sókn eða kirkju sem hefur verið yfirgefin og engum er til að dreifa sem getur talist lögmætur umráðandi, er prófastur umráðandi kirkjunnar uns annað hefur verið ákveðið.
Afhelgun.
16. gr. Óski umráðandi að breyta kirkju eða afnotum hennar á þann veg sem ekki samrýmist helgi hennar og vígslu og telja má að kirkjulegu starfi sé ekki búin umtalsverð röskun af slíkri ráðstöfun, skal sóknarprestur lýsa afhelgun hennar í sérstakri athöfn, að hún gegni eigi framar hlutverki sem vígt guðshús, sbr. 1. gr. Skilyrði er að áður liggi fyrir samþykki hlutaðeigandi yfirvalda og hagsmunaaðila, annarra en kirkjulegra, eftir því sem við á í hverju tilviki og lög bjóða. Leita skal samþykkis biskups Íslands sem leitar umsagnar hlutaðeigandi sóknarprests, prófasts og vígslubiskups áður en úrlausn er veitt. Að jafnaði skal umráðandi fjarlægja altari, predikunarstól, skírnarfont, gráður, kross af turni, altaristöflu og aðra gripi sem eru tákn kristinnar kirkju og nýttir til helgihalds og njóta helgi, áður en afhelguð kirkja er tekin til annarra nota. Frá þessu má víkja ef helgi þykir ekki raskað, eða umtalsverðum hagsmunum öðrum og prófastur og vígslubiskup samþykkja. Prófastur sér til þess að gripir þessir og gögn fái lögmæta og viðeigandi meðhöndlun. Ef umráðandi óskar að taka kirkju ofan, skulu sömu reglur eiga við og greinir í 1. mgr. en leita skal álits Þjóðminjasafns Íslands um það hvort varðveita skuli kirkju annars staðar. Kirkjusókn er ekki skylt að bera kostnað af slíkri varðveislu, hvorki þar sem kirkja var né þar sem hún verður, ef því er að skipta. Að jafnaði skal marka þann stað þar sem altari kirkjunnar var.
Gildistaka.
17. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru með heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna, nr. 77/12021 öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um kirkjur og safnaðarheimili nr. 822/2000, með síðari breytingum.
Gildistaka 10. mars 2023.
Starfsreglur um kirkjutónlist á vegum þjóðkirkjunnar
nr. 1074-2017, sbr. starfsrgl. nr. 45/2022-2023.
Stefna þjóðkirkjunnar í kirkjutónlistarmálum.
1. gr. Á vegum þjóðkirkjunnar skal staðið að kirkjutónlistarmálum með hliðsjón af og í samræmi við tónlistarstefnu þjóðkirkjunnar sem kirkjuþing samþykkir.
Meginviðfangsefni kirkjutónlistarstefnu eru söngur og tónlistarflutningur við helgiathafnir kirkjunnar, almenn fræðsla, menntun og símenntun starfsmanna í kirkjutónlist.
Framkvæmd kirkjutónlistarstefnu og umsjón með kirkjutónlistarmálum.
2. gr. Biskup Íslands ábyrgist framkvæmd tónlistarstefnu þjóðkirkjunnar í samræmi við starfsreglur þessar. Biskup skipar söngmálastjóra þjóðkirkjunnar til að framfylgja kirkjutónlistarstefnunni og hafa umsjón með framkvæmd hennar. Biskup setur söngmálastjóra þjóðkirkjunnar erindisbréf.
3. gr… Felld brott með starfsrgl. nr. 45/2022-2023.
Menntun.
4. gr. Framkvæmd og umsjón kirkjutónlistarstefnu skal einkum felast í því að
1. veita organistum, prestum, kórstjórum, kirkjukórum, barnakórum og öðrum sem að kirkjulegu tónlistarstarfi koma ráðgjöf, fræðslu, aðstoð og stuðning,
2. mennta organista og annað tónlistarfólk til starfa innan kirkjunnar,
3. bjóða upp á símenntun í kirkjutónlist, sálmafræði og lítúrgískum fræðum.
5. gr. Kirkjan starfrækir Tónskóla þjóðkirkjunnar sem annast um menntun organista og kirkjutónlistarfræðslu þeirra og annars tónlistarfólks innan kirkjunnar, sbr. 4. gr, liði b og c. Tónskólinn heyrir undir biskup. Skólinn starfar eftir námsskrá sem biskup samþykkir.
6. gr. Biskup skipar þriggja manna kirkjutónlistarráð sem er stjórn Tónskóla þjóðkirkjunnar og fagráð í kirkjutónlistarmálum. Það starfar í samráði við söngmálastjóra þjóðkirkjunnar. Kirkjutónlistarráð ber ábyrgð á að skólinn sinni skyldum sínum og haldi sig innan fjárheimilda hverju sinni. Færa skal til bókar meginatriði þess sem fram fer á fundum kirkjutónlistarráðs og ákvarðanir þess. Fundargerðir skulu sendar biskupi. Biskup setur kirkjutónlistarráði erindisbréf. Tilnefningar til setu í kirkjutónlistarráði: Biskup tilnefnir formann ráðsins og einn til vara, stjórn Félags íslenskra organleikara tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara og stjórn Prestafélags Íslands einn fulltrúa og einn til vara.
7. gr. Söngmálastjóri er skólastjóri Tónskóla þjóðkirkjunnar. Skólastjóri annast daglega yfirstjórn skólans og ræður annað starfsfólk hans í samráði við stjórn.
8. gr. Skólastjóri Tónskólans gerir árlega starfs- og rekstraráætlun í samráði við kirkjutónlistarráð og leggur fyrir biskup til samþykktar. Starfs- og rekstrarár skólans er almanaksárið.
Skólastjóri skilar ársskýrslu og ber ábyrgð á gerð ársreiknings sem lagður er fyrir biskup.
1
9. gr. Tónskólanum er heimilt að afla sértekna.
Organistar.
10. gr. Organistum er falin tónlistarstjórn safnaða þjóðkirkjunnar. Skilyrði fyrir ráðningu í starf organista er próf í kirkjutónlist frá Tónskóla þjóðkirkjunnar eða sambærileg próf í kirkjutónlist.
11. gr. Sóknarnefndir auglýsa laus störf organista í samræmi við starfsreglur þessar. Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, skólastjóri Tónskólans og formaður FÍO veita faglega aðstoð við ráðningarferli.
Fáist ekki organisti til starfa með tilskilda kirkjutónlistarmenntun, sbr. 10. gr., er heimilt að ráða tímabundið í starfið til eins árs í senn.
Auglýsa skal laus störf organista með fjögurra vikna umsóknarfresti hið minnsta.
Í auglýsingu skal koma fram ítarleg starfslýsing, ráðningarkjör og umsóknarfrestur.
Í umsókn skal umsækjandi gera grein fyrir menntun og fyrri störfum og skila gögnum þar um eftir því sem við á.
12. gr. Organisti stýrir tónlistarstarfi safnaðar í samráði við presta, sóknarnefnd og annað starfsfólk s.s. stjórnendur annarra kóra safnaðarins og starfsfólk í barna- og æskulýðsstarfi. Organisti gerir árlega starfs- og rekstraráætlun og leggur fyrir sóknarnefnd til samþykktar. Organisti ber ábyrgð á hljóðfærum safnaðarins, notkun þeirra og viðhaldi. Sóknarnefnd setur organista erindisbréf.
13. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 57. og 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, með síðari breytingum, öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um organista nr. 823/1999, með síðari breytingum og starfsreglur um kirkjutónlist á vegum þjóðkirkjunnar nr. 768/2002, með síðari breytingum.
Við gildistöku laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, þann 1. júlí 2021, féllu lög nr. 78/1997 brott.
Gildistaka 8. desember 2017.
Starfsreglur um kirkjuþing
nr. 10/2021-2022, sbr. starfsrgl. nr. 13/2022-2023, nr. 45/2022-2023 og nr. 41/2023-2024.
Kirkjuþing.
1. gr. Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þar með talið fjárstjórnarvald, nema lög kveði á um annað.
Kirkjuþing markar stefnu þjóðkirkjunnar í sameiginlegum málefnum hennar, öðrum en þeim sem lúta að kenningu kirkjunnar.
Kosið skal til kirkjuþings leynilegri kosningu til fjögurra ára í senn. Á kirkjuþingi eiga sæti 29 fulltrúar, 17 leikmenn og 12 vígðir.
Kirkjuþing kýs þingforseta úr röðum leikmanna þingsins og tvo varaforseta með sama hætti. Saman mynda þeir forsætisnefnd þingsins. Forseti kirkjuþings boðar til þingsins.
Verkefni kirkjuþings.
2. gr. Kirkjuþing setur starfsreglur um málefni þjóðkirkjunnar, þar á meðal um skipulag kirkjuþings, svo sem kjör til þess, kjördæmaskipan, fjölda kirkjuþingsfulltrúa, þingsköp og verkefni þingsins. Enn fremur samþykkir kirkjuþing ályktanir og samþykktir um málefni þjóðkirkjunnar.
Kirkjuþing hefur að jafnaði frumkvæði að frumvörpum til laga um málefni þjóðkirkjunnar og leggur til við ráðherra kirkjumála að þau verði flutt á Alþingi.
Kirkjuþing veitir umsögn og gerir tillögur um lagafrumvörp ráðherra kirkjumála um kirkjuleg málefni sem hann hyggst flytja á Alþingi.
Kirkjuþing ábyrgist rekstur og fjármál þjóðkirkjunnar, nema starfsreglur þingsins kveði á um annað.
Forseti kirkjuþings.
3. gr. Forseti kirkjuþings ber ábyrgð á starfsemi og rekstri þingsins og hefur æðsta vald í stjórnsýslu þess, eftir því sem kirkjuþing mælir nánar um.
Forseti undirbýr þinghald kirkjuþings í samráði við forsætisnefnd og stýrir störfum þingsins skv. gildandi starfsreglum um þingsköp kirkjuþings hverju sinni.
Forseti gætir þess, í samvinnu við stjórn Þjóðkirkjunnar, að starfsreglum, ályktunum og öðrum samþykktum kirkjuþings sé fylgt eftir og að þær séu endurskoðaðar eftir þörfum.
Forseti kirkjuþings skal birta starfsreglur, samþykktir og ályktanir kirkjuþings á opnum vef kirkjunnar innan fjögurra vikna frá samþykkt þeirra.
Við birtingu starfsreglna og ályktana kirkjuþings má ekkert undan fella sem þar á að standa og fram hefur komið á þinginu og hljóðupptaka ber með sér. Engar efnisbreytingar má gera nema leiðrétta þurfi auðsæjar og sannanlegar villur sem telst sjálfsögð leiðrétting.
Óski aukinn meiri hluti þingfulltrúa, þ.e. 2/3 hlutar, eftir því, meðan á kjörtímabili stendur, að kosið verði að nýju til forseta kirkjuþings skulu kosningar til þingforseta fara fram.
Stjórn Þjóðkirkjunnar.
4. gr. Kirkjuþing kýs árlega stjórn Þjóðkirkjunnar á síðasta fundi reglulegs kirkjuþings að hausti. Stjórnina skipa fimm kirkjuþingsfulltrúar úr röðum aðalmanna, þrír úr hópi óvígðra og tveir úr hópi vígðra. Þrír varamenn eru kosnir með sama hætti. Formaður komi úr röðum leikmanna og skal kosinn sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.
Stjórnin starfar á ábyrgð kirkjuþings og lýtur boðvaldi þingsins. Stjórnin fer með æðsta vald í fjármálum kirkjunnar á milli þinga innan þeirra marka er starfsreglur um fjármál setur henni. Meirihluti stjórnar ritar firma Þjóðkirkjunnar.
Aðsetur kirkjuþings.
5. gr. Kirkjuþing hefur aðsetur á rekstrarstofu þjóðkirkjunnar. Rekstrarstofa veitir forseta þingsins og kirkjuþingsfulltrúum alla nauðsynlega þjónustu og þá aðstoð sem þörf krefur. Forseti, í samráði við framkvæmdastjóra rekstrarstofu, ræður starfsfólk kirkjuþings í samræmi við gildandi fjárheimildir hverju sinni.
Þingfararkaup, ferða- og dvalarkostnaður.
6. gr. Kirkjuþingsfulltrúar og aðrir sem seturétt eiga á þinginu fá þingfararkaup fyrir hvern dag sem þingið situr. Ef varamaður er kvaddur til skal hann fá þingfararkaup fyrir hvern dag sem hann situr kirkjuþing en greiðsla til aðalmanns fellur brott sama tíma. Kjaranefnd ákveður þingfararkaup.
7. gr. Kirkjuþingsfulltrúar sem eiga lengri leið til og frá þingstað en 50 km fá greiddan akstur fram og til baka eða leigubílakostnað eða flugfargjald eftir því hver ferðamátinn er hagkvæmari. Forsætisnefnd kirkjuþings sker úr ágreiningi sem upp kann að koma um þetta efni.
8. gr. Kirkjuþingsfulltrúar fá greidda hálfa fæðispeninga, ef ekki er boðið upp á kvöldverð á kirkjuþinginu. Enn fremur fá þingfulltrúar greidda hálfa fæðispeninga vegna aksturs til og frá þingstað vari akstur þingmanns lengur en sex klukkustundir. Kirkjuþingsfulltrúar fá greiddan sanngjarnan gistikostnað, þar sem það á við. Greiðslur samkvæmt. 1. og 2. mgr. miðast við gildandi ákvarðanir ferðakostnaðarnefndar ríkisins, sbr. auglýsingar nefndarinnar á vef stjórnarráðsins.
Gildistaka.
9. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru með heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi 1. janúar 2022. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um þingsköp kirkjuþings nr. 949/2009, með síðari breytingum.
Starfsreglur um kirkjuþing unga fólksins
nr. 42/2021-2022, sbr. starfsrgl. nr. 29/2023-2024 og starfsrgl. nr. 15/2024-2025.
Hlutverk og skipulag.
1. gr. Biskup Íslands skipar verkefnastjóra kirkjuþings unga fólksins að vori ár hvert og boðar til þingsins í samráði við forseta kirkjuþings hins almenna. Þingið skal haldið árlega að hausti og starfi í tvo daga yfir helgi. Þingmál skulu hafa borist þingfulltrúum a.m.k. fimm virkum dögum fyrir þingdag.
2. gr. Hlutverk kirkjuþings unga fólksins er að ræða stöðu og hlutverk ungs fólks í þjóðkirkjunni og í samfélagi kirkna um heim allan. Kirkjuþing unga fólksins er vettvangur ungs fólks til að hafa áhrif á starfsemi kirkjunnar.
3. gr. Biskup annast undirbúning kirkjuþings unga fólksins í samvinnu við verkefnastjóra og starfandi svæðisstjóra æskulýðsmála.
Þingfulltrúar.
4. gr. Á kirkjuþingi unga fólksins eiga sæti 21 fulltrúi prófastsdæmanna með málfrelsi, tillögu- og atkvæðisrétt. Fjöldi fulltrúa hvers prófastsdæmis er sem hér segir:
a. Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, 3 fulltrúar
b. Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, 3 fulltrúar
c. Kjalarnessprófastsdæmi, 3 fulltrúar
d. Vesturlandsprófastsdæmi, 2 fulltrúar
e. Vestfjarðaprófastsdæmi, 2 fulltrúar
f. Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi, 2 fulltrúar
g. Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, 2 fulltrúar
h. Austurlandsprófastsdæmi, 2 fulltrúar
i. Suðurprófastsdæmi, 2 fulltrúar.
Tveir fulltrúar KFUM og KFUK á Íslandi eiga seturétt á kirkjuþinginu með málfrelsi og tillögurétt.
Fulltrúar skulu vera á aldursbilinu 16 til 35 ára, skráðir í þjóðkirkjuna og með tengst við þjóðkirkjuna í því kjördæmi sem þeir sitja fyrir. Svæðisstjórar bera ábyrgð á tilnefningum og vali fulltrúa til kirkjuþings unga fólksins í samráði við sóknarpresta, presta, djákna, æskulýðsfulltrúa og aðra sem bera ábyrgð á kirkjustarfi í hverju prófastsdæmi. Í þeim prófastdæmum þar sem svæðisstjóri er ekki starfandi skal prófastur annast tilnefningar. Biskup tilkynnir öllum sem að framan greinir um rétt þeirra til að tilnefna fulltrúa. Svæðisstjóri og prófastur, þar sem við á, tilkynna valda fulltrúa til verkefnisstjóra kirkjuþings unga fólksins. Skulu fulltrúar kirkjuþings unga fólksins vera valdir til tveggja ára. Geti fulltrúi ekki komist á þingið af einhverjum orsökum skal nýr fulltrúi (varamaður) vera valinn í hans stað sem hefur þá þátttökurétt til tveggja ára.
Biskup Íslands boðar valda þingfulltrúa til kirkjuþings unga fólksins fjórum vikum fyrir þingdag. Forráðamenn þingfulltrúa, sem ekki hafa náð lögaldri, gefa skriflegt leyfi fyrir þátttöku þeirra á þinginu. Þingið telst þinghæft ef tveir þriðju sæta eru setin.
Þingsköp.
5. gr. Kirkjuþing unga fólksins hefst með helgistund er biskup Íslands annast. Þá setur forseti kirkjuþings þingið og stýrir því fram yfir kosningu forseta og varaforseta.
6. gr. Í upphafi kirkjuþings unga fólksins eru kosnir forseti, tveir varaforsetar og tveir fundarritarar.
7. gr. Kirkjuþing unga fólksins starfar á boðuðum þingfundum og í þremur þingnefndum. Í upphafi þingsins skulu lögð fram mál sem fjalla á um á þinginu. Fulltrúum ber að skila inn þingmálum til verkefnisstjóra kirkjuþings unga fólksins og biskupsstofu a.m.k. tíu dögum fyrir upphaf þings. Þessum aðilum ber að koma málunum fullunnum til þingmanna ekki síðar en fimm sólarhringum fyrir upphaf þingsins.
Eftir fyrri umræðu skal málinu vísað til nefndar. Forseti og varaforsetar skipa fulltrúa í nefndirnar svo og formenn þeirra. Formaður nefndar ber ábyrgð á skipulagningu nefndarstarfsins og getur kallað til utanaðkomandi aðila inn á nefndarfund. Formaður kynnir á þingfundi niðurstöðu nefndar. Mál eru samþykkt með handauppréttingu eða skriflegri atkvæðagreiðslu ef einhver óskar þess og dugir einfaldur meirihluti. Ályktanir og samþykktir kirkjuþings unga fólksins skulu sendar forsætisnefnd kirkjuþings til umfjöllunar og meðferðar.
8. gr. Auk afgreiðslu mála skal kirkjuþing unga fólksins kjósa einn fulltrúa á kirkjuþing með málfrelsi og tillögurétt.
Annað
9. gr. Á kirkjuþingi unga fólksins skal að öðru leyti taka mið af þingsköpum kirkjuþings eins og við getur átt.
10. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru með heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi 1. janúar 2022. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um kirkjuþing unga fólksins nr. 952/2009, með síðari breytingum.
Starfsreglur um kjaranefnd Þjóðkirkjunnar
nr. 12/2021-2022, sbr. starfsrgl. nr. 55/2021-2022, nr. 13/2022-2023 og nr. 19/2024-2025.
.
1. gr. Kirkjuþing kýs kjaranefnd þjóðkirkjunnar. Í starfsreglum þessum skal heiti nefndarinnar vera kjaranefnd kirkjunnar.
2. gr. Hlutverk kjaranefndar kirkjunnar er:
1. Að gæta hagsmuna þjóðkirkjunnar gagnvart samtökum þeirra launþega sem ráðnir eru þar til starfa, sérstaklega að því er varðar kaup og kjör.
2. Að koma fram sem samningsaðili fyrir hönd þjóðkirkjunnar gagnvart stéttarfélögum hlutaðeigandi starfsfólks eða öðrum þeim, sem umboð hafa til slíkrar samningsgerðar.
3. Að vinna að því að móta starfskjarastefnu þjóðkirkjunnar.
4. Að ákvarða laun biskups Íslands og vígslubiskupa.
5. Að ákveða þóknun fyrir störf í nefndum, ráðum, starfshópum og teymum á vegum þjóðkirkjunnar. Enn fremur ákveður nefndin þingfararkaup kirkjuþingsfulltrúa.
3. gr. Kjaranefnd kirkjunnar hefur umboð til samningsgerðar við þá sem tilgreindir eru í 2. tölul. 2. gr.
Samningar kjaranefndarinnar skulu undirritaðir með fyrirvara um samþykki kirkjuþings. Samþykki stjórn kjarasamningana leggur hún þá fyrir kirkjuþing til samþykktar eða synjunar.
4. gr. Þegar kjaranefnd ákvarðar laun og önnur starfskjör biskups Íslands og vígslubiskupa aflar nefndin af sjálfsdáðum nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Í því skyni getur nefndin óskað eftir skýrslum, munnlegum og/eða skriflegum til að tryggja fagleg vinnubrögð, að mál séu hæfilega rannsökuð áður en ákvarðanir eru teknar og að þeir sem ákvarðanir beinast að komi sjónarmiðum sínum að. Nefndin getur og heimilað málsaðilum að reifa mál sitt fyrir kjaranefnd. Kjaranefnd skal meta árlega hvort tilefni sé til breytinga á launum biskups Íslands og vígslubiskupa og ákvörðunum um þóknanir og þingfararkaup.
Birta skal á opnu vefsvæði þjóðkirkjunnar, kjarasamninga sem kjaranefnd gerir. Einnig skal birta ákvarðanir kjaranefndar um laun biskups og vígslubiskupa, ákvarðanir um aðrar greiðslur svo og upplýsingar um laun og þóknanir.
5. gr. Kjaranefnd kirkjunnar er skipuð þremur aðalmönnum og þremur til vara, sem kosnir eru til fjögurra ára í senn. Skulu nefndarmenn vera skráðir í þjóðkirkjuna og mega þeir ekki gegna launuðu starfi sem greitt er fyrir af hálfu þjóðkirkjunnar. Enginn getur setið nema tvö kjörtímabil samfellt í nefndinni. Nefndin er kosin á þriðja reglulega kirkjuþingi eftir kirkjuþingskosningar. Kirkjuþing ákveður hver skuli vera formaður kjaranefndarinnar, auk þess sem kosinn skal varaformaður. Varamenn taka sæti í þeirri röð sem þeir eru kosnir til. Skal fyrsti varamaður gegna formennsku í kjaranefndinni hátti svo til að allir aðalmenn í kjaranefnd starfi ekki að tilteknum samningum.
Forfallist aðal- eða varamaður í kjaranefnd kirkjunnar varanlega, skal á næsta kirkjuþingi kjósa nýjan í hans stað er sitji út kjörtímabil nefndarinnar.
Skylt er nefndarmönnum að gæta þagmælsku um það sem fram kemur á fundum og leynt á að fara eftir ákvörðun fundar eða samkvæmt eðli máls.
6. gr. Formaður kjaranefndar kirkjunnar ákveður hvenær nefndin skuli koma saman og hvar fundir skulu haldnir. Skylt er þó að kalla nefndina saman ef meiri hluti nefndarmanna óskar þess. Fundir í kjaranefnd kirkjunnar eru lögmætir hafi þeir verið boðaðir með minnst eins sólarhrings fyrirvara með dagskrá.
7. gr. Fundargerðir kjaranefndarinnar skulu, svo fljótt sem auðið er, vera aðgengilegar í gagnaherbergi kirkjuþings. Þjóðkirkjan annast nauðsynlega þjónustu við kjaranefndina eins og nefndin kann að óska eftir.
8. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru með heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjunnar nr. 77/2021, öðlast gildi við birtingu á opnum vef þjóðkirkjunnar.
Gildistaka 2. nóvember 2021.
Starfsreglur um kjör til kirkjuþings nr. 8/2021-2022.
Kosning til kirkjuþings og fjöldi þingfulltrúa.
1. gr. Kosning til kirkjuþings fer fram á fjögurra ára fresti.
Á kirkjuþingi eiga sæti 29 fulltrúar, 12 vígðir og 17 leikmenn.
Kjördæmi kirkjuþings og skipting fulltrúa.
2. gr. Á kirkjuþingi eru þrjú kjördæmi vígðra og níu leikmanna.
Kjördæmaskipan vígðra og fjöldi fulltrúa er eftirfarandi:
1. Reykjavíkurkjördæmi: Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og eystra- og Kjalarnesprófastsdæmi. Sex fulltrúar og þrír til vara.
2. Skálholtskjördæmi: Suður-, Vesturlands- og Vestfjarðaprófastsdæmi. Þrír fulltrúar og tveir til vara.
3. Hólakjördæmi: Húnavatns- og Skagafjarðar-, Eyjafjarðar- og Þingeyjar- og Austurlandsprófastsdæmi. Þrír fulltrúar og tveir til vara.
Kjördæmaskipan leikmanna og fjöldi fulltrúa er eftirfarandi:
1. Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, 1. kjördæmi. Þrír fulltrúar og þrír til vara.
2. Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, 2. kjördæmi. Þrír fulltrúar og þrír til vara.
3. Kjalarnesprófastsdæmi, 3. kjördæmi. Þrír fulltrúar og þrír til vara.
4. Vesturlandsprófastsdæmi, 4. kjördæmi. Einn fulltrúi og tveir til vara.
5. Vestfjarðaprófastsdæmi, 5. kjördæmi. Einn fulltrúi og tveir til vara.
6. Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi.
6. kjördæmi. Einn fulltrúi og tveir til vara.
7. Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, 7. kjördæmi. Tveir fulltrúar og tveir til vara.
8. Austurlandsprófastsdæmi 8. kjördæmi. Einn fulltrúi og tveir til vara.
9. Suðurprófastsdæmi, 9. kjördæmi. Tveir fulltrúar og tveir til vara.
Kosningarréttur vígðra.
3. gr. Kosningarrétt til kirkjuþings á hver sá sem vígslu hefur hlotið og er:
a. þjónandi prestur eða djákni íslensku þjóðkirkjunnar eða hjá íslenskum söfnuði þjóðkirkjunnar erlendis og er í föstu og launuðu starfi sem slíkur, eða
b. þjónandi prestur eða djákni sem lýtur tilsjónar biskups Íslands og er í föstu og launuðu starfi á vegum stofnunar og/eða félagasamtaka hér á landi.
Prestur eða djákni í tímabundnu leyfi, allt að tveimur árum, nýtur kosningarréttar.
Prestur sem settur er til þjónustu tímabundið nýtur ekki kosningarréttar nema í þeim tilfellum þar sem ekki er skipaður prestur fyrir.
Prestur, sem sinnir aukaþjónustu, nýtur ekki kosningarréttar fyrir það embætti sem hann sinnir aukaþjónustu í.
Djákni skal vera ráðinn til a.m.k. eins árs eða ótímabundið til að njóta kosningarréttar.
Prestur eða djákni sem látið hefur af þjónustu nýtur ekki kosningarréttar.
Kosningarréttur leikmanna.
4. gr. Kosningarrétt til kirkjuþings, sem leikmaður, á hver sá sem er:
a. aðal- og varamaður í sóknarnefndum í 1., 2. og 3. kjördæmi, sbr. 2. gr.,
b. aðal- og varamaður í sóknarnefndum í 4., 5., 6., 7., 8. og 9. kjördæmi, sbr. 2. gr.
Þá skulu hafa kosningarrétt allt að 15 fulltrúar úr hverju prestakalli í 1, 2. og 3. kjördæmi, valdir af sóknarnefnd eða sóknarnefndum, til viðbótar öðrum kjörfulltrúum, sbr. 1. mgr.
Takmörkun á kosningarrétti og kjörgengi.
5. gr. Biskupar og starfsmenn kirkjuþings og biskupsstofu njóta ekki kosningarréttar né kjörgengis. Sama gildir um kennara við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.
Viðmið kosningarréttar.
6. gr. Miða skal kosningarrétt samkvæmt 3. og 4. gr. við 1. apríl það ár sem kosning fer fram.
Kjörgengi.
7. gr. Kjörgengur til kirkjuþings er:
a. hver vígður maður sem á kosningarrétt skv. 3. gr.
b. hver leikmaður sem hefur hlotið skírn í nafni heilagrar þrenningar, skráður er í íslensku þjóðkirkjuna, og hefur náð 18 ára aldri og hefur meðmæli sinnar sóknarnefndar.
Hver sá sem fullnægir skilyrðum 1. mgr. skal hafa óflekkað mannorð.
Enginn skv. 2. mgr. telst hafa óflekkað mannorð sem hlotið hefur dóm fyrir refsivert brot og refsing er óskilorðsbundið fangelsi, frá þeim degi sem dómur er upp kveðinn og þar til afplánun er að fullu lokið.
Kjörgengisskilyrði skulu vera uppfyllt 1. apríl það ár sem kosning fer fram.
Hvar kosningarréttar og kjörgengis skuli notið.
8. gr. Prestur eða djákni sem uppfyllir skilyrði 3. gr. um kosningarrétt, nýtur réttarins og kjörgengis í því kjördæmi sem prófastsdæmi hans tilheyrir, sbr. 2. gr.
Prestur eða djákni hjá íslenskum söfnuði þjóðkirkjunnar erlendis sem er í föstu og launuðu starfi sem slíkur og uppfyllir skilyrði 3. gr. um kosningarrétt nýtur réttarins og kjörgengis í Reykjavíkurkjördæmi.
Þjónandi prestur eða djákni sem lýtur tilsjónar biskups Íslands og er í föstu og launuðu starfi á vegum stofnunar og/eða félagasamtaka hér á landi og uppfyllir skilyrði 3. gr. um kosningarrétt nýtur kosningarréttar og kjörgengis í því kjördæmi sem prófastsdæmi hans tilheyrir.
Leikmaður sem uppfyllir skilyrði b-liðar 7. gr. er kjörgengur innan þess kjördæmis sem lögheimili hans er skráð í þjóðskrá, sbr. 2. mgr. 7. gr. Leikmaður sem uppfyllir skilyrði 4. gr. um kosningarrétt, nýtur réttarins innan þess kjördæmis sem sókn hans tilheyrir, sbr. 2. gr.
Rafræn kjörskrá.
9. gr. Kjörskrá skal vera rafræn og annast kjörstjórn gerð hennar á grundvelli gagna frá Þjóðskrá Íslands og vinnsluheimilda þaðan ef við á. Kjörskrá skal vera aðskilin frá kosningarhluta kosningakerfisins og þar skulu koma fram upplýsingar um kjördæmi, nafn kjósanda, lögheimili, kennitölu og kyn.
Á kjörskrá skal taka þá sem uppfylla skilyrði 3. og 4. gr., sbr. 6. gr. Kjörskrá skal hafa verið gerð þremur vikum áður en kosning hefst.
Þegar kjörskrá hefur verið samin skal kjörstjórn auglýsa það á vefsvæði þjóðkirkjunnar og á öðrum fréttamiðlum. Í auglýsingunni skal tekið fram að þeir sem vilja koma að athugasemdum við kjörskrá skuli senda þær kjörstjórn.
Eftir auglýsingu um gerð kjörskrár getur kjósandi kannað á þar til gerðu vefsetri hvort nafn hans er skráð á kjörskrá. Við aðgang að vefsetrinu er notuð almenn innskráningarþjónusta sem kjörstjórn ákveður, s.s. rafræn skilríki eða Íslykill Þjóðskrár Íslands.
Kjörskrá skal enn fremur leggja fram á pappír kjósendum til sýnis á biskupsstofu og skrifstofum prófasta.
Leiðréttingar á kjörskrá.
10. gr. Athugasemdir vegna kjörskrár skulu berast kjörstjórn eigi síðar en þremur sólarhringum áður en kosning hefst. Kjörstjórn skal þegar taka til meðferðar athugasemdir sem henni berast vegna kjörskrár og gera viðeigandi leiðréttingar á henni. Kjörstjórn skal í síðasta lagi gera leiðréttingar á kjörskrá, tveimur sólarhringum áður en kosning hefst. Ef kjörstjórn verður þess áskynja að villa hafi átt sér stað við kjörskrárgerðina skal slíkt leiðrétt. Óheimilt er að breyta kjörskrá ef skilyrði skv. 6. gr. hafa ekki verið uppfyllt fyrir þann tíma sem þar greinir.
Berist kjörstjórn athugasemd þess efnis að nafn skuli tekið af eða sett á kjörskrá skal það þegar tilkynnt hlutaðeigandi, nema athugasemdin stafi frá honum sjálfum. Skal hlutaðeigandi veittur frestur, eftir því sem tími og atvik leyfa, til að koma að athugasemdum. Kjörstjórn skal þegar í stað tilkynna hlutaðeigandi um niðurstöðu málsins.
Kjörstjórn skal fram að þeim degi er kosning hefst leiðrétta kjörskrá ef henni berst vitneskja um andlát manns sem er á kjörskrá. Ákvörðun kjörstjórnar um leiðréttingu á kjörskrá má skjóta til yfirkjörstjórnar þjóðkirkjunnar. Skal niðurstaða yfirkjörstjórnar liggja fyrir ekki síðar en einum sólarhring áður en kosning hefst.
Framboð og kynningar til kosningar kirkjuþings.
11. gr. Kjörstjórn auglýsir á vefsvæði þjóðkirkjunnar og á öðrum fréttamiðlum eigi síðar en 25. febrúar á því ári sem kjósa skal eftir framboðum til kirkjuþings.
Þeir sem hyggjast bjóða sig fram til kirkjuþings skulu hafa tilkynnt kjörstjórn framboð sitt skriflega eigi síðar en 15. mars það ár sem kjósa skal.
Kjörstjórn getur óskað eftir því að sá sem hyggst bjóða sig fram, framvísi staðfestingu eða gefi kjörstjórn heimild til að afla gagna er sýni kjörgengi hans, sbr. 7. gr.
Frambjóðendur í hverju kjördæmi skulu ekki vera færri en sem nemur fjölda aðal- og varamanna til samans, annars vegar í kjördæmi vígðra og hins vegar leikmanna.
Ef ekki berast nægilega mörg framboð skal kjörstjórn svo fljótt sem auðið er gera uppstillingarnefnd kirkjunnar viðvart. Skal uppstillingarnefnd tilnefna þá frambjóðendur sem á vantar. Skal sú tilnefning hafa borist kjörstjórn eigi síðar en 31. mars það ár sem kjósa skal, ásamt samþykki hlutaðeigandi.
Prófastar tryggi að fram fari kynning á frambjóðendum í prófastsdæminu.
Framkvæmd og fyrirkomulag kosningar.
12. gr. Atkvæðagreiðsla til kirkjuþings skal vera rafræn.
Sá einn sem er skráður á kjörskrá og hefur aflað sér fullnægjandi auðkenningar, sbr. 4. mgr. getur nýtt kosningarrétt sinn.
Kjörstjórn ákveður nánari framkvæmd kosninganna, en rekstrarskrifstofa þjóðkirkjunnar skal sjá til þess að aðgangur sé tryggur að öruggu kosningakerfi. Tryggt skal að kosningakerfi það sem notað er sé þannig úr garði gert að ekki sé hægt að breyta atkvæði án þess að það sé greinanlegt. Óheimilt er að kanna hvernig kjósandi greiddi atkvæði í kosningakerfinu.
Við atkvæðagreiðslu skal kjósandi nota almenna innskráningarþjónustu sem kjörstjórn ákveður, s.s. rafræn skilríki eða Íslykill Þjóðskrár Íslands og skal kjósandi auðkenna sig á fullnægjandi hátt áður en hann greiðir atkvæði.
Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt að hann merkir við jafn mörg nöfn frambjóðenda, sem nemur fjölda aðalmanna í viðkomandi kjördæmi.
Greiði kjósandi ekki atkvæði á þann hátt sem greinir í 5. mgr. er atkvæði hans ógilt. Sama gildir um autt atkvæði.
Atkvæðagreiðsla skal fara fram á tímabilinu 1. til 20. maí á því ári sem kjósa skal, en atkvæðagreiðsla skal standa yfir í fimm sólarhringa samfellt.
Kjörstjórn auglýsir á vefsvæði þjóðkirkjunnar og á öðrum fréttamiðlum hvenær kosning hefst og hvenær henni lýkur. Auglýsing skal birt a.m.k. viku áður en kosning hefst.
Allar upplýsingar um undirbúning og framkvæmd kosninga skulu vera aðgengilegar á vefsvæði þjóðkirkjunnar, rekstrarskrifstofu þjóðkirkjunnar og hjá próföstum.
Prófastar hvetji fulltrúa til að nýta kosningarrétt sinn.
Afkóðun og talning atkvæða.
13. gr. Talning atkvæða skal hefjast innan sólarhrings frá lokum kosningar. Áður en talning hefst skulu atkvæðin afkóðuð.
Aðgengi að dulkóðun kosningakerfisins skal stýrt með tvískiptu leyniorði. Fulltrúi kjörstjórnar og fulltrúi forsætisnefndar kirkjuþings búa til og varðveita hvor sinn helming leyniorðsins meðan kosning varir.
Áður en talning atkvæða hefst koma fulltrúarnir hinu tvískipta leyniorði fyrir í afkóðunarhluta kosningakerfisins.
Að lokinni afkóðun atkvæða í kosningakerfinu skulu atkvæðin talin og niðurstöður kosningarinnar teknar saman í talningarhluta kerfisins.
Niðurstöður kosninga.
14. gr. Þeir, sem flestir merkja við með atkvæði sínu, eru kjörnir aðalmenn í hverju kjördæmi fyrir sig og skal fjöldi atkvæða ráða röðun þeirra. Varamenn eru þeir sem næstir koma að atkvæðum eftir aðalmönnum og skal fjöldi atkvæða ráða röðun þeirra. Hafi tveir eða fleiri hlotið jafnmörg atkvæði og geta ekki báðir eða allir náð kjöri ræður hlutkesti.
Kjörstjórn staðfestir niðurstöður og birtir á vefsvæði þjóðkirkjunnar nöfn þeirra er kjörnir hafa verið svo fljótt sem verða má.
Niðurstöður kosningaþátttöku í hverju kjördæmi skulu enn fremur birtar á vefsvæði þjóðkirkjunnar.
Útgáfa kjörbréfa.
15. gr. Kjörstjórn gefur út kjörbréf til aðalmanna og varamanna og skal röð varamanna greind sérstaklega.
Innköllun varamanna.
16. gr. Ef kirkjuþingsmaður andast á kjörtímabilinu, forfallast tímabundið eða varanlega, eða missir kjörgengi sitt til kirkjuþings, tekur varamaður hans sæti í þeirri röð sem hann er til kjörinn. Hafi kirkjuþingsmaðurinn gegnt embætti forseta kirkjuþings, skal kirkjuþing kjósa til embættisins að nýju.
Varamaður tekur sæti aðalmanns í föstum þingnefndum og þarf ekki að kjósa að nýju um sæti aðalmannsins.
Meðferð gagna eftir að talningu er lokið.
17. gr. Að kærufresti liðnum eða eftir að yfirkjörstjórn hefur kveðið upp úrskurð sinn varðandi kosninguna, hafi hún verið kærð, skal kjörstjórn sjá til þess að öllum atkvæðum, dulkóðuðum og afkóðuðum, rafrænni kjörskrá og afkóðunarlyklum verði eytt úr kosningakerfinu. Kjörstjórn tilkynnir forsætisnefnd kirkjuþings þegar eyðing gagnanna hefur átt sér stað.
Uppstillingarnefnd.
18. gr. Kirkjuþing kýs uppstillingarnefnd þjóðkirkjunnar. Í uppstillingarnefnd þjóðkirkjunnar eru níu menn einn úr hverju prófastsdæmi. Kirkjuþing kýs í nefndina til fjögurra ára á þriðja reglulega kirkjuþingi eftir síðasta kjör til kirkjuþings. Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega úr hópi nefndarmanna. Forsætisnefnd kirkjuþings skipar þá sem kirkjuþingsfulltrúar kusu í uppstillingarnefnd þjóðkirkjunnar.
Í uppstillingarnefnd skulu hvorki vera kirkjuþingsmenn eða varamenn þeirra né starfsmenn eða starfsfólk í föstu, launuðu starfi hjá þjóðkirkjunni.
Uppstillingarnefnd er ályktunarhæf ef minnst 2/3 nefndarmanna mæta á fund. Nefndinni er heimilt að nota fjarfundarbúnað í störfum sínum.
Uppstillingarnefnd færir gerðabók þar sem skrá skal meginatriði funda og ákvarðanir.
Aðsetur nefndarinnar skal vera á biskupsstofu sem sér henni fyrir aðstöðu og þjónustu. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist af þjóðkirkjunni.
Kjörstjórn þjóðkirkjunnar.
19. gr. Kirkjuþing kýs kjörstjórn þjóðkirkjunnar. Formaður kjörstjórnar og varamaður hans skulu kosnir sérstaklega. Í kjörstjórn eru þrír kjörstjórnarmenn og þrír varamenn þeirra í þeirri röð sem þeir taka sæti aðalmanns. Kosning til kjörstjórnar fer fram á þriðja reglulega kirkjuþingi eftir síðasta kjör til kirkjuþings. Forsætisnefnd kirkjuþings skipar þá sem kirkjuþingsfulltrúar kusu í kjörstjórn þjóðkirkjunnar.
Skipunartími kjörstjórnar þjóðkirkjunnar er fjögur ár frá 1. desember það ár sem þriðja reglulega kirkjuþing eftir síðasta kjör til kirkjuþings er haldið.
Kjörstjórnarmenn skulu hvorki vera kirkjuþingsmenn eða varamenn þeirra né vera í föstu, launuðu starfi hjá þjóðkirkjunni.
Kjörstjórn færir gerðabók þar sem skrá skal meginatriði funda, ákvarðanir hennar svo og úrslit kosninga. Aðsetur kjörstjórnar er á biskupsstofu. Kjörstjórn velur sér aðstoðarmenn til að annast, á ábyrgð kjörstjórnar, framkvæmd tiltekinna þátta í kosningu til kirkjuþings.
Kostnaður við störf kjörstjórnar greiðist af Þjóðkirkjunni.
Yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar.
20. gr. Kirkjuþing kýs yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar. Í yfirkjörstjórn eru þrír menn og þrír til vara. Yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar er kosin á þriðja reglulega kirkjuþingi eftir síðasta kjör til kirkjuþings. Formaður skal kosinn sérstaklega og vera löglærður sem og varamaður hans.
Varamenn skulu kosnir í þeirri röð sem þeir taka sæti aðalmanns. Kjörtímabil yfirkjörstjórnar er í fjögur ár frá 1. desember það ár sem þriðja reglulega kirkjuþing eftir síðasta kjör til kirkjuþings er haldið. Forsætisnefnd kirkjuþings skipar þá sem kirkjuþingsfulltrúar kusu í yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar.
Yfirkjörstjórnarmenn skulu hvorki vera kirkjuþingsmenn eða varamenn þeirra né vera í föstu, launuðu starfi hjá þjóðkirkjunni.
Yfirkjörstjórn færir gerðabók þar sem skrá skal meginatriði funda og ákvarðanir.
Aðsetur yfirkjörstjórnar skal vera á biskupsstofu sem sér nefndinni fyrir aðstöðu og þjónustu. Kostnaður af störfum yfirkjörstjórnar greiðist af þjóðkirkjunni.
Kærur til yfirkjörstjórnar.
21. gr. Yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar fer með úrskurðarvald í ágreiningsmálum vegna kirkjuþingskosninga.
Rétt til að kæra kirkjuþingskosningu eiga allir þeir sem nutu kosningarréttar til kirkjuþings og þeir leikmenn sem í kjöri voru en höfðu ekki kosningarrétt.
Kærur skulu berast kjörstjórn eigi síðar en einni viku eftir að úrslit kosninga liggja fyrir.
Kjörstjórn skal innan þriggja virkra daga frá móttöku kærunnar senda hana ásamt athugasemdum sínum til yfirkjörstjórnar þjóðkirkjunnar.
Kæra má til yfirkjörstjórnar:
a. ákvarðanir kjörstjórnar vegna kjörgengis- og kjörskrármála,
b. framkvæmd kirkjuþingskosninga.
Yfirkjörstjórn eru heimil eftirfarandi úrræði:
a. að fallast á eða synja kröfu manns um kjörgengi,
b. að fallast á kröfu eða synja um að tiltekinn maður skuli ekki vera á kjörskrá,
c. að staðfesta lögmæti framkvæmdar kirkjuþingskosninga, eftir atvikum með athugasemdum,
d. að ógilda kosningu tiltekins kirkjuþingsmanns eða kirkjuþingsmanna og leggja fyrir kjörstjórn að endurtaka kosningu í hlutaðeigandi kjördæmi,
e. að ógilda tiltekinn þátt eða þætti í framkvæmd kirkjuþingskosninga og leggja fyrir kjörstjórn að endurtaka þann eða þá þætti þannig að niðurstaða fáist,
f. að ógilda kirkjuþingskosningu að öllu leyti og leggja fyrir kjörstjórn að láta kjósa að nýju.
Frávísun kæru.
22. gr. Yfirkjörstjórn vísar kæru frá ef:
a. kærandi hefur ekki kæruaðild,
b. hún er of seint fram komin,
c. mál heyrir ekki undir yfirkjörstjórn,
d. kröfugerð er óskýr eða vanreifuð þrátt fyrir ábendingar yfirkjörstjórnar.
Úrskurður yfirkjörstjórnar.
23. gr. Yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar skal skera úr þeim málum sem fyrir hana eru lögð eins fljótt og auðið er og ekki síðar en sjö virkum dögum eftir að mál berst.
Niðurstöður yfirkjörstjórnar skulu vera í úrskurðarformi og dregnar saman í úrskurðarorð.
Gildistaka.
24. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi 1. janúar 2022. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um kjör til kirkjuþings nr. 1075/2017, með síðari breytingum.
Starfsreglur um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa
nr. 9/2021-2022, sbr. starfsrgl. nr. 45/2022-2023.
Kjörgengi.
1. gr. Kjörgengur til embættis biskups Íslands og vígslubiskupa er hver guðfræðikandídat sem fullnægir skilyrðum til þess að gegna prestsembætti í íslensku þjóðkirkjunni.
Kjörtímabil.
2. gr. Kjörtímabil biskups Íslands og vígslubiskupa skal vera sex ár í senn. Nú er aðeins sá í kjöri til embættis biskups Íslands eða vígslubiskups sem fyrir er í embættinu og er hann þá rétt kjörinn til þess án atkvæðagreiðslu, enda fullnægi hann að öðru leyti kjörgengisskilyrðum 1. gr.
3. gr. Kosið skal í einni kjördeild.
Kosningarréttur við kjör biskups Íslands.
4. gr.
A. Kosningarréttur vígðra:
Biskup Íslands og vígslubiskupar eiga kosningarrétt við biskupskjör. Auk þeirra á kosningarrétt hver sá sem vígslu hefur hlotið og er:
1. þjónandi prestur eða djákni íslensku þjóðkirkjunnar eða hjá íslenskum söfnuði þjóðkirkjunnar erlendis og er í föstu og launuðu starfi sem slíkur, eða
2. þjónandi prestur eða djákni sem lýtur tilsjónar biskups Íslands og er í föstu og launuðu starfi á vegum stofnunar og/eða félagasamtaka hér á landi.
Prestur eða djákni í tímabundnu leyfi, allt að tveimur árum, nýtur kosningarréttar.
Prestur sem settur er til þjónustu tímabundið nýtur ekki kosningarréttar nema í þeim tilfellum þar sem ekki er skipaður prestur fyrir.
Prestur, sem sinnir aukaþjónustu, nýtur ekki kosningarréttar fyrir það embætti sem hann sinnir aukaþjónustu í.
Djákni skal vera ráðinn til a.m.k. eins árs eða ótímabundið til að njóta kosningarréttar.
Prestur eða djákni sem látið hefur af þjónustu nýtur ekki kosningarréttar.
Kosningarrétt eiga vígðir starfsmenn á þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar sem eru í föstu starfi.
B. Kosningarréttur leikmanna:
1. aðal- og varamenn í sóknarnefndum.
2. Þá skulu allt að sjö kjörfulltrúar úr hverju prestakalli valdir af sóknarnefnd eða sóknarnefndum til viðbótar öðrum kjörfulltrúum, sbr. lið 1. Þeir leikmenn sem eiga sæti á kirkjuþingi og ekki eiga atkvæðisrétt skv. liðum 1 eða 2.
Kosningarréttur við kjör vígslubiskupa.
5. gr. Kosningarrétt við vígslubiskupskjör eiga þeir sömu og réttinn eiga skv. 4. gr. og tilheyra prófastsdæmi sem er í því umdæmi vígslubiskups sem kosið er í. 2 Þjónandi prestur eða djákni hjá íslenskum söfnuði þjóðkirkjunnar erlendis, sbr. 1. lið 1. mgr. 4. gr., nýtur kosningarréttar í umdæmi vígslubiskups í Skálholti.
Þjónandi prestur eða djákni, sbr. 2. lið 1. mgr. 4. gr., nýtur kosningarréttar í því umdæmi vígslubiskups sem viðkomandi starfar í.
Kosningarrétt eiga vígðir starfsmenn á þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar sem eru í föstu starfi.
Viðmið kosningarréttar.
6. gr. Skilyrði kosningarréttar skv. 4. og 5. gr. skulu uppfyllt þremur vikum áður en tilnefning hefst og skal kjósandi vera skráður í þjóðkirkjuna þann dag.
Kjörstjórn.
7. gr. Kjörstjórn við kirkjuþingskjör, sbr. starfsreglur um kjör til kirkjuþings, er jafnframt kjörstjórn við kjör samkvæmt starfsreglum þessum.
Ákvörðun um hvenær kosning fer fram.
8. gr. Kjörstjórn ákveður hvenær kjörgögn skulu send þeim sem kosningabærir eru við kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa. Með útsendingu kjörgagna hefst kosning skv. 15. gr. Jafnframt ákveður kjörstjórn hvenær kosningu lýkur, sbr. 15. gr.
Ákvarðanir kjörstjórnar skv. 1. mgr. eru háðar samþykki forsætisnefndar kirkjuþings.
Kjörskrá.
9. gr. Kjörskrá skal vera rafræn og annast kjörstjórn gerð hennar á grundvelli gagna frá biskupsstofu og Þjóðskrá Íslands og vinnsluheimilda þaðan ef við á.
Á kjörskrá skal taka þá sem uppfylla skilyrði 4. eða 5. gr. eftir því sem við á, sbr. 6. gr., og þar skulu koma fram upplýsingar um nafn kjósanda, lögheimili hans og kennitölu. Kjörskrá skal hafa verið gerð tveimur vikum áður en tilnefning, skv. 3. mgr. 11. gr. hefst.
Þegar kjörskrá er tilbúin skal kjörstjórn auglýsa það á vefsvæði þjóðkirkjunnar og á öðrum fréttamiðlum. Í auglýsingunni skal taka fram að þeir sem vilja koma að athugasemdum við kjörskrá skuli senda þær kjörstjórn.
Þegar kjörskrá hefur verið gerð getur viðkomandi kannað á þar til gerðu vefsetri hvort nafn hans er á kjörskrá. Við aðgang að vefsetrinu er notuð almenn innskráningarþjónusta sem kjörstjórn ákveður, s.s. rafræn skilríki eða Íslykill Þjóðskrár Íslands.
Leiðréttingar á kjörskrá.
10. gr. Athugasemdir vegna kjörskrár skulu berast kjörstjórn eigi síðar en fimm sólarhringum áður en tilnefning hefst, sbr. 3. mgr. 11. gr. Kjörstjórn skal þegar taka til meðferðar athugasemdir sem henni berast vegna kjörskrár og gera viðeigandi leiðréttingar á henni. Kjörstjórn skal í síðasta lagi gera leiðréttingar á kjörskrá tveimur sólarhringum áður en tilnefning hefst. Ef kjörstjórn verður þess áskynja að villa hafi átt sér stað við kjörskrárgerðina skal hún leiðrétt. Óheimilt er að breyta kjörskrá ef skilyrði 6. gr. hafa ekki verið uppfyllt fyrir þann tíma sem þar greinir.
Berist kjörstjórn athugasemd þess efnis að nafn skuli tekið af eða sett á kjörskrá skal það þegar, sannanlega, tilkynnt hlutaðeigandi nema athugasemdin stafi frá honum sjálfum. Skal hlutaðeigandi veittur frestur, eftir því sem tími og atvik leyfa, til að koma að athugasemdum. Kjörstjórn skal þegar í stað tilkynna hlutaðeigandi um niðurstöðu málsins. Skal það gert með sannanlegum hætti.
Kjörstjórn skal fram að þeim degi er tilnefning hefst leiðrétta kjörskrá ef henni berst vitneskja um andlát manns sem er á skránni.
Ákvörðun kjörstjórnar um leiðréttingu á kjörskrá má skjóta til yfirkjörstjórnar þjóðkirkjunnar. Skal niðurstaða yfirkjörstjórnar liggja fyrir ekki síðar en einum sólarhring áður en tilnefning hefst.
Tilnefning til biskups Íslands og vígslubiskups.
11. gr. Hver vígður maður sem kosningarréttar nýtur skv. 4. gr. hefur rétt á að tilnefna allt að þrjá einstaklinga sem uppfylla skilyrði 1. gr. til kjörs biskups Íslands. Hver vígður maður sem kosningarréttar nýtur skv. 5. gr. hefur rétt á að tilnefna allt að þrjá einstaklinga sem uppfylla skilyrði 1. gr. til kjörs vígslubiskups. Tilnefning skv. 1. og 2. mgr. skal hefjast a.m.k. fimm vikum áður en kjör til biskups Íslands eða vígslubiskups hefst.
Framkvæmd og fyrirkomulag tilnefninga.
12. gr. Tilnefningin skal vera rafræn og standa í fimm sólarhringa samfellt. Skal henni lokið a.m.k. fjórum vikum áður en kosning biskups Íslands eða vígslubiskups hefst.
Kjörstjórn sér um undirbúning og ákveður nánari framkvæmd tilnefningarinnar, en rekstrarskrifstofa þjóðkirkjunnar skal sjá til þess að aðgangur sé tryggður að öruggu kosningakerfi til að nota við tilnefninguna. Tryggt skal að kerfi það sem notað er sé þannig úr garði gert að ekki sé hægt að breyta tilnefningu án þess að það sé greinanlegt. Óheimilt er að kanna hvern viðkomandi tilnefndi í kerfinu.
Við tilnefninguna skal viðkomandi nota almenna innskráningarþjónustu sem kjörstjórn ákveður, s.s. rafræn skilríki eða Íslykil Þjóðskrár Íslands og skal hann auðkenna sig á fullnægjandi hátt áður en hann getur nýtt rétt sinn til að tilnefna. Kjörstjórn auglýsir á vefsvæði þjóðkirkjunnar og á öðrum fréttamiðlum hvenær tilnefning hefst og hvenær henni lýkur. Auglýsing skal birt a.m.k. viku áður en tilnefning hefst. Allar upplýsingar um undirbúning og framkvæmd kosninga skulu vera aðgengilegar á vefsvæði þjóðkirkjunnar, á rekstrarskrifstofu þjóðkirkjunnar og hjá próföstum.
Afkóðun og talning tilnefninga.
13. gr. Kjörstjórn skal innan sólarhrings frá því að tilnefningu var lokið, taka saman og telja tilnefningarnar. Áður en talning hefst skal afkóða tilnefningarnar. Formaður kjörstjórnar skal varðveita lykil sem notaður er við afkóðunina. Eftir afkóðun skulu tilnefningarnar taldar og niðurstöður teknar saman í afkóðunar- og talningarhluta kerfisins.
Niðurstaða tilnefninga.
14. gr. Þeir þrír einstaklingar sem flestar tilnefningar fá, að teknu tilliti til 3. mgr., eru í kjöri til biskups Íslands eða vígslubiskups. Ef tveir eða fleiri fá sama fjölda tilnefninga skulu þeir báðir eða allir vera í kjöri. Séu tilnefndir færri einstaklingar en þrír eru þeir allir í kjöri að teknu tilliti til 3. mgr.
Kjörstjórn skal strax og niðurstaða úr tilnefningunni er ljós, kanna hvort þeir sem verða í kjöri, skv. 1. mgr., sbr. 3. mgr., uppfylli skilyrði 1. gr. Telji kjörstjórn að svo sé ekki skal hlutaðeigandi þegar í stað gert viðvart og honum veittur frestur, eftir því sem tími og atvik leyfa, til að koma að athugasemdum. Kjörstjórn skal innan sólarhrings frá því að athugasemdir berast taka afstöðu og tilkynna hlutaðeigandi um þá niðurstöðu.
Vilji viðkomandi ekki una niðurstöðu skv. 2. mgr., getur hann skotið henni til yfirkjörstjórnar þjóðkirkjunnar, innan sólarhrings frá því að honum var sannanlega tilkynnt um niðurstöðuna. Skal niðurstaða yfirkjörstjórnar liggja fyrir ekki síðar en tveimur sólarhringum síðar. Kjörstjórn skal svo fljótt sem verða má tilkynna þeim einstaklingum sem flestar tilnefningar fá, sbr. 1. mgr., um niðurstöðuna og leita eftir afstöðu þeirra til tilnefningarinnar. Ef einhver þeirra gefur ekki kost á sér skal sá sem næstur honum er að tilnefningu taka sæti hans. Á vefsvæði þjóðkirkjunnar skal svo fljótt sem verða má, eftir að niðurstaða tilnefninga er ljós, tilkynna um þá sem verða í kjöri auk þeirra tveggja sem næstir komu að tilnefningu.
Framkvæmd kosninga.
15. gr. Kosning skal vera rafræn.
Kosning skal fara fram þó að einn sé í kjöri, nema um endurkjör sé að ræða, sbr. 2. mgr. 2. gr. Kjörstjórn sendir þeim sem eiga kosningarrétt nauðsynleg kjörgögn rafrænt.
Kjörstjórn ákveður nánari framkvæmd kosninganna, en þjóðkirkjan skal sjá til þess að aðgangur sé tryggður að öruggu kosningakerfi. Tryggt skal að kosningakerfi það sem notað er sé þannig úr garði gert að ekki sé hægt að breyta atkvæði án þess að það sé greinanlegt. Óheimilt er að kanna hvernig kjósandi greiddi atkvæði í kosningakerfinu.
Við atkvæðagreiðslu skal kjósandi nota almenna innskráningarþjónustu sem kjörstjórn ákveður, s.s. rafræn skilríki eða Íslykil Þjóðskrár Íslands og skal kjósandi auðkenna sig á fullnægjandi hátt áður en hann greiðir atkvæði.
Kjörstjórn auglýsir á vefsvæði þjóðkirkjunnar og á öðrum fréttamiðlum hvenær kosning hefst og hvenær henni lýkur. Auglýsing skal birt a.m.k. viku áður en kosning hefst.
Atkvæðagreiðsla skal standa yfir í fimm sólarhringa samfellt.
Allar upplýsingar um undirbúning og framkvæmd kosninga skulu vera aðgengilegar á vefsvæði þjóðkirkjunnar, á rekstrarskrifstofu þjóðkirkjunnar og hjá próföstum.
Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt að hann merkir við nafn þess frambjóðanda sem hann kýs. Geri hann það ekki, er atkvæði hans ógilt. Sama gildir um autt atkvæði.
Afkóðun og talning atkvæða og niðurstöður kosninga.
16. gr. Talning atkvæða skal hefjast innan sólarhrings frá lokum kosningar. Áður en talning hefst skulu atkvæðin afkóðuð.
Kjörstjórn skal gefa þeim sem eru í kjöri kost á að hafa umboðsmenn sína viðstadda talninguna. Aðgengi að dulkóðun kosningakerfisins skal stýrt með tvískiptu leyniorði. Fulltrúi kjörstjórnar og fulltrúi forsætisnefndar kirkjuþings búa til og varðveita hvor sinn helming leyniorðsins meðan kosning varir.
Áður en talning hefst koma fulltrúarnir hinu tvískipta leyniorði fyrir í afkóðunarhluta kosningakerfisins.
Sá er réttkjörinn biskup Íslands eða vígslubiskup sem fær meiri hluta greiddra atkvæða. Ef enginn frambjóðandi fær meiri hluta greiddra atkvæða skal kosið á nýjan leik milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fengu. Ef fleiri en tveir fá jafnmörg atkvæði skal hlutkesti ráða um hverja tvo skuli kosið. Sá er réttkjörinn biskup Íslands eða vígslubiskup sem fær meiri hluta greiddra atkvæða.
Verði atkvæði jöfn skal hlutkesti ráða.
Kærur til yfirkjörstjórnar.
17. gr. Yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar, sbr. starfsreglur um kjör til kirkjuþings, fer með endanlegt úrskurðarvald í ágreiningsmálum vegna kosninga samkvæmt starfsreglum þessum. Kosningu geta þeir kært sem eiga kosningarrétt.
Kærur vegna kosninga skulu hafa borist kjörstjórn eigi síðar en þremur dögum eftir að atkvæði hafa verið talin. Beri síðasta dag kærufrests upp á frídag skal næsti virki dagur teljast síðasti dagur kærufrests.
Kærur skulu hafa borist kjörstjórn með sannanlegum hætti fyrir kl. 16.00 á síðasta degi kærufrests eða hafa verið póststimplaðar í síðasta lagi þann dag. Leggur hún þær fyrir yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar til úrskurðar ásamt athugasemdum sínum. Yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar skal skera úr þeim málum sem fyrir hana eru lögð eins fljótt og auðið er og ekki síðar en sjö virkum dögum eftir að mál berst.
Niðurstöður yfirkjörstjórnar skulu vera í úrskurðarformi og dregnar saman í úrskurðarorð.
Birting niðurstöðu kosningar og útgáfa kjörbréfs.
18. gr. Birta skal á vefsvæði þjóðkirkjunnar upplýsingar um kosningaþátttöku og úrslit kosningar. Að lokinni kosningu gefur kjörstjórn þjóðkirkjunnar út kjörbréf til biskups Íslands og vígslubiskupa.
Gildistaka.
19. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi 1. janúar 2022. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa nr. 333/2017, með síðari breytingu.
Starfsreglur um meðferð mála og aðgerðir er varða einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi, ámælisverða og refsiverða háttsemi innan þjóðkirkjunnar nr. 52/2022-2023.
1. gr. Markmið starfsreglna þessara er að tryggja að fagleg úrræði séu til staðar ef upp koma atvik er varða einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi, ámælisverða og/eða refsiverða háttsemi innan þjóðkirkjunnar.
2. gr. Starfsreglur þessar ná til vígðra þjóna íslensku þjóðkirkjunnar og annarra starfsmanna í launuðum sem ólaunuðum störfum innan sókna og stofnana þjóðkirkjunnar auk kjörinna fulltrúa og þeirra er valin hafa verið til trúnaðarstarfa, hvort sem starf þeirra fer fram í húsnæði þjóðkirkjunnar eða annars staðar. Jafnframt gilda þær um öll störf sem tengjast starfsemi og verkefnum þjóðkirkjunnar svo sem á ráðstefnum, námskeiðum, ferðalögum og öðrum samkomum. Starfsemi utanaðkomandi aðila í húsnæði þjóðkirkjunnar fellur ekki undir starfsreglur þessar.
Starfsreglur þessar gilda um meðferð mála og aðgerðir er varða einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi, ámælisverða eða refsiverða háttsemi sem á sér stað í starfsemi þjóðkirkjunnar.
Starfsreglur þessar gilda einnig um meðferð mála og aðgerðir er varða siðferðislega ámælisverða háttsemi sem brýtur í bága við siðareglur vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar, eins og þær eru samþykktar af kirkjuþingi hverju sinni.
3. gr. Hverjum þeim sem tekur þátt í starfsemi þjóðkirkjunnar og býr yfir vitneskju um ætlað kynferðisbrot eða annað ofbeldi gegn barni, er skilyrðislaust skylt að tilkynna slíkt samkvæmt gildandi lögum til lögreglu og/eða barnaverndaryfirvalda.
Hver sem telur starfsmann þjóðkirkjunnar hafa mögulega orðið uppvísan að háttsemi, sem starfsreglur þessar eða siðareglur vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar taka til, getur borið mál undir aðgerðateymið.
4. gr. Í starfsreglum þessum er merking eftirfarandi orða sem hér segir, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020, lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og reglugerð velferðarráðuneytisins nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum:
a. Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
b. Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
c. Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
d. Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis.
Þá er í starfsreglum þessum og verklagsreglum byggðum á þeim, merking eftirfarandi orða sem hér segir:
Tilkynnandi: Sá sem telur sig hafa orðið vitni að eða hefur upplýsingar um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi, ámælisverða eða refsiverða háttsemi og tilkynnir háttsemina til aðgerðateymisins.
Þolandi: Sá sem telur sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi, ámælisverðri eða refsiverðri háttsemi.
Gerandi: Sá sem kvörtun um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi, ámælisverða eða refsiverða háttsemi beinist að.
Starfsmaður: Einstaklingar sem koma að starfsemi þjóðkirkjunnar á einn eða annan hátt, hvort sem þeir eru eða hafa verið í beinu ráðningarsambandi við þjóðkirkjuna, s.s. prestar, starfsfólk sókna eða þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar eða starfa eða hafa starfað fyrir þjóðkirkjuna í ólaunuðum störfum eða verkefnum.
Aðili máls: Einstaklingur sem talið er að hafi beitt ofbeldi og/eða einstaklingur sem talið er að hafi orðið fyrir broti.
Starfsemi þjóðkirkjunnar: Allt starf sem eðli máls og venju samkvæmt er unnið af starfsmönnum þjóðkirkjunnar til að þjónusta, fræða eða sinna á annan hátt, þeim sem þiggja þjónustu frá þjóðkirkjunni, hvar sem sú þjónusta er veitt. Starfsemi þriðja aðila í húsnæði þjóðkirkjunnar fellur ekki hér undir.
Vinnustaður: Umhverfi innanhúss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna, sbr. 41. gr. laga nr. 46/1980.
Aðgerðateymið: Aðgerðateymi þjóðkirkjunnar sem skipað er skv. starfsreglum þessum.
Áreitni: Hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Eitt tilvik getur talist áreitni.
Háttsemi: Hegðun (athæfi, framferði, framkoma, breytni) einstaklings gagnvart öðrum aðila.
Ámælisverð háttsemi: Óviðunandi, óviðeigandi, ósiðleg eða ólögleg hegðun (athæfi, framferði, framkoma, breytni) einstaklings gagnvart öðrum aðila.
Refsiverð háttsemi: Hver sú háttsemi, athöfn eða athafnaleysi, sem refsing liggur við samkvæmt þeim refsiheimildum sem gildandi eru taldar á hverjum tíma.
Blygðunarsemi: Kynferðisleg siðferðistilfinning einstaklings.
Kynferðisbrot: Samheiti hegningarlagabrota sem á einhvern hátt varða kynfrelsi manna, sbr. ákvæði XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Brot gegn barni: Samheiti lagabrota sem á einhvern hátt varða réttindi barna, sbr. ákvæði XVIII. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Um merkingu annarra orðskýringa en tilgreindar eru í a–o liðum 2. mgr. fer, eftir því sem við á, samkvæmt lögum og reglugerðum.
5. gr. Kirkjuþing skipar þrjá fulltrúa í aðgerðateymi þjóðkirkjunnar og þrjá til vara. Hyggist kirkjuþing skipa nýjan fulltrúa í aðgerðateymið skal það gert með sex mánaða fyrirvara.
Í aðgerðateyminu skulu hvorki vera vígðir þjónar kirkjunnar né sérþjónustuprestar, sem ráðnir hafa verið á vegum stofnana eða félagasamtaka, né að öðru leyti fastráðnir starfsmenn kirkjunnar eða þeir sem sinna öðrum trúnaðarstörfum fyrir kirkjuna.
Þeir sem skipaðir eru í aðgerðateymi þjóðkirkjunnar skulu vera sérfróðir um þau mál er falla undir starfsreglur þessar og skal a.m.k. einn þeirra vera löglærður. Skal sá vera formaður aðgerðateymisins.
Við skipun í aðgerðateymið skal gætt að ákvæðum 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020.
Hæfi fulltrúa aðgerðateymisins.
6. gr. Hver sá sem situr í aðgerðateymi þjóðkirkjunnar má ekki eiga neina aðkomu að máli sem varðar hann persónulega eða ef aðstæður eru fyrir hendi sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.
Eigi er þó um vanhæfi að ræða ef þeir hagsmunir, sem málið snýst um, eru það smávægilegir eða eðli málsins er með þeim hætti að hvorki er talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á afgreiðslu málsins. Það leiðir ekki til vanhæfis til afgreiðslu máls þegar mál varðar almenna þjóðkirkjulega hagsmuni þegar þeir sem skráðir eru í þjóðkirkjuna verða taldir eiga svipaðra hagsmuna að gæta.
Fulltrúar aðgerðateymis skulu án tafar vekja athygli á ástæðum sem kunna að valda vanhæfi þeirra og sker formaður aðgerðateymisins úr. Leiki vafi á hæfi formanns aðgerðateymis skulu aðrir fulltrúar aðgerðateymisins í sameiningu, skera úr um það.
7. gr. Hlutverk aðgerðateymisins er að taka við tilkynningum er varða einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi, ámælisverða og/eða refsiverða háttsemi í starfsemi þjóðkirkjunnar, kanna þær ávirðingar sem þar koma fram og grípa til þeirra aðgerða sem starfsreglur þessar og lög mæla fyrir um.
Eftir því sem við á skal aðgerðateymið grípa til aðgerða og ljúka meðferð máls sem hefur verið tilkynnt til þess með eftirfarandi hætti:
Með bréfi þar sem könnun máls er lokið eftir forkönnun, að beiðni þolanda eða óformlega meðferð máls.
Með gerð álits, eftir formlega meðferð máls, þar sem lagt er mat á atvik máls og háttsemi, og komið með tillögu að aðgerðum.
Með því að leiðbeina málsaðila um lagaleg úrræði og/eða aðstoða við að leita til fagaðila.
Með því að leiðbeina málsaðila um lagaleg úrræði og/eða veita sálgæslu og/eða aðstoða við að leita til fagaðila.
Taka ákvörðun um hvort nauðsynlegt sé að vinnuskilyrðum málsaðila sé breytt á meðan könnun máls fer fram og/eða hvort grípa þurfi til annarra tímabundinna öryggisráðsstafana. Skal þá gætt meðalhófs og ekki farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.
Taka til umfjöllunar mál sem úrskurðanefnd þjóðkirkjunnar eða biskup Íslands kunna að vísa til aðgerðateymisins og veita þeim þá ráðgjöf í slíkum málum.
Vera biskupi til ráðgjafar um öll mál er kunna að varða háttsemi sem fellur undir starfsreglur þessar.
Veita biskupi árlega upplýsingar um starf aðgerðateymisins og koma með ábendingar ef aðgerðateymið telur að breyta þurfi starfsreglum þessum eða stefnu þjóðkirkjunnar.
Tilkynningar er varða ágreining skal reynt að leysa á einfaldan hátt og skal vísað til prófasta, vígslubiskupa eða mannauðsstjóra Þjóðkirkjunnar sem getur vísað málum í sáttameðferð ef við á. Teymið skal því vísa málum sem ekki falla að þeim ramma er því er sett til mannauðssviðs.
Málsmeðferð.
8. gr. Aðgerðateymið skal veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess.
Berist aðgerðateyminu skriflegt erindi, sem ekki snertir starfssvið þess, skal það í samráði við sendanda, framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem unnt er.
Óheimilt er að mismuna málsaðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.
Við könnun ávirðinga og meðferð máls skal aðgerðateymið gæta nærfærni og huga eftir föngum að einkalífi málsaðila og persónuvernd. Aðgerðateymið skal virða óskir þolenda um að hætta könnun máls enda standi lög því ekki í vegi.
Aðgerðateymið skal eins og við verður komið sjá til þess að mál sem hefur verið tilkynnt til þess sé nægjanlega upplýst áður en meðferð þess er lokið.
Við úrlausn mála skal aðgerðateymið gæta hlutleysis, samræmis og jafnræðis eftir því sem við á.
Aðgerðateymið er til svara gagnvart fjölmiðlum og öðrum aðilum eftir því sem við á, um mál sem það hefur til meðferðar og að jafnaði er formaður þess í fyrirsvari.
Aðgerðateymið skal tilkynna biskupi um móttöku tilkynningar án tafar sem og um afdrif máls þegar málsmeðferð lýkur. Þá skal aðgerðateymið veitta biskupi upplýsingar um framvindu málsins ef eftir því er óskað. Aðgerðateymið skal meta hvort nauðsynlegt sé að gæta nafnleyndar málsaðila, vitna og annarra er koma að málum í gögnum sem það deilir.
Um störf aðgerðateymisins og meðferð mála fer að öðru leyti eftir verklagsreglum sem aðgerðateymið skal setja í samráði við biskup og tekur mið af stjórnsýslulögum og lögum um meðferð einkamála og sakamála eftir því sem við á.
Málsmeðferðartíma nefndarinnar skal hraðað sem kostur er.
Fræðsla og forvarnir.
9. gr. Biskupsstofa skal annast leiðbeiningar og fræðslu til starfsfólks þjóðkirkjunnar um stefnu þjóðkirkjunnar, verklag og verkferla í málum þeim sem heyra undir starfsreglur þessar.
Aðgerðateymi skal vera biskupsstofu til ráðgjafar og aðstoðar um fræðslu og forvarnir sem heyra undir starfsreglur þessar.
IV. KAFLI
Aðstoð fagaðila.
Aðstoð fagaðila.
10. gr. Aðgerðateyminu er heimilt að leita aðstoðar hjá fagaðila ef nauðsyn krefur. Hann starfar í umboði og á ábyrgð aðgerðateymisins og upplýsir það um starf sitt með viðkomandi málsaðila. Fagaðilinn skal hafa menntun og reynslu af vinnu við mál er falla undir starfsreglur þessar.
Gegni fagaðilar rannsóknarhlutverki, skal tryggt að þeir séu óháðir málsaðilum. Reynt skal að tryggja að báðir aðilar séu sáttir við þá aðila sem fengnir eru að rannsókn máls.
V. KAFLI
Trúnaðarskyldur, aðgangur að gögnum aðgerðateymis og varðveisla gagna.
Trúnaðarskyldur.
11. gr. Mæli lög ekki á annan veg er fulltrúum í aðgerðateyminu og öðrum þeim sem að málunum koma skylt að gæta þagmælsku um einstök mál og er óheimilt að veita óviðkomandi aðilum upplýsingar um þau. Fara skal með öll gögn og upplýsingar sem tengjast einstökum málum í samræmi við gildandi ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Fulltrúum í aðgerðateyminu ber að halda trúnað eftir að þeir láta af störfum.
Aðgangur að gögnum.
12. gr. Um aðgang að upplýsingum um einstök mál, fer að gildandi lögum á hverjum tíma.
Aðgerðateymið getur óskað eftir gögnum frá starfseiningum þjóðkirkjunnar, er varða mál sem það hefur til meðferðar.
Varðveisla gagna.
13. gr. Aðgerðateymið geymir vinnuskjöl máls í tvö ár frá því að meðferð máls lýkur hjá aðgerðateyminu, á grundvelli skriflegs samþykkis aðila máls. Veiti aðilar ekki samþykki fyrir slíkri gagnageymslu er gögnunum eytt að undanskilinni niðurstöðu máls sem fram kemur í bréfi eða áliti aðgerðateymisins sem annars vegar er afhent aðilum máls og hins vegar biskupsstofu f.h. þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar.
Aðgerðateymið og þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar gera með sér vinnslusamning m.v.t. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018, þar sem m.a. er kveðið á um skil og eyðingu gagna þegar fulltrúar aðgerðateymis láta af störfum.
VI. KAFLI
Þóknun og kostnaður vegna aðgerðateymisins.
Þóknun aðgerðateymis.
14. gr. Um þóknun aðgerðateymis þjóðkirkjunnar, fyrir störf sín og annan kostnað vegna starfa aðgerðateymisins fer samkvæmt ákvörðun kjaranefndar Þjóðkirkjunnar.
VII. KAFLI
Gildistaka.
Gildistaka.
15. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna, nr. 77/2021, öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma falla úr gildi starfsreglur um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar nr. 330/2019, með síðari breytingu.
Gildistaka 24. nóvember 2023.
Starfsreglur um presta nr. 6/2023-2024.
Almennt.
1. gr. Prestar gegna hinu heilaga prests- og prédikunarembætti sem þeir eru vígðir til.
Prestsembættið skiptist í starf sóknarprests, prests, héraðsprests og sérþjónustuprests. Sú skipting varðar starfssvið, ábyrgð, réttindi og skyldur.
Um ráðningu og starfslok.
2. gr. Biskup Íslands er yfirmaður presta.
Biskup gerir ráðningarsamning um hvert prestsstarf. Ráðningarsamningur öðlast gildi við staðfestingu framkvæmdastjóra rekstrarstofu Þjóðkirkjunnar. Gildir hið sama ef prestur er fluttur til í starfi.
Biskup gefur út erindisbréf fyrir hvern prest þjóðkirkjunnar, er lýsir almennum og sérstökum starfsskyldum prestsins.
Biskup getur skilgreint að tilteknu prestsembætti fylgi sérstakar viðbótarskyldur.
3. gr. Fastráðning presta fellur úr gildi, án uppsagnar, frá og með næstu mánaðamótum eftir að 70 ára aldri er náð. Biskupi er þó heimilt að ráða prest, sem náð hefur 70 ára aldri, tímabundið til starfa en þó aldrei lengur en sex mánuði í einu.
Um embættisskyldur presta.
4. gr. Presti er skylt að sinna embætti sínu samkvæmt þeirri köllun sem hann hefur hlotið og vígslubréfi, svo og samkvæmt þeim lögum, starfsreglum, stefnum, siðareglum og innri samþykktum sem um starf hans gilda á hverjum tíma. Enn fremur ber presti að fara að ákvæðum ráðningarsamnings og erindisbréfs og hlýða boðvaldi biskups og prófasts f.h. Biskups.
Prestur skal forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á þjóðkirkjuna.
5. gr. Presti er skylt að færa prestsþjónustubækur, skýrslur og skrár og sinna skjalagerð, skjalavistun og skýrsluskilum vegna embættisins samkvæmt nánari fyrirmælum biskups. Biskup getur ákveðið að skil á gögnum skuli vera rafræn.
Presti ber að láta í té þá aukaþjónustu eða afleysingaþjónustu sem óskað er eftir enda sé hún á starfssviði hans skv. starfsreglum þessum eða erindisbréfi og í samræmi við ákvæði kjarasamnings presta. Presti ber að sækja sér endurmenntun og handleiðslu skv. nánari ákvæðum þar um.
Um sóknarpresta og presta í prestaköllum.
6. gr. Í hverju prestakalli skal vera einn sóknarprestur. Sóknarprestur er leiðtogi safnaðarins og starfar við hlið sóknarnefndar.
Heimilt er biskupi að ráða prest til starfa í fjölmennum prestaköllum eða þar sem aðstæður gefa tilefni til.
Starfsvettvangur sóknarprests og prests er sókn eða sóknir prestakallsins.
Sóknarprestur og prestur eru samstarfsmenn í sóknum prestakallsins og ber að haga þjónustu sinni og samstarfi í samræmi við það. Báðir lúta þeir tilsjón prófasts og biskups.
Biskup getur ákveðið að skyldur sóknarprests í prestaköllum þar sem fleiri en einn prestur þjónar, færist milli presta með ákveðnu millibili.
Nú eru tvö eða fleiri prestaköll sameinuð og skal öllum sóknarnefndum prestakallanna gefinn kostur á að lýsa afstöðu sinni til þess hvor eða hver sóknarprestanna verði sóknarprestur hins sameinaða prestakalls áður en ákvörðun er tekin. Sé einn sóknarprestur starfandi við gildistöku sameiningar skal að jafnaði litið svo á að hann verði sjálfkrafa sóknarprestur hins sameinaða prestakalls. Sóknarnefndir geta þó óskað eftir að fá að lýsa afstöðu sinni til þess áður en ákvörðun er tekin.
7. gr. Sóknarprestur er í fyrirsvari um kirkjulegt starf í sóknum prestakallsins og hefur forystu um mótun þess og skipulag í samráði við samstarfsprest.
Sóknarprestur ber ábyrgð á færslu prestsþjónustubóka prestakallsins og skilum á skýrslum um embættisverk til þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar og Þjóðskrár Íslands.
8. gr. Þar sem prestar eru fleiri en einn í prestakalli skulu þeir, undir forystu prófasts skipta formlega með sér verkum með samstarfssamningi. Komi upp ágreiningur um skiptingu starfa eða í samstarfi presta skal málinu vísað til prófasts til úrlausnar. Ef ekki tekst að jafna ágreining skal málinu vísað til vígslubiskups. Ef samkomulag tekst ekki skal biskup Íslands úrskurða um verkaskiptingu.
9. gr. Sóknarprestar og prestar sem sitja prestssetur skulu gæta hagsmuna þess í samstarfi við þjónustumiðstöð Þjóðkirkjunnar.
Sóknarprestum og prestum ber að hafa samstarf um kirkjulega þjónustu innan hvers prófastsdæmis undir tilsjón og skipulagi prófasts.
Sóknarprestur og prestur skulu sitja aðalsafnaðarfundi, sóknarnefndarfundi, starfsmannafundi, héraðsfundi og fundi er biskup og prófastur boða til, svo og mæta í starfsgæðaviðtöl hjá prófasti, nema forföll hamli eða nauðsyn banni.
Um héraðspresta.
10. gr. Héraðsprestur þjónar með prófasti og prestum í prófastsdæmum undir stjórn prófasts. Héraðsnefnd leggur honum til starfsaðstöðu á kostnað héraðssjóðs.
Héraðsprestur annast meðal annars afleysingar og skipuleggur fræðslumál þjónustusvæði sínu.
Um starfsskyldur héraðspresta gilda að öðru leyti ákvæði starfsreglna um starfsskyldur presta eins og við getur átt.
11. gr. Ef héraðsprestur er ráðinn til þjónustu í fleiri en einu prófastsdæmi skal kveðið á um þjónustu hans í erindisbréfi sem biskup gefur út. Þar skal sérstaklega kveðið á um hvaða prófastur fari með umsjón og hvernig hlutaðeigandi héraðsnefndum ber að uppfylla skyldur sínar gagnvart héraðspresti.
Um sérþjónustupresta.
12. gr. Sérþjónustuprestur er prestur sem er ráðinn til prestsþjónustu þar sem almennri prestþjónustu verður ekki við komið svo sem á sjúkrastofnunum, við fangelsi og meðal heyrnarlausra eða til annarrar þjónustu í biskupsdæminu. Að jafnaði skal sérþjónustuprestur hafa sérmenntun til starfans.
Um starfsskyldur sérþjónustupresta gilda að öðru leyti ákvæði starfsreglna um starfsskyldur presta eins og við getur átt.
13. gr. Starfsreglur þessar sem settar eru með heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um presta nr. 39/2022-2023.
Gildistaka 18. nóvember 2023.
Starfsreglur um prófasta nr. 7/2023-2024, sbr. starfsrgl. nr. 38/2024-2025.
1. gr. Biskupsdæmi Íslands skiptist í prófastsdæmi. Um afmörkun og fjölda prófastsdæma er mælt fyrir um í starfsreglum um skipulag kirkjunnar í héraði.
2. gr. Biskup Íslands auglýsir starf prófasts innan hvers prófastsdæmis með sambærilegum hætti og önnur prestsstörf. Einungis starfandi prestar í viðkomandi prófastsdæmi geta sótt um starfið.
Áskilja ber þekkingu og reynslu af kirkjustarfi, stjórnunar- og skipulagsstörfum, sálgæslu og mannauðsmálum.
Biskup ræður prófast úr hópi umsækjenda að fenginni umsögn vígðra þjóna, sóknarnefndarfólks og ráðgjafarnefndar biskups í mannauðsmálum.
Prófastar í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og Kjalarnessprófastsdæmi geta ekki samtímis gegnt stöðu sóknarprests.
3. gr. Biskup setur nágrannaprófast til að gegna starfi prófasts um stundarsakir ef sérstaklega stendur á svo sem vegna leyfis, veikinda eða lengri fjarveru.
4. gr. Hæfisreglur starfsreglna um þingsköp kirkjuþings gilda um prófasta eins og við getur átt. Biskup sker úr um hvort um vanhæfi er að ræða. Víki prófastur sæti í tilteknu máli vegna vanhæfis setur biskup prófast til að fara með málefni það sem um er að tefla.
5. gr. Prófastur hefur í umboði biskups tilsjón með kirkjulegu starfi í prófastsdæminu, embættisfærslum presta, þjónustu vígðra og starfi sóknarnefnda. Hann er tilsjónarmaður og ráðgjafi þessara aðila.
Prófastur sér til þess að sóknarbörn njóti þeirrar prestsþjónustu sem þeim ber. Hann skipuleggur afleysingaþjónustu vegna vikulegs frídags, skammvinnra veikinda og sumarleyfa presta í prófastsdæminu. Hann annast um viðveruskyldu og skipulag bakvakta, m.a. í ljósi viðbragðaáætlunar kirkjunnar við hópslysum.
Prófastur skal hafa eftirlit með því, að prestar skili starfsskýrslum til þjónustumiðstöðvar Þjóðkirkjunnar og Þjóðskrár Íslands.
Prófastur sér til þess að vígðir þjónar kirkjunnar í prófastsdæminu njóti tilskilinna réttinda s.s. til orlofs og námsleyfa.
Biskup setur prófasti erindisbréf.
6. gr. Prófastur er trúnaðarmaður biskups og ráðgjafi í kirkjulegum málum.
Prófastur fylgist með því að réttur kirkjunnar sé virtur í hvívetna.
Prófastur er, sem fulltrúi biskups Íslands í prófastsdæminu, leiðtogi og verkstjóri vígðra þjóna prófastsdæmisins.
Prófastur fylgir eftir stefnumörkun og samþykktum kirkjuþings er varðar kirkjulegt starf í prófastsdæminu.
Prófastur er í fyrirsvari fyrir prófastsdæmið að því er varðar sameiginleg málefni þess, gagnvart stjórnvöldum, stofnunum og einstaklingum.
Prófasti er skylt að mæta á árlegan prófastafund er biskup boðar.
7. gr. Prófastur er formaður héraðsnefndar og formaður stjórnar héraðssjóðs sbr.starfsreglur um héraðsfundi og héraðsnefndir. Hann tekur við erindum og fyrirspurnum til úrlausnar og annast að öðru leyti þá stjórnsýslu sem honum er falin samkvæmt erindisbréfi og starfsreglunum.
8. gr. Prófastur setur nýja presta í embætti og afhendir þeim prestsþjónustubækur og gögn að boði biskups.
Prófastur annast um skiptingu starfa milli presta þar sem fleiri en einn prestur þjónar í prestakalli og sér til þess að samið sé um það skriflega.
Prófastur skipuleggur starf héraðsprests. Héraðsprestur starfar undir stjórn prófasts.
9. gr. Prófastur hefur vörslur og annast gjafa- og líknarsjóði í prófastsdæmi ef því er að skipta og gerir árlega reikningsskil til kjörinna endurskoðenda.
10. gr. Prófastur fer, ásamt biskupi, með yfirstjórn kirkjugarða í prófastsdæminu, sbr. lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993 og sinnir öðrum lögboðnum skyldum samkvæmt þeim lögum.
11. gr. Prófastur skal annast sáttaumleitanir innan prófastsdæmisins þegar trúnaðarmönnum eða starfsmönnum, launuðum jafnt og ólaunuðum, vígðum jafnt og leikum, hefur ekki tekist að jafna ágreining sín á milli. Prófastur skal skila vígslubiskupi skriflegu áliti ef sættir takast ekki.
12. gr. Starfsreglur þessar sem settar eru með heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021 öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um prófasta nr. 966/2006, með síðari breytingum.
Gildistaka 18. nóvember 2023.
Starfsreglur um ráðgjafarnefnd um kenningarleg málefni nr. 32/2022-2023.
1. gr. Ráðgjafarnefnd um kenningarleg málefni, kenningarnefnd, er biskupi og öðrum kirkjulegum stjórnvöldum til ráðgjafar um mál er varðar kenningu og játningargrundvöll íslensku þjóðkirkjunnar.
2. gr. Kenningarnefndin skal fjalla um mál sem kirkjuleg stjórnvöld vísa til hennar um
a) kenningargrundvöll evangelísk-lútherskrar kirkju, játningar og boðun,
b) embætti evangelísk lútherskrar kirkju,
c) handbók kirkjunnar, helgihald og trúarlíf,
d) samkirkjuleg málefni.
3. gr. Biskup Íslands er formaður kenningarnefndar. Aðrir nefndarmenn eru
a) vígslubiskupar,
b) prófessor í trúfræði við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Varamann hans skal guðfræði- og trúarbragðafræðideild tilnefna úr hópi fastra kennara deildarinnar,
c) einn tilnefndur af kirkjuþingi og annar til vara,
d) einn tilnefndur af prestastefnu og annar til vara.
Kenningarnefnd kýs sér varaformann.
4. gr. Þá nefndarmenn sem greinir í stafliðum b-d í 1. ml. 3. gr. skipar biskup til fjögurra ára, frá og með 1. júlí árið eftir kirkjuþingskosningar.
5. gr. Biskup Íslands leggur kenningarnefnd til fundaraðstöðu og sér um alla þjónustu við nefndina, svo sem vörslu skjala hennar, fundaraðstöðu og gagnaöflun.
6. gr. Kostnaður af störfum kenningarnefndar greiðist af kirkjustjórninni.
7. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi við birtingu.
Frá sama tíma falla brott starfsreglur um ráðgjafarnefnd um kenningarleg málefni nr. 821/2000, með síðari breytingum.
Gildistaka 24. október 2022.
Starfsreglur um ráðningu í prestsstörf
nr. 17/2020-2021, sbr. starfsrgl. nr. 48/2021-2022.
Lagagrundvöllur.
1. gr. Biskup Íslands ræður, fyrir hönd Þjóðkirkjunnar, í störf sóknarpresta, presta, héraðspresta og sérþjónustupresta Þjóðkirkjunnar.
Þarfagreining á prestakalli.
2. gr. Biskup Íslands undirbýr auglýsingu prestsstarfs með því að kalla eftir að sóknarnefnd/sóknarnefndir vinni ítarlega þarfagreiningu prestakalls og/eða héraðsnefndir vegna starfs héraðsprests. Biskup sendir viðkomandi sóknarnefnd/sóknarnefndum leiðbeiningar varðandi gerð þarfagreiningar. Prófastur stýrir þessari vinnu. Þarfagreining fylgir með auglýsingu fyrir viðkomandi prestsstarf. Þar sem sóknir eru fleiri en ein geta fulltrúar hverrar sóknar tekið þátt í gerð þarfagreiningar. Biskup Íslands setur vinnureglur um nánari útfærslu á því fyrirkomulagi. Niðurstaða þarfagreiningar skal borin undir sóknarnefndir og frestur gefinn til að gera athugasemdir. Vinna við gerð þarfagreiningar taki að hámarki tvær vikur.
Gerð þarfagreiningar.
3. gr. Þarfagreining innihaldi:
a) Lýsingu, í stuttu máli, á prestakallinu og sóknum þess, ef um er að ræða embætti sóknarprests eða prests.
b) Lýsingu á umfangi prestsþjónustunnar, starfsaðstöðu o.fl. er varðar hið kirkjulega starf.
c) Val eftirtalinna þátta:
• Barna og æskulýðsstarf.
• Fjölmenning.
• Fræðsla.
• Helgihald.
• Kærleiksþjónusta.
• Leiðtogahlutverk.
• Predikun.
• Tengsl.
• Öldrunarþjónusta.
• Annað.
Auglýsing um laus prestsstörf.
4. gr. Biskup Íslands auglýsir laust prestsstarf og skal umsóknarfrestur ekki vera skemmri en tvær vikur frá birtingu auglýsingar. Sæki enginn um starfið skal það auglýst að nýju að jafnaði innan þriggja mánaða frá birtingu fyrri auglýsingar. Í auglýsingu skal a.m.k. eftirtalið koma fram:
1. Niðurstöður þarfagreiningar, sbr. 2. og 3. gr.
2. Frá hvaða tíma ráðið er í starfið.
3. Að umsækjendur leggi fram prófskírteini sem staðfesti mag. theol. eða cand. theol. próf frá guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands eða sambærilega menntun. Haft skal samráð við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands við mat á menntun. Jafnframt skal leggja fram staðfestingu um að viðkomandi hafi lokið starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni og vottorð um aðra menntun eða þjálfun sem nýtist í starfi.
4. Upplýsingar um starfsferil, starfsreynslu og annað það sem umsækjendur telja nauðsynlegt að fram komi.
5. Umsækjendur skili greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn og væntingar er varða þjónustuna.
6. Að umsækjandi skuli leggja fram sakavottorð.
7. Hvenær umsóknarfrestur um embættið renni út.
8. Hver veiti nánari upplýsingar um starfið, starfskjör, erindisbréf og helstu lög og reglur sem um starfið gilda.
9. Hvort prestssetur fylgi starfinu.
10. Að sótt skuli um starfið á þar til gerðu eyðublaði biskupsstofu.
11. Að heimilt sé að óska eftir almennum prestskosningum.
12. Að nöfn umsækjenda verði birt á opnum vef Þjóðkirkjunnar að liðnum umsóknarfresti, hafi ekki verið óskað nafnleyndar. Nafnleynd umsækjenda á ekki við þegar um almennar prestskosningar er að ræða, sbr. 13. gr. starfsreglnanna.
Tímabundin ráðning í prestsstarf, starfaskipti og tilfærsla í starfi.
5. gr. Biskupi Íslands er heimilt að fengnu áliti/umsögn sóknarnefnda/héraðsnefnda að ráða í prestsstarf án auglýsingar tímabundið, falli sá prestur frá sem ráðinn hefur verið eða er fjarverandi um lengri tíma vegna veikinda, fæðingarorlofs eða af öðrum ástæðum.
Óski prestur/prestar heimildar til starfaskipta, getur biskup að fengnu áliti/umsögn sóknarnefnda/héraðsnefnda leyft tímabundin starfaskipti presta, að hámarki í eitt ár. Engar bætur verða greiddar ef laun lækka við skiptin.
Biskupi er heimilt að flytja presta úr einu starfi í annað með samþykki viðkomandi sóknarnefnda eða héraðsnefnda, ef við á.
Tálmanir á ráðningu.
6. gr. Óheimilt er að ráða til starfa einstakling til að sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri, sem hlotið hefur refsidóm vegna brota á eftirtöldum lagabálkum:
a) Barnaverndarlögum nr. 80/2002.
b) Almennum hegningarlögum nr. 19/1940, þ.e. kynferðisbrot skv. 22. kafla, önnur ofbeldisbrot, skv. 23. kafla og brot gegn frjálsræði manna, skv. 24. kafla alm. hgl. nr. 19/1940, að undanskildum minniháttar líkamsmeiðingum, skv. 217. gr.
c) Lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sem og 173. gr. alm. hgl. nr. 19/1940, og hlotið refsidóm á fimm undangengnum árum.
Biskup Íslands skal leita eftir samþykki umsækjenda til þess að fá aðgang að upplýsingum úr sakaskrá. Synji umsækjandi um heimild til þess, er óheimilt að ráða viðkomandi til starfa. Skimun gildir í eitt ár eftir að heimild til þess er veitt. Prestum er skylt að fara í skimun á fimm ára fresti eftir fyrstu skimun.
Samsetning valnefndar.
7. gr. Valnefnd er skipuð sjö fulltrúum að lágmarki. Prófasti sem leiðir vinnuna, fimm fulltrúum sóknarnefnda viðkomandi prestakalls sem kjörnir eru á sóknarnefndarfundi og lögfræðingi á biskupsstofu eða mannauðsstjóra biskupsstofu.
Þar sem sóknir eru fleiri en fimm í viðkomandi prestakalli getur hver sókn haft sinn fulltrúa í nefndinni. Við samsetningu valnefndar sé tekið mið af fjölda sóknarbarna hverrar sóknar. Sé ein sókna prestakallsins fjölmennari en hinar samanlagt skal taka mið af því við fjölda fulltrúa í valnefnd.
Störf valnefndar.
8. gr. Valnefnd prestakalls velur sóknarprest og prest.
Valnefnd kemur saman eigi síðar en einni viku eftir að umsóknarfrestur rennur út.
Á þeim fundi er farið yfir umsóknir, fylgiskjöl og aðrar upplýsingar frá viðkomandi umsækjanda. Valnefnd skal boða umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests. Valnefnd semur spurningar sem byggir á þarfagreiningunni. Allir umsækjendur um viðkomandi prestakall fá jafnlangan tíma til viðtals og sömu spurningar.
Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjanda. Niðurstaða valnefndar telst bindandi ef tveir þriðju nefndarmanna ná samstöðu um hana.
Valnefnd skal byggja val sitt á grundvelli þarfagreiningarinnar og rökstyðja það á grundvelli hennar.
Fundir valnefndar eru lokaðir og er fulltrúum í valnefnd skylt að gæta þagmælsku um atriði er varða umsækjendur og þeir fá vitneskju um í starfi nefndarinnar og fellur sú skylda ekki úr gildi við starfslok í nefndinni.
Biskup setur leiðbeinandi reglur fyrir valnefndir og umsækjendur.
Héraðsprestar.
9. gr. Biskupi Íslands er heimilt að ákveða að í prófastsdæmum starfi héraðsprestar.
Valnefnd skal skipuð þremur fulltrúum héraðsnefndar og lögfræðingi á biskupsstofu eða mannauðsstjóra biskupsstofu.
Prófastur leiðir vinnu nefndarinnar, sem velur héraðsprest úr hópi umsækjenda.
Sérþjónustuprestar.
10. gr. Biskup Íslands ræður, fyrir hönd Þjóðkirkjunnar, í störf sérþjónustupresta Þjóðkirkjunnar að fenginni niðurstöðu valnefndar. Valnefnd er skipuð þremur fulltrúum þeirra sem viðkomandi þjónusta varðar, prófasti, sem leiðir vinnuna og lögfræðingi á biskupsstofu eða mannauðsstjóra biskupsstofu.
Ráðning í prestsstarf.
11. gr. Biskup ræður þann umsækjanda í starfið sem valnefnd hefur náð samstöðu um og kynnir hana umsækjendum enda telji hann niðurstöðu valnefndar reista á lögmætum sjónarmiðum. Náist ekki samstaða í valnefnd getur biskup framlengt umsóknarfrestinn eða ákveðið að auglýsa starfið að nýju.
Formgalli á málsmeðferð.
12. gr. Telji biskup Íslands að verulegur formgalli sé á málsmeðferð valnefndar við ráðningu prests, getur hann ákveðið að ráða ekki í starfið og auglýsa það nýju.
Almenn prestskosning.
13. gr. Atkvæðisbær sóknarbörn teljast þau sem skráð eru í Þjóðkirkjuna í prestakalli samkvæmt þjóðskrá og eru fullra 16 ára við birtingu auglýsingar á opnum vef Þjóðkirkjunnar um laust starf sóknarprests eða prests í prestakalli.
Nú kemur fram ósk, innan fimm daga frá birtingu auglýsingar, a.m.k. fimm atkvæðisbærra sóknarbarna um að almenn kosning skuli fara fram í prestakalli, eftir að embætti prests hefur verið auglýst laust til umsóknar. Skal þá biskupsstofa svo skjótt sem auðið er gefa atkvæðisbærum sóknarbörnum í prestakallinu kost á því að óska eftir almennri kosningu með rafrænni undirritun. Notast skal við öruggan hugbúnað og þ. á m. nota almenna innskráningarþjónustu s.s. rafræn skilríki eða Íslykil Þjóðskrár Íslands. Skal sóknarbarn auðkenna sig á fullnægjandi hátt áður en undirritað er rafrænt. Skal vera unnt að undirrita samkvæmt framanskráðu uns umsóknarfrestur um prestsembætti rennur út.
Hafi að lágmarki fjórðungur atkvæðisbærra sóknarbarna undirritað ósk um almenna prestskosningu skal orðið við henni. Aldrei er þó þörf fleiri undirritana en fimm hundruð atkvæðisbærra sóknarbarna. Rísi ágreiningur um hvort almenn prestskosning skuli fara fram eða um framkvæmd hennar að öðru leyti skal fjallað um málið, eftir því sem við á, samkvæmt starfsreglum um kjör til kirkjuþings. Yfirkjörstjórn Þjóðkirkjunnar úrskurðar um ágreining skv. 18.-21. gr. þessarra starfsreglna. Almenn prestskosning skal vera leynileg, sbr. þó 3. mgr. 15. gr.
Kjörstjórn við almennar prestskosningar.
14. gr. Kjörstjórn við almennar prestskosningar er sú sama og kjörstjórn Þjóðkirkjunnar samkvæmt starfsreglum um kjör til kirkjuþings.
Jafnskjótt og biskupi Íslands hafa borist skriflegar óskir um almenna kosningu í prestakalli, frá tilgreindum fjölda atkvæðisbærra sóknarbarna, sbr. 1. og 2. mgr. 13. gr., skal hann tilkynna kjörstjórn það skriflega.
Kjörstjórn er heimilt að fela hlutaðeigandi prófasti eða öðrum starfsmönnum Þjóðkirkjunnar að annast undirbúning og framkvæmd kosningar á ábyrgð kjörstjórnar. Biskupsstofa skal láta kjörstjórn í té þá nauðsynlegu aðstöðu og þjónustu sem óskað er eftir við almenna prestskosningu.
Störf kjörstjórnar.
15. gr. Kjörstjórn ákveður hvenær kosning skuli fara fram og skal hún auglýst með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Kjörstjórn annast prentun kjörseðla. Kjörseðlar skulu vera úr pappír sem prent eða skrift sést ekki í gegnum. Á þá skal prenta nöfn umsækjenda í stafrófsröð. Kjörstjórn auglýsir á heimasíðu Þjóðkirkjunnar og með öðrum tíðkanlegum hætti, hvernig, hvenær og hvar kosning skuli fara fram og hverjir séu í kjöri. Kjörstjórn er heimilt að ákveða að hafa fleiri en eina kjördeild ef aðstæður í prestakalli þykja gefa tilefni til þess.
Kjörstjórn er heimilt að ákveða að kosning verði rafræn og fer þá um framkvæmd hennar samkvæmt starfsreglum um kjör til kirkjuþings.
Kjörskrá.
16. gr. Kjörstjórn annast gerð kjörskrár í hverri sókn, á grundvelli gagna frá Þjóðskrá Íslands.
Á kjörskrá skal taka þá sem skráðir eru í íslensku Þjóðkirkjuna, eiga lögheimili í prestakallinu og hafa náð 16 ára aldri á þeim degi sem kosning fer fram.
Þegar kjörskrá hefur verið samin skal hún staðfest á fundi kjörstjórnar og undirrituð af formanni kjörnefndar. Kjörskrá skal liggja frammi á aðgangsstýrðum vef eigi síðar en þremur vikum fyrir kjördag, þar sem kjósandi getur flett upp hvort hann sé á kjörskrá. Við aðgangsstýringuna er notuð almenn innskráningarþjónusta s.s. Íslykill Þjóðskrár Íslands.
Athugasemdir við kjörskrá.
17. gr. Hver sá, sem kæra vill að einhvern vanti á kjörskrá eða sé þar ofaukið, þarf að hafa afhent kjörstjórn kæru sína, ásamt rökum og gögnum máli sínu til stuðnings, áður en kosning hefst.
Sé kæran um það að einhver sé á skrá tekinn sem ekki hafi rétt til að standa þar skal kjörstjórn senda þeim sem yfir er kært eftirrit af kærunni.
Um athugasemdir við kjörskrá, sem fram eru komnar, skal kjörstjórn úrskurða í síðasta lagi þremur dögum fyrir kjördag. Skal gefa þeim, er kæran varðar, kost á að tjá sig og koma að gögnum áður en kæran er úrskurðuð.
Yfirkjörstjórn Þjóðkirkjunnar.
18. gr. Úrskurði kjörstjórnar má kæra til yfirkjörstjórnar Þjóðkirkjunnar, sbr. starfsreglur um kjör til kirkjuþings. Hún skal hafa úrskurðað fram komnar kærur degi fyrir kjördag. Eftir þetta verður engin breyting gerð á kjörskránni.
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar.
19. gr. Þeir sem eru fjarstaddir eða gera ráð fyrir að vera það þegar kosning fer fram og geta ekki sótt kjörfund af þeim sökum, hafa heimild til að greiða atkvæði utan kjörfundar. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram hjá kjörstjórn og getur hún hafist þá er tvær vikur eru til kjördags. Kjörstjórn er heimilt að fela prófasti eða öðrum starfsmönnum Þjóðkirkjunnar að annast, á ábyrgð kjörstjórnar, framkvæmd kosningar við utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Kjörstjórn auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fari fram.
Heimilt er að binda atkvæðagreiðslu við ákveðna daga og ákveðinn tíma á hverjum degi, þó eigi skemur en eina klukkustund. Tilgreina skal í gerðabók hverjir greiði atkvæði utan kjörfundar.
Úrslit kosningar.
20. gr. Talning atkvæða fer fram hjá kjörstjórn er hún hefur fengið öll kjörgögn í hendur.
Kosning er gild ef minnst fjórðungur atkvæðisbærra manna nýtir atkvæðisrétt sinn.
Kjörstjórn tilkynnir biskupi Íslands úrslit kosningar og sendir honum afrit úr gerðabók.
Ráðning kjörins umsækjanda.
21. gr. Ráða skal þann umsækjanda í prestsstarfið sem hlotið hefur flest greidd atkvæði. Verði atkvæði jöfn skal varpa hlutkesti. Nú er aðeins einn umsækjandi í kjöri og telst hann kjörinn hljóti hann meiri hluta greiddra atkvæða. Ef enginn hlýtur bindandi kosningu getur biskup Íslands ráðið í prestsstarfið, úr hópi umsækjenda, þann sem hann metur hæfastan, framlengt umsóknarfrest eða auglýst starfið að nýju.
Starfslok vegna aldurs.
22. gr. Fastráðning presta fellur úr gildi, án uppsagnar, frá og með næstu mánaðamótum eftir að 70 ára aldri er náð.
Gildistaka.
23. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru með heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna, nr. 77/2021, öðlast gildi 1. janúar 2022. Við gildistöku þeirra falla brott starfsreglur um ráðningu í prestsstörf og starfslok nr. 144/2016, með síðari breytingum.
Starfsreglur um sálgæslu- og fjölskylduþjónustu kirkjunnar nr. 38/2022-2023.
1. gr. Á vegum þjóðkirkjunnar skal starfrækja sálgæslu- og fjölskylduþjónustu kirkjunnar sem veitir sérhæfða þjónustu í sálgæslu og fjölskyldumálum á grundvelli kristinna lífsgilda. Sálgæslu- og fjölskylduþjónustan er á sviði sálgæslu- og kærleiksþjónustu kirkjunnar og lýtur faglegri forystu biskups Íslands.
2. gr. Með sérhæfðri þjónustu kirkjunnar í sálgæslu- og fjölskyldumálum er átt við að:
a) styðja fjölskyldur sem þess óska með viðtölum, ráðgjöf og fræðslu,
b) styðja og efla presta og djákna í samskiptum við fjölskyldur, svo sem viðtölum, í sáttaumleitunum, fræðslustarfi og ráðgjöf.
3. gr. Sálgæslu- og fjölskylduþjónusta kirkjunnar annast handleiðslu presta, djákna og annarra starfsmanna kirkjunnar eftir því sem við á. Biskup setur reglur um fyrirkomulag handleiðslunnar og kostnað.
4. gr. Biskup Íslands ræður forstöðumann sálgæslu- og fjölskylduþjónustu kirkjunnar og skal hann vera prestur með sérmenntun á starfssviði þjónustunnar.
Hann ræður starfsfólk í samráði við biskup Íslands.
5. gr. Forstöðumaður og starfsfólk er bundið þagnarskyldu um það sem leynt á að fara þ.e. málefni skjólstæðinga, og annað sem lýtur að rækslu starfa þeirra og málefna þjónustunnar. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
6. gr. Sálgæslu- og fjölskylduþjónustunni er heimilt að afla sértekna samkvæmt gjaldskrá er staðfest skal af rekstrarstofu Þjóðkirkjunnar.
7. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma falla á brott starfsreglur um Fjölskyldu- og sálgæsluþjónustu kirkjunnar nr. 951/2009, með síðari breytingum.
Gildistaka 24. október 2022.
Starfsreglur um skipulag kirkjunnar í héraði nr. 47/2022-2023.
Grundvöllur skipulags þjóðkirkjunnar
1. gr. Söfnuður er félagsleg og fjárhagsleg grunneining þjóðkirkjunnar.
Söfnuður á tilteknu landsvæði myndar sókn. Ein eða fleiri sóknir mynda prestakall. Prestaköll mynda prófastsdæmi.
Prófastsdæmi mynda vígslubiskupsumdæmi.
Sóknir, prestaköll og prófastsdæmi mynda eitt biskupsdæmi á Íslandi.
Skálholtsumdæmi
2. gr. Sóknir mynda þau prestaköll og prófastsdæmi sem tilgreind eru í ákvæðum
3. gr. - 8. gr. og mynda umdæmi vígslubiskups í Skálholti.
Suðurprófastsdæmi
3. gr. Prestaköll í Suðurprófastsdæmi eru eftirtalin og mynduð af þeim sóknum sem hér greinir:
Bjarnanesprestakall: Bjarnanes-, Brunnhóls-, Hafnar-, Hofs- og Kálfafellsstaðarsóknir.
Kirkjubæjarklaustursprestakall: Grafar-, Langholts-, Prestsbakka- og Þykkvabæjarklaustursóknir.
Víkurprestakall: Ásólfsskála-, Eyvindarhóla-, Reynis-, Skeiðflatar-, Víkur- og Stóra-Dalssóknir.
Breiðabólsstaðarprestakall: Akureyjar-, Breiðabólsstaðar-, Hlíðarenda-, Kross-og Stórólfshvolssóknir.
Fellsmúlaprestakall: Árbæjar-, Haga-, Kálfholts-, Marteinstungu- og Skarðssóknir.
Oddaprestakall: Odda- og Keldna- og Þykkvabæjarsóknir.
Vestmannaeyjaprestakall: Ofanleitissókn.
Hveragerðisprestakall: Hveragerðis- og Kotstrandarsóknir.
Hrunaprestakall: Hrepphóla-, Hruna-, Ólafsvalla- og Stóra-Núpssóknir.
Árborgarprestakall: Eyrarbakka-, Gaulverjabæjar-, Hraungerðis-, Laugardæla-, Selfoss-, Stokkseyrar- og Villingaholtssóknir.
Skálholtsprestakall: Bræðratungu-, Haukadals-, Miðdals-, Mosfells-, Skálholts-, Torfastaða-, Úlfljótsvatns- og Þingvallasóknir.
Þorlákshafnarprestakall: Hjalla- og Strandarsóknir.
Kjalarnesprófastsdæmi
4. gr. Prestaköll í Kjalarnesprófastsdæmi eru eftirtalin og mynduð af þeim sóknum sem hér greinir:
Garðaprestakall: Bessastaða- og Garðasóknir.
Grindavíkurprestakall: Grindavíkursókn.
Hafnarfjarðarprestakall: Hafnarfjarðarsókn.
Keflavíkurprestakall: Keflavíkursókn.
Mosfellsprestakall: Lágafellssókn.
Njarðvíkurprestakall: Kirkjuvogs- og Njarðvíkursóknir.
Reynivallaprestakall: Brautarholts- og Reynivallasóknir.
Tjarnaprestakall: Ástjarnar- og Kálfatjarnarsóknir.
Útskálaprestakall: Hvalsnes- og Útskálasóknir.
Víðistaðaprestakall: Víðistaðasókn.
Reykjavíkurprófastsdæmi eystra
5. gr. Prestaköll í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra eru eftirtalin og mynduð af þeim sóknum sem hér greinir:
Árbæjarprestakall: Árbæjarsókn.
Breiðholtsprestakall: Breiðholts-, Fella- og Hólasóknir.
Digranes- og Hjallaprestakall: Digranes- og Hjallasóknir.
Grafarholtsprestakall: Grafarholtssókn.
Grafarvogsprestakall: Grafarvogssókn
Kársnesprestakall: Kársnessókn.
Lindaprestakall: Lindasókn.
Seljaprestakall: Seljasókn.
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
6. gr. Prestaköll í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra eru eftirtalin og mynduð af þeim sóknum sem hér greinir:
Dómkirkjuprestakall: Dómkirkjusókn.
Fossvogsprestakall: Bústaða- og Grensássóknir.
Hallgrímsprestakall: Hallgrímssókn.
Háteigsprestakall: Háteigssókn.
Laugardalsprestakall: Ás-, Langholts- og Laugarnessóknir.
Nesprestakall: Nessókn.
Seltjarnarnesprestakall: Seltjarnarnessókn.
Vesturlandsprófastsdæmi
7. gr. Prestaköll í Vesturlandsprófastsdæmi eru eftirtalin og mynduð af þeim sóknum sem hér greinir:
Borgarprestakall: Akra-, Álftanes-, Álftártungu- og Borgar- og Borgarnessóknir.
Garða- og Saurbæjarprestakall: Akranes-, Innra-Hólms-, Leirár- og Saurbæjarsóknir.
Reykholtsprestakall: Bæjar-, Fitja-, Hvanneyrar-, Lundar-, Reykholts- og Síðumúlasóknir.
Stafholtsprestakall: Hvamms-, Norðtungu- og Stafholtssóknir.
Dalaprestakall: Hjarðarholts-, Hvamms-, Kvennabrekku-, Skarðs-, Snóksdals-, Staðarfells-og Stóra-Vatnshornssóknir.
Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakall: Ingjaldshóls- og Ólafsvíkursóknir.
Setbergsprestakall: Setbergssókn.
Staðastaðarprestakall: Búða-, Fáskrúðarbakka-, Hellna-, Kolbeinstaða-, Staðarhrauns- og Staðastaðarsóknir.
Stykkishólmsprestakall: Bjarnarhafnar-, Breiðabólsstaðar-, Flateyjar-, Helgafells-, Narfeyrar- og Stykkishólmssóknir.
Vestfjarðaprófastsdæmi
8. gr. Prestaköll í Vestfjarðaprófastsdæmi eru eftirtalin og mynduð af þeim sóknum sem hér greinir:
Breiðafjarðar- og Strandaprestakall: Árnes-, Drangsnes-, Garpsdals-, Gufudals- og Reykhóla-, Hólmavíkur-, Kaldrananes-, Kollafjarðarnes-, Melgraseyrar-, Nauteyrar-, Óspakseyrar- og Staðarhólssóknir.
Ísafjarðarprestakall: Holts-, Hóls-, Hrafnseyrar-, Kirkjubóls-, Ísafjarðar-, Mýra, Núps-, Staðar-, Súðavíkur-, Sæbóls-, Unaðsdals- og Þingeyrarsóknir.
Patreksfjarðarprestakall: Bíldudals-, Breiðuvíkur-, Brjánslækjar-, Haga-, Patreksfjarðar-, Sauðlauksdals-, Saurbæjar- og Stóra-Laugardalssóknir.
Hólaumdæmi
9. gr. Sóknir mynda þau prestaköll og prófastsdæmi sem tilgreind eru í ákvæðum
10 .gr. - 12. gr. og mynda umdæmi vígslubiskups á Hólum.
Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi
10. gr. Prestaköll í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi eru eftirtalin og mynduð af þeim sóknum sem hér greinir:
Húnavatnsprestakall: Auðkúlu-, Bergsstaða-, Blönduóss-, Bólstaðarhlíðar-, Hofs-, Holtastaða-, Höfða- og Höskuldsstaða-, Melstaðar-, Prestbakka-, Staðarbakka-, Staðar-, Svínavatns-, Tjarnar- og Hvammstanga-, Undirfells-, Víðidalstungu- og Þingeyrasóknir.
Skagafjarðarprestakall: Barðs-, Fells-, Flugumýrar-, Glaumbæjar-, Goðdala-, Hofsós-, Hofsstaða-, Hóla,- Hvamms-, Ketu-, Miklabæjar-, Mælifells-, Reykja-, Reynistaðar-, Rípur-, Sauðárkróks-, Silfrastaða-, og Viðvíkur- og Víðimýrarsóknir.
Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi
11. gr. Prestaköll í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi eru eftirtalin og mynduð af þeim sóknum sem hér greinir:
Akureyrar- og Laugalandsprestakall: Akureyrar-, Grundar- og Kaupangssóknir.
Dalvíkurprestakall: Dalvíkur-, Hríseyjar-, Miðgarða-, Möðruvallaklausturs- og Stærra-Árskógssóknir.
Glerárprestakall: Lögmannshlíðarsókn.
Ólafsfjarðarprestakall: Ólafsfjarðarsókn.
Siglufjarðarprestakall: Siglufjarðarsókn.
Langaness- og Skinnastaðarprestakall: Garðs-, Raufarhafnar-, Skinnastaðar-, Snartastaða- og Svalbarðs- og Þórshafnarsóknir.
Laufásprestakall: Grenivíkur-, Háls-, Laufáss-, Ljósavatns-, Lundarbrekku- og Svalbarðssóknir.
Þingeyjarprestakall: Einarsstaða-, Grenjaðarstaðar-, Húsavíkur-, Nes-, Reykjahlíðar-, Skútustaða-, Víðirhóls-, Þóroddsstaða- og Þverársóknir.
Austurlandsprófastsdæmi
12. gr. Prestaköll í Austfjarðaprófastsdæmi eru eftirtalin og mynduð af þeim sóknum sem hér greinir:
Egilsstaðaprestakall: Ás-, Bakkagerðis-, Egilsstaða-, Eiða-, Eiríksstaða-, Hjaltastaða-, Hofteigs-, Kirkjubæjar-, Möðrudals-, Seyðisfjarðar-, Sleðbrjóts-, Vallanes-, Valþjófsstaðar- og Þingmúlasóknir.
Hofsprestakall: Hofs-, Skeggjastaða- og Vopnafjarðarsóknir.
Austfjarðaprestakall: Berufjarðar-, Berunes-, Brekku-, Djúpavogs-, Eskifjarðar-, Heydala-, Hofs-, Kolfreyjustaðar-, Norðfjarðar-, Reyðarfjarðar- og Stöðvarfjarðarsóknir.
Tillöguréttur sóknarmanna á skipan sókna
13. gr. Sóknarbörn geta gert tillögu um breytingu á sóknaskipan innan þess prestakalls sem sókn þeirra er staðsett í. Tillaga um breytingu á skipan sókna skal borin fram á viðkomandi safnaðarfundi/safnaðarfundum. Hljóti hún samþykki safnaðarfundarins/safnaðarfundanna, skal sóknarnefnd/sóknarnefndir fylgja þeirri samþykkt eftir. Með tillögu um sameiningu sókna skal gerð grein fyrir því hvaða kirkja henti best sem sóknarkirkja. Tillagan skal send biskupi Íslands, sem býr málið til flutnings á kirkjuþingi á grundvelli 14. gr.
Sé um tillögu að skiptingu sóknar að ræða skal hún send biskupi hljóti hún samþykki á safnaðarfundi.
Breytingar á skipan sókna
14. gr. Biskup Íslands, vígslubiskupar og fulltrúar á kirkjuþingi geta lagt fram tillögu um breytingu á skipan sókna. Tillagan skal, áður en hún er lögð fram á kirkjuþingi, kynnt með fullnægjandi hætti fyrir söfnuðum þeim sem í hlut eiga, vígðum þjónum sem þeim þjóna og á héraðsfundi og ef við á, biskupafundi. Tillaga verður ekki tekin til meðferðar á kirkjuþingi og afgreidd nema fyrir liggi greinargerð þeirra safnaða sem í hlut eiga.
Breytingar á skipan prestakalla
15. gr. Biskup Íslands, vígslubiskupar og fulltrúar á kirkjuþingi geta lagt fram tillögu um breytingu á skipan prestakalla, s.s. sameiningu þeirra, stofnun nýrra eða tilfærslu sókna milli prestakalla.
Tillagan skal, áður en hún er lögð fram á kirkjuþingi, kynnt með fullnægjandi hætti fyrir söfnuðum þeim sem mynda viðkomandi prestaköll, vígðum þjónum sem þeim þjóna og á héraðsfundi og ef við á, biskupafundi.
Skulu fram komnar umsagnir fylgja tillögunni við framlagningu á kirkjuþingi.
Breytingar á skipan prófastsdæma
16. gr. Biskup Íslands, vígslubiskupar og fulltrúar á kirkjuþingi geta lagt fram tillögu um breytingu á skipan prófastsdæma.
Tillagan skal, áður en hún er áður en hún er lögð fram á kirkjuþingi, kynnt með fullnægjandi hætti fyrir söfnuðum þeim sem mynda viðkomandi prestaköll, vígðum þjónum sem þeim þjóna og á héraðsfundi og ef við á, biskupafundi.
Skulu umsagnir fylgja tillögunni við framlagningu á kirkjuþingi.
17. gr. Biskupafundur kannar árlega hvort þörf er á breytingum á skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma, með hliðsjón af hagkvæmni, breytingum á mannfjölda í sóknum, samgöngum, staðháttum eða aðstæðum að öðru leyti, sbr. 5. gr. starfsreglna um biskupafund nr. 34/2022-2023. Við mat á skipan sókna skal einnig líta til þjónustuþarfa, svo og sögulegra og menningarlegra verðmæta.
Þess skal gætt að sókn geti uppfyllt skilyrði um rekstur og fjárhag sókna.
18. gr. Sé sókn skipt skal uppgjör vegna eigna og skulda fara eftir hlutfallstölu sóknarmanna. Sóknarkirkja ásamt búnaði tilheyrir þeirri sókn þar sem kirkjan stendur. Þegar kirkjusókn er skipt og ný stofnuð, í nýju byggðahverfi, á hin nýja sókn óskert tilkall til þeirra fjármuna, sem sóknarmenn hinnar nýju sóknar hafa sannanlega lagt til eldri sóknarinnar, þó að frádreginni sanngjarnri þóknun fyrir þá þjónustu, sem sóknarmenn nýju sóknarinnar nutu, meðan sóknin var óskipt. Heimilt er að hafa fjárskil eftir annarri reglu ef um það næst samkomulag milli sóknanna. Framkvæmd fjárskipta er í höndum þriggja manna skilanefndar sem framkvæmdastjóri rekstrarstofu Þjóðkirkjunnar tilnefnir hverju sinni.
Sé ein eða fleiri sóknir færðar úr prófastsdæmi í annað prófastsdæmi skal fara fram fjárhagslegt uppgjör. Skulu hlutfallslegar tekjur og eignir fylgja í það prófastsdæmi sem sókn flyst til.
19. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um skipulag kirkjunnar í héraði nr. 1026/2007, með síðari breytingum.
Gildistaka 15. nóvember 2023.
Starfsreglur um söfnuði og sóknarnefndir
nr. 16/2021-2022, sbr. starfsrgl. nr. 16/2022-2023, nr. 9/2023-2024 og nr. 41/2023-2024.
I. KAFLI.
Söfnuðir og sóknir.
1. gr. Söfnuður er sjálfstæð félagsleg og fjárhagsleg grunneining Þjóðkirkjunnar og starfsvettvangur hennar á hverjum stað. Söfnuður tengist öðrum söfnuðum innan sama prestakalls, ef um það er að ræða, með samstarfi eða á annan hátt sem héraðsfundur kann að mæla fyrir um eða einstakar sóknarnefndir stofna til. Þá tengjast söfnuðir öðrum söfnuðum innan prófastsdæmis með sameiginlegum héraðsfundi. Söfnuður á tilteknu landsvæði myndar sókn. Ein eða fleiri sóknir mynda prestakall. Sókn er félag þess fólks innan Þjóðkirkjunnar sem býr innan sóknarmarka. Sóknarbörn eru allir þeir sem lögheimili eiga í sókn og eru skráðir í Þjóðkirkjuna. Sóknarbörn eiga rétt á kirkjulegri þjónustu í sókn sinni og bera sameiginlega skyldur eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum eða með lögmæltum ákvörðunum.
II. KAFLI.
Frumskyldur sóknar.
2. gr. Frumskyldur sóknar er helgihald, kærleiksþjónusta og fræðsla sem nærir og eflir trú sem starfar í kærleika. Til þess er haldið uppi:
a. reglubundnum guðsþjónustum og séð til þess að sóknarbörn eigi aðgang að sálgæslu í samtali, prédikun, sakramenti og fyrirbæn,
b. reglubundnu fræðslustarfi um kristna trú og sið, og stuðningi við trúaruppeldi heimilanna með barnastarfi, fermingarfræðslu og æskulýðsstarfi,
c. kærleiksþjónustu á vettvangi sóknarinnar og með aðild að hjálparstarfi og kristniboði kirkjunnar.
Þar sem ekki er unnt að halda uppi reglubundinni þjónustu, svo sem vegna fámennis, geta sóknir í sama prestakalli, eða á sama samstarfssvæði, sameinast um ofangreinda meginþætti safnaðarstarfs.
III. KAFLI.
Safnaðarfundir.
3. gr. Aðalsafnaðarfund skal að jafnaði halda fyrir maílok ár hvert. Þar skulu rædd málefni sóknarinnar, þar á meðal þau mál sem lögmælt er að undir fundinn séu borin, svo og þau mál sem héraðsfundur, sóknarprestur, prófastur eða biskup Íslands skýtur þangað. Aðalsafnaðarfundur er vettvangur starfsskila og reikningsskila af hendi sóknarnefndar og einstakra nefnda innan sóknarinnar. Aðalsafnaðarfundur fer með ákvörðunarvald innan sóknarinnar í málum þeim sem undir fundinn heyra samkvæmt lögum eða lögmæltum ákvörðunum. Aðra safnaðarfundi skal halda ef meiri hluti sóknarnefndar óskar þess eða einn fjórði hluti sóknarbarna sem atkvæðisrétt eiga á safnaðarfundum. Sóknarbörn njóta kosningarréttar og kjörgengis á safnaðarfundum þegar þau eru fullra sextán ára. Hvert sóknarbarn hefur atkvæðisrétt sem nemur einu atkvæði. Enginn getur farið með atkvæðisrétt annars samkvæmt umboði.
4. gr. Sóknarnefnd boðar til aðalsafnaðarfundar með minnst viku fyrirvara og skal greina frá dagskrá fundarins í fundarboði. Sóknarnefnd skal í samráði við starfandi sóknarprest og/eða starfandi prest boða til aðalsafnaðarfundar sóknarinnar. Fundinn skal auglýsa með þeim hætti sem venja er til um messuboð. Þar skal taka fyrir eftirfarandi:
1. Gera grein fyrir starfsemi og rekstri sóknarinnar á liðnu starfsári.
2. Afgreiðslu reikninga sóknar og kirkjugarðs fyrir sl. ár, ásamt fjárhagsáætlun næsta árs.
3. Gera grein fyrir starfsemi héraðsnefndar og héraðsfundi.
4. Ákvörðun um meiriháttar framkvæmdir og framtíðarskuldbindingar.
5. Kosning tveggja skoðunarmanna eða endurskoðanda sóknar og kirkjugarðs og varamanna þeirra til árs í senn.
6. Kosning sóknarnefndar, sbr. 6. gr. starfsreglna þessara.
7. Kosning í aðrar nefndir, ráð og trúnaðarstörf.
8. Önnur mál.
Sóknarnefnd er heimilt að boða til aukaaðalsafnaðarfundar ef brýna nauðsyn ber til. Boða skal hann með sama hætti og til aðalsafnaðarfundar, sbr. 1. mgr. 3
IV. KAFLI.
Skipun sóknarnefnda.
5. gr. Í hverri kirkjusókn er sóknarnefnd sem starfar undir forystu sóknarnefndarformanns í nánu samstarfi við sóknarprest.
Aðalsafnaðarfundur kýs sóknarnefndarmenn og varamenn til fjögurra ára í senn. Sóknarnefnd starfar í umboði safnaðarins og ber ábyrgð gagnvart honum.
Sóknarnefnd starfar á grundvelli laga um Þjóðkirkjuna, starfsreglna og samþykkta kirkjuþings.
6. gr. Sóknarnefnd skal skipuð leikmönnum. Leikmaður telst sá sem ekki hefur tekið vígslu til prests eða djákna.
Sóknarnefndarmenn eru þrír í sóknum þar sem sóknarbörn eru færri en 300, en ella fimm, þó svo að þegar sóknarbörn eru 1.000 hið fæsta mega sóknarnefndarmenn vera sjö og níu ef sóknarbörn eru 4.000 eða fleiri, allt miðað við 1. desember næstliðinn. Fjölga skal sóknarnefndarmönnum, ef því er að skipta, á næsta aðalsafnaðarfundi þegar kjör sóknarnefndarmanna á fram að fara, eftir að þeir verða 1.000 eða 4.000 hið fæsta. Nú fækkar sóknarmönnum niður fyrir greind mörk og ákveður aðalsafnaðarfundur þá hvort fækka skuli sóknarnefndarmönnum.
Kjósa skal a.m.k. jafnmarga varamenn og aðalmenn eru og taka þeir sæti í forföllum aðalmanna eftir þeirri röð sem þeir voru kosnir í. Heimilt skal sóknarnefnd að kveðja varamenn sér til liðsinnis þegar hún telur ástæðu til. Nú forfallast aðalmaður varanlega og skal þá kosinn nýr aðalmaður út kjörtímabil sóknarnefndar.
Á tveggja ára fresti skal nokkur hluti kjörinna aðalmanna og varamanna ganga úr nefndinni, sem hér segir:
Árið 2023 skulu tveir af þremur, þrír af fimm, fjórir af sjö og fimm af níu ganga úr nefndinni og ræður hlutkesti, nema samkomulag sé innan nefndarinnar.
Árið 2025 skulu einn af þremur, tveir af fimm, þrír af sjö og fjórir af níu kjörinna aðalmanna og varamanna ganga úr nefndinni og ræður hlutkesti, nema samkomulag sé innan nefndarinnar.
Skal síðan kosið um hluta sóknarnefndar á tveggja ára fresti eftirleiðis í samræmi við 4. og 5. mgr. ákvæðis þessa. Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 3. gr. er aðalsafnaðarfundi heimilt að kjósa leikmann til starfa í sóknarnefndinni sem tilheyrir annarri sókn samkvæmt lögheimilisskráningu. Kosningarréttur er þó ávallt bundinn lögheimilisskráningu. Þrátt fyrir það skal meirihluti sóknarnefndar ávallt skipaður leikmönnum sem tilheyra sókninni samkvæmt lögheimilisskráningu. Leikmaður verður að uppfylla almenn skilyrði til þess að geta tekið sæti í sóknarnefnd. Leikmaður getur aðeins starfað í einni sóknarnefnd hverju sinni.
Verkaskipti sóknarnefndarmanna.
7. gr. Sóknarnefnd skiptir með sér verkum formanns, gjaldkera og ritara í röðum aðalmanna þegar eftir að kjör í sóknarnefnd hefur farið fram. Sóknarnefnd ákveður hver skuli vera fyrsti og annar varaformaður er komi úr röðum aðalmanna. Þriðji varaformaður er sá varamaður sem fyrst tekur sæti sem aðalmaður eftir þeirri röð sem varamenn voru kosnir í.
Sóknarnefnd ákveður að öðru leyti um verkaskipti og varamenn aðalmanna eftir því sem þurfa þykir.
Sóknarnefnd er heimilt að kjósa úr sínum hópi framkvæmdanefnd er starfi á milli funda sóknarnefndar. Sóknarnefnd getur ákveðið að kjósa einnig varamenn í framkvæmdanefnd og í hvaða röð þeir taka sæti.
Víki öll sóknarnefnd aðalmanna sæti, skiptir sóknarnefnd, skipuð varamönnum, verkum eins og þurfa þykir. Fyrsti varamaður skal þó gegna stöðu formanns. Sóknarnefnd kýs safnaðarfulltrúa og varamann hans og ákveður verkefni er hann hafi með höndum.
V. KAFLI. Hlutverk sóknarnefnda.
Guðsþjónusta, helgihald, trúfræðsla og rekstur.
8. gr. Í hverri kirkjusókn er sóknarnefnd sem styður kirkjulegt starf í sókninni ásamt sóknarpresti og starfsmönnum sóknarinnar og annast rekstur og framkvæmdir á vegum sóknarinnar.
Sóknarnefnd skal starfa undir forystu sóknarprests og með hliðsjón af erindisbréfi hans við mótun og skipulag kirkjulegs starfs safnaðarins og standa fyrir guðsþjónustuhaldi safnaðarins, trúfræðslu og kærleiksþjónustu.
Sóknarnefnd er ásamt sóknarpresti í fyrirsvari fyrir sóknina gagnvart stjórnvöldum, og einstökum mönnum og stofnunum. Hún hefur umsjón með kirkju safnaðarins og safnaðarheimili.
Sóknarnefnd skal gæta réttinda kirkju og gera prófasti viðvart ef út af bregður.
9. gr. Helstu störf sóknarnefndar eru sem hér segir:
1. Hafa ásamt prestum og í samráði við annað starfsfólk safnaðarins, eftir því sem við á, forgöngu um kirkjulegt starf á vegum sóknarinnar.
2. Fjárstjórn sóknarinnar.
3. Umsjón og gæsla eigna sóknarinnar.
4. Sjá til þess að viðunandi húsnæði og búnaður sé til guðsþjónustuhalds og annars safnaðarstarfs í sókninni.
5. Að sjá til þess að skráðir kirkjugripir og minningamörk séu verndaðir skv. ákvæðum laga um menningarminjar nr. 80/2012, með síðari breytingum.
6. Ráða starfsfólk sóknar í samráði við sóknarprest.
7. Önnur verkefni sem aðstæður í sókninni kunna að útheimta.
8. Val kjörfulltrúa vegna kosninga til kirkjuþings og kjörs biskups Íslands og vígslubiskupa.
Fundir sóknarnefnda.
10. gr. Sóknarnefnd heldur formlega fundi með reglulegum hætti þar sem málefni sóknarinnar eru til umræðu og ákvörðunar.
Formaður boðar fundi í sóknarnefnd og stýrir þeim og er fundur ályktunarfær ef meirihluti nefndarmanna sækir fundinn.
Sóknarprestur og aðrir prestar í prestakallinu skulu að jafnaði sitja sóknarnefndarfundi og sóknarprestur fundi framkvæmdanefndar ef hún starfar. Enn fremur aðrir starfsmenn sóknarinnar ef málefni þeirra eru sérstaklega til umræðu á fundinum. Sóknarnefnd skal fylgja vanhæfisreglum gildandi starfsreglna um þingsköp kirkjuþings hverju sinni um meðferð einstakra mála.
11. gr. Allir fundir sóknarnefndar sem og safnaðarfundir skulu bókaðir og staðfestir af fundarmönnum. Þá skal sóknarnefnd gæta þess að varðveita og skrá bréf, bækur og skjöl er snerta kirkjuna og starfsemi hennar. Um vörslu þessara gagna skal fara í samræmi við gildandi lög hverju sinni.
12. gr. Sóknarnefnd getur skipað nefndir úr sínum hópi eða utan hans til að fjalla um einstök málefni. Slíkar nefndir starfa á ábyrgð og í umboði sóknarnefndar sem setur þeim jafnframt verklagsreglur eða erindisbréf.
Rekstur og fjármál.
13. gr. Sóknarnefnd skal í samráði við sóknarprest gera fjárhagsáætlun fyrir hvert almanaksár og hafa þar m.a. hliðsjón af starfsáætlun sóknarprests, annarra presta og annarra starfsmanna sóknarinnar. Fjárhagsáætlunin skal lögð fram á aðalsafnaðarfundi til kynningar og afgreiðslu.
Sóknarnefnd, sóknarpresti og öðrum prestum ber síðan að sinna verkefnum sínum og halda uppi starfsemi á grundvelli samþykktrar fjárhagsáætlunar.
14. gr. Við ráðstöfun fjármagns sóknarinnar til skamms eða langs tíma skal ávallt gæta þess að fjárskuldbindingar vegna framkvæmda komi sem minnst niður á almennu kirkjustarfi. Eigi að ráðast í miklar fjárfestingar eins og smíði nýrrar kirkju, safnaðarheimilis eða hljóðfærakaup skal sóknarnefnd greina úthlutunarnefnd kirkjuþings, sbr. gildandi starfsreglur um fjármál kirkjunnar hverju sinni, skriflega frá áformum sínum um framkvæmdir og fjármögnun.
Sóknarnefnd er hvorki heimilt að greiða laun vegna prestsverka né styrkja það sem fellur undir starfskostnað presta og prófasta, samkvæmt gildandi reglum eða kjarasamningum hverju sinni. Þó er sóknarnefnd heimilt að leggja starfandi prestum til skrifstofuaðstöðu ef sóknin hefur bolmagn til þess án þess að það bitni á safnaðarstarfinu.
Ef fjárhag sókna er stefnt í tvísýnu með miklum hallarekstri eða skuldasöfnun þannig að það hamli eðlilegu safnaðarstarfi, eða er óstarfhæf, er stjórn Þjóðkirkjunnar heimilt að grípa inn í reksturinn, t.d. með skipun fjárhaldsmanns eða eftirlitsnefndar.
15. gr. Sóknarnefnd er óheimilt að efna til fjárskuldbindinga með persónulegum ábyrgðum einstaklinga.
16. gr. Sóknarnefnd getur ekki veðsett eignir sóknarinnar nema með samþykki safnaðarfundar.
17. gr. Sóknarnefnd sér til þess að bókhald sé fært í samræmi við lög og noti samræmt reikningsform við uppsetningu ársreiknings, sem rekstrarskrifstofa Þjóðkirkjunnar leggur til.
18. gr. Sóknarnefnd sér til þess að ársreikningur sóknar sé gerður fyrir hvert almanaksár. Ársreikningurinn skal áritaður af sóknarnefnd, endurskoðaður af kjörnum skoðunarmönnum eða endurskoðanda og lagður fram á aðalsafnaðarfundi til kynningar og afgreiðslu og síðan sendur rekstrarskrifstofu Þjóðkirkjunnar. Heimilt er stjórn Þjóðkirkjunnar að fela próföstum að kalla eftir ársreikningum sókna.
Stjórn Þjóðkirkjunnar getur ákveðið lokafrest sem sóknir hafa til að skila ársreikningi. Sé ársreikningi ekki skilað innan tilskilins frests getur nefndin óskað eftir að sóknargjald viðkomandi sóknar renni inn á sérgreindan biðreikning Þjóðkirkjunnar. Sóknargjald greiðist sókninni þegar löglegum ársreikningi hefur verið skilað.
19. gr. Ef sóknarnefnd fer með stjórn kirkjugarðs, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993, skal halda fjárhag kirkjugarðs algerlega aðgreindum frá fjárhag sóknar.
Starfsmannamál.
20. gr. Sóknarnefnd, í samráði við sóknarprest, ræður starfsmenn sóknarinnar.
21. gr. Auglýsa skal laus störf hjá sókninni með tveggja vikna umsóknarfresti hið minnsta. Auglýsing skal birtast í prentuðum fjölmiðli og á vef kirkjunnar. Í auglýsingu skal m.a. tiltekið:
a) hvernig ráðningarkjör eru,
b) hvenær umsóknarfrestur rennur út,
c) hvert umsóknin skuli send,
d) að veitt sé heimild til að afla sakarvottorðs.
22. gr. Ráðningarsamningur starfsmanna skal vera skriflegur og með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti, en mánaðar uppsagnarfresti á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Sóknarnefnd í samráði við sóknarprest semur starfslýsingu fyrir þessa starfsmenn.
23. gr. Óheimilt er að ráða til starfa einstakling til að sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri, sem hlotið hefur refsidóm vegna brota á eftirtöldum lagabálkum: barnaverndarlögum, nr. 80/2002 almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, þ.e.: kynferðisbrot skv. 22. kafla, önnur ofbeldisbrot skv. 23. kafla, þó einungis refsidóma síðustu fimm ár vegna brots skv. 217. gr. um minniháttar líkamsmeiðingar, brot gegn frjálsræði manna skv. 24. kafla fíkniefnabrot skv. 173. gr. a., lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, þ.e. refsidóm síðustu fimm ár.
Ofangreint ákvæði nær einnig til sjálfboðaliða sem starfa með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri hjá sókn. Sóknarnefnd skal óska eftir samþykki allra, sem sækjast eftir starfi, launuðu, sjálfboðnu eða í verktöku, til þess að fá aðgang að upplýsingum úr sakaskrá viðkomandi hvað varðar ofangreindar tegundir brota. Synji umsækjandi um heimild er óheimilt að ráða hann til starfa.
Hafa ber hliðsjón af starfsreglum um djákna og organista við gerð ráðningarsamninga við þá og starfslýsinga, svo og samþykktum stefnumálum kirkjuþings sem varða starfssvið þeirra sérstaklega.
24. gr. Ef upp kemur ágreiningur um störf starfsmanna innan sóknar, sem ekki tekst að leysa þar á vettvangi, skal vísa málinu til prófasts.
VI. KAFLI. Gildistaka.
25. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru með heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi 1. janúar 2022. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um sóknarnefndir nr. 1111/2011, með síðari breytingum.
Starfsreglur um úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar nr. 36/2022-2023.
I. kafli. Hlutverk, aðild og skipan úrskurðarnefndar.
Hlutverk.
1. gr. Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar skal úrskurða í málum vegna ágreinings á kirkjulegum vettvangi eða þegar starfsmaður eða trúnaðarmaður þjóðkirkjunnar er borinn sökum um agabrot eða annað brot í starfi.
Með ágreiningi á kirkjulegum vettvangi er átt við ágreining sem varðar með einhverjum hætti kirkjulegt starf eða starfsemi á vegum kirkjunnar.
Úrskurðarnefndin fjallar ekki um málefni sem varða ráðningar og starfslok starfsfólks þjóðkirkjunnar.
Úrskurðarnefndin er sjálfstæð í störfum sínum.
Aðild.
2. gr. Allir, sem hagsmuna eiga að gæta, geta borið mál undir úrskurðarnefnd.
Nefndarskipan.
3. gr. Úrskurðarnefnd skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara til fjögurra ára í senn. Einn nefndarmaður skal skipaður af biskupi Íslands og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Tveir nefndarmenn skulu kosnir af kirkjuþingi. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Formaður og varaformaður skulu uppfylla hæfisskilyrði héraðsdómara en einn nefndarmanna skal hafa þekkingu og reynslu af málefnum þjóðkirkjunnar. Sama gildi um varamenn þeirra. Nefndarmenn skulu ekki vera fastráðnir starfsmenn þjóðkirkjunnar.
Úrskurðarnefnd er heimilt að fara þess á leit að kvaddir verði til tveir sérfróðir menn við meðferð einstakra mála. Skal annar þeirra tilnefndur af nefndinni en hinn af biskupi Íslands.
Þóknun nefndarmanna er greidd samkvæmt ákvörðun kjaranefndar þjóðkirkjunnar.
II. kafli. Málsmeðferð.
Upphaf máls.
4. gr. Erindi til úrskurðarnefndar skal berast nefndinni innan tveggja ára frá því að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina. Úrskurðarnefnd getur vikið frá ofangreindum tímafresti telji nefndin rök standa til þess og skal þá m.a litið til þess hvort málshefjandi hafi fylgt máli eftir.
Beiðni til úrskurðarnefndar um úrlausn skal vera undirrituð og málsmeðferð fyrir nefndinni skal að jafnaði vera skrifleg. Í beiðni skal koma fram hver sé málshefjandi, málsatvik, kröfur málshefjanda og röksemdir fyrir beiðni. Erindi málshefjanda skulu fylgja sönnunargögn þau sem á er byggt. Úrskurðarnefndinni er heimilt að ákveða að beiðni um úrlausn skuli skilað á sérstöku eyðublaði sem nefndin lætur útbúa.
Nú berst úrskurðarnefndinni beiðni um úrlausn innan frests sbr. 1. mgr. og metur nefndin þá annars vegar hvort úrlausnarefnið heyri undir hana, sbr. 1. gr. og hins vegar hvort málshefjandi teljist eiga hagsmuna að gæta, sbr. 2. gr.
Telji nefndin að aðild máls og úrlausnarefnið uppfylli skilyrði starfsreglna þessara tekur hún málið til meðferðar og tilkynnir öllum hlutaðeigandi þegar í stað um þá ákvörðun sína, en ella vísar hún málinu frá.
Formaður, eftir atvikum varaformaður, stýrir störfum nefndarinnar við umfjöllun máls.
Um málsmeðferðina gilda stjórnsýslulög, nr. 37/1993, eftir því sem við á.
Leyfi frá starfi.
5. gr. Varði úrlausnarefni meint agabrot prests, djákna eða annars starfsmanns þjóðkirkjunnar eða trúnaðarmanns skal úrskurðarnefndin, eftir að tekin hefur verið ákvörðun skv. 3. mgr. 4. gr., meta hvort rétt sé að nefndin leggi til að hlutaðeigandi verði leystur frá störfum meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni.
Frestir.
6. gr. Gagnaðila skal veittur frestur til þess að tjá sig skriflega um gögn þau og greinargerð sem málshefjandi hefur lagt fram. Frestur gagnaðila skal að jafnaði ekki vera lengri en tvær vikur, en veita má þó lengri frest þegar sérstaklega stendur á. Gefa skal aðilum kost á að leggja fram viðbótargreinargerðir eða athugasemdir og skal frestur til þess að jafnaði vera tvær vikur.
Nefndin getur krafið aðila um frekari gögn eða aflað þeirra.
Sinni málshefjandi ekki tilmælum nefndarinnar um framlagningu gagna er henni heimilt að vísa máli frá.
Ef gagnaðili sinnir ekki tilmælum nefndarinnar um skriflega umsögn eða framlagningu annarra gagna getur nefndin byggt úrlausn máls á á framlögðum gögnum og öðrum upplýsingum sem hún sjálf aflar um málið.
Úrskurðarnefnd getur kallað aðila fyrir sig til skýrslugjafar eða munnlegs málflutnings. Nefndinni er heimilt hvenær sem er við meðferð máls að leita sátta með aðilum.
Gagnaöflun.
7. gr. Nefndin skal í upphafi málsmeðferðar og einnig síðar, ef ástæða þykir til, óska eftir því að fá send tilgreind eða ótilgreind gögn sem kunna að vera til upplýsingar um málsatvik. Strax og slík gögn berast nefndinni skulu afrit þeirra afhent málsaðilum. Nefndin getur óskað eftir í bréfi þar sem óskað er afrits gagna samkvæmt þessari málsgrein að gögn, sem henni eru afhent í trúnaði, séu auðkennd sérstaklega.
Starfsmönnum og trúnaðarmönnum kirkjunnar, launuðum jafnt sem ólaunuðum, er skylt að láta úrskurðarnefnd í té öll gögn máls, svo og þær upplýsingar og skýringar sem hún telur nauðsynlegar vegna úrlausnar máls.
Skýrslutaka.
8. gr. Nefndin getur óskað eftir því að tilteknir menn komi til viðtals við hana til þess að tjá sig um málefni sem tengjast úrlausnarefninu en gefa skal málsaðilum kost á að vera viðstaddir á slíkum fundum.
Slíkar skýrslur er heimilt að bóka eða hljóðrita eftir því sem henta þykir og skal gera þeim sem skýrslu gefur grein fyrir því hvernig upplýsingar, sem hann veitir, eru skráðar.
9. gr. Nú neitar aðili að koma til viðtals hjá nefndinni eða neitar að afhenda skjal eða láta uppi efni þess og nefndin telur útilokað að útkljá málefni það, sem til meðferðar er, án þess að skýrsla þeirra eða upplýsingar um efni skjals liggi fyrir, er þá nefndinni heimilt, ef hún telur nauðsyn bera til, að afla sönnunargagna eftir því sem heimilt er skv. 2. mgr. 77. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
Sé grunur um refsiverða háttsemi getur nefndin hlutast til um að fram fari opinber rannsókn á þeirri háttsemi.
III. kafli. Úrskurður.
Gagnaöflun lokið.
10. gr. Þegar aðilar hafa skilað þeim greinargerðum og gögnum, sem þeir eiga kost á, og tjáð sig munnlega um málið, hafi það verið ákveðið, tekur úrskurðarnefndin málið til úrskurðar.
Nefndin fjallar um málið á fundum eins og þurfa þykir og til að komast að niðurstöðu.
Nefndin skal semja skriflegan og rökstuddan úrskurð um úrlausnarefnið.
Úrskurður.
11. gr. Úrskurðarnefndin skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem kostur er og að jafnaði innan fjögurra vikna frá því að gagnaöflun er lokið. Dragist málsmeðferð fyrir nefndinni lengur en ákvæði þessi gera ráð fyrir skal sá dráttur skýrður í áliti nefndarinnar. Tilkynna skal málsaðilum um dráttinn.
Þegar nefndarmenn eru ekki sammála ræður meiri hluti niðurstöðu máls en sá sem er í minni hluta skilar séráliti.
Þegar úrskurðarnefnd hefur lokið samningu úrskurðar síns skal hún senda hann til málsaðila.
Úrskurðir úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar eru endanlegir og bindandi innan þjóðkirkjunnar.
Úrræði úrskurðarnefndar.
12. gr. Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar getur lagt til eftirfarandi úrræði gagnvart prestum, djáknum og öðrum starfs- eða trúnaðarmönnum þjóðkirkjunnar vegna agabrota.
a. mælt fyrir um að veitt verði tiltal eða áminning, eftir atvikum með skilyrðum eða leiðbeiningum eða nánari fyrirmælum um rétta starfshegðun,
b. mælt fyrir um flutning í starfi,
c. mælt fyrir um að viðkomandi skuli ekki gegna núverandi starfi eða sambærilegu starfi á kirkjulegum vettvangi um ákveðið tímabil eða til frambúðar.
Framfylgd úrskurða.
13. gr. Vinnuveitandi skal framfylgja úrskurðum úrskurðarnefndar og fylgjast jafnframt með því að farið sé eftir úrskurðum er snerta starfsemi eða framferði starfs- eða trúnaðarmanna.
Birting úrskurða.
14. gr. Úrskurði nefndarinnar skal birta á vef þjóðkirkjunnar. Heimilt er að undanskilja úrskurði birtingu ef sérstök vandkvæði eru á að tryggja persónuvernd.
IV. kafli. Ýmis ákvæði.
Vernd persónuupplýsinga og þagnarskylda.
15. gr. Um vinnslu nefndarmanna, starfsmanna og ráðgjafa nefndarinnar á persónuupplýsingum fer samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem fram kemur í gögnum sem nefndinni eru látin í té og sem leynt á að fara. Sama gildir um þá sem hún kann að kveðja sér til aðstoðar. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
Kostnaður.
16. gr. Málsaðilar bera sjálfir kostnað sinn vegna meðferðar máls fyrir úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar. Þjóðkirkjan greiðir kostnað af starfi úrskurðarnefndar auk þóknunar nefndarmanna. Heimilt er þó nefndinni að ákveða að annar eða báðir málsaðilar greiði kostnað af starfi nefndarinnar.
Verklagsreglur.
17. gr. Úrskurðarnefnd er heimilt að setja sér verklagsreglur þar sem nánar verður kveðið á um störf nefndarinnar. Þær skulu staðfestar af kirkjuþingi.
Gildistaka.
18. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi við birtingu.
Ákvæði til bráðabirgða.
Við gildistöku starfsreglna þessara skal málum, sem tekin hafa verið til efnismeðferðar eða ákvörðunar um frávísun hjá úrskurðar- eða áfrýjunarnefndum kirkjunnar lokið fyrir þeim nefndum.
Frá sama tíma falla brott starfsreglur um úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd nr. 730/1998, með síðari breytingum.
Gildistaka 25. október 2022.
Starfsreglur um vígða þjóna sem ráðnir eru á vegum stofnana og félagasamtaka
nr. 37/2022-2023, sbr. starfsrgl. nr. 9/2024-2025.
1. gr. Starfsreglur þessar gilda um þá vígðu þjóna þjóðkirkjunnar sem ráðnir eru á vegum stofnana og félagasamtaka (vinnuveitanda), með samþykki biskups.
2. gr. Einungis þeir sem uppfylla skilyrði starfsreglna um ráðningu til vígðrar þjónustu innan þjóðkirkjunnar geta gegnt starfi samkvæmt 1. gr.
Jafnframt er skilyrði að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur milli vinnuveitanda og vígðs þjóns og verður samningur að bera með sér þau atriði sem greinir í reglum þessum.
Starfssvið hlutaðeigandi starfsmanns verður ávallt að vera í eðlilegu og tilhlýðilegu samhengi við þau réttindi sem biskup veitir starfsmanninum samkvæmt reglum þessum með samþykki sínu.
3. gr. Nú óskar vinnuveitandi að ráða guðfræðing eða vígðan þjón til starfa, sem vígðan þjón þjóðkirkjunnar og biskup samþykkir þá málaleitan. Skulu þeir hafa samráð og samvinnu um undirbúning ráðningarinnar og önnur atriði sem nauðsynlegt og eðlilegt er að hafa samráð og samvinnu um vegna starfsins. Drög að ráðningarsamningi skulu kynnt biskupi.
Í ráðningarsamningi skal koma fram að auk þeirra skyldna sem vígður þjónn hefur gagnvart vinnuveitanda sínum, hafi hann jafnframt skyldum að gegna gagnvart þjóðkirkjunni sem nánar sé greint frá í erindisbréfi sem biskup setji honum, sbr. og 5. gr. starfsreglna þessara. Jafnframt skal koma fram að vinnuveitanda sé skylt að tilkynna biskupi um starfslok starfsmannsins.
Drög að erindisbréfi biskups vegna starfans skulu kynnt vinnuveitanda. Í erindisbréfi skal greint frá kirkjuaga, tilsjón kirkjulegra stjórnvalda í kirkjulegum efnum og öðrum skyldum gagnvart kirkjunni sem starfsmaður undirgengst sem vígður þjónn þjóðkirkjunnar í starfi hjá hlutaðeigandi vinnuveitanda. Einnig skal koma fram að starfsmanni sé óheimilt að semja við vinnuveitanda um starfsskyldur, sem ekki eru í samræmi við 3. mgr. 2. gr., nema biskup heimili.
4. gr. Sérstaklega tilkvödd valnefnd veitir umsögn um þá sem sækja um starf vígðs þjóns. Nefndin er skipuð þremur mönnum og þremur til vara. Vinnuveitandi skipar einn og er sá jafnframt formaður. Biskup skipar einn. Vinnuveitandi og biskup hafa samráð um skipun þriðja nefndarmannsins og skal þess gætt að hann komi úr röðum fagsamtaka á viðkomandi starfssviði.
Valnefndin metur hæfi allra umsækjenda til að gegna starfi vígðs þjóns. Skal valnefnd m.a. líta til menntunar þeirra, starfsaldurs, starfsreynslu og starfsferils. Sé áskilin sérstök þekking eða reynsla eða starf er að öðru leyti mjög sérhæft, skal meta umsækjendur eftir því hvernig þeir uppfylla þau sérstöku skilyrði. Valnefnd aflar þeirra gagna og upplýsinga sem hún telur að öðru leyti þörf og gerir skriflega umsögn um hæfni allra umsækjenda, þ.m.t. hvort þeir teljist hæfir til starfans. Nefndin skal raða umsækjendum eftir hæfni þeirra. Telji nefndin einhverja umsækjendur jafnhæfa skal þeim umsækjendum skipað jafnfætis. Ef umsækjandi er einn skal nefndin eigi að síður gefa umsögn um hann samkvæmt framanskráðu. Valnefnd setur sér nánari vinnureglur.
5. gr. Vinnuveitandi ákveður hver ráðinn skuli til starfans, en getur óskað ráðgjafar biskups í því sambandi. Vinnuveitandi tilkynnir biskupi hver ráðinn hafi verið.
6. gr. Óski vinnuveitandi að breyta ráðningarsamningi skal sú breyting háð samþykki biskups, ef hún getur varðað að einhverju leyti starfssvið starfsmanns sem vígðs þjóns þjóðkirkjunnar, sbr. 2. gr. Skal getið um þetta skilyrði í ráðningarsamningi.
Óski biskup að breyta erindisbréfi skal sú breyting háð samþykki vinnuveitanda ef hún hefur áhrif á starf vígðs þjóns með þeim hætti að hagsmunum vinnuveitanda sé raskað.
7. gr. Brjóti starfsmaður gegn ákvæðum erindisbréfs biskups skal biskup beita lögmæltum úrræðum.
Biskup getur afturkallað erindisbréf með þeim áhrifum að hlutaðeigandi starfsmaður telst ekki lengur til vígðra þjóna þjóðkirkjunnar. Um slíka afturköllun gilda sömu skilyrði og reglur og þegar manni er veitt lausn frá prestsembætti, eins og við getur átt.
Biskup skal jafnan kynna vinnuveitanda ætlaðar ávirðingar og hafa samráð við hann, áður en gripið er til aðgerða samkvæmt framanskráðu.
Telji vinnuveitandi nauðsyn krefja að segja starfsmanni upp vegna tiltekinna ávirðinga starfsmannsins skal kynna biskupi fyrirhugaða uppsögn og hafa samráð við hann.
8. gr. Erindisbréf telst sjálfkrafa fallið niður við lok ráðningarsambands vígðs þjóns og vinnuveitanda og telst hlutaðeigandi starfsmaður eftir það ekki lengur vígður þjónn þjóðkirkjunnar.
9. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi við birtingu.
Frá sama tíma falla brott starfsreglur um sérþjónustupresta sem ráðnir eru á vegum stofnana og félagasamtaka nr. 824/1999, með síðari breytingum.
Gildistaka 24. október 2022.
Starfsreglur um vígslubiskupa nr. 8/2024 - 2025.
1. gr. Biskupsdæmi Íslands skiptist í tvö vígslubiskupsumdæmi, Skálholtsumdæmi og Hólaumdæmi, sbr. starfsreglur um skipulag kirkjunnar í héraði.
2. gr. Vígslubiskupar gegna áfram prestsþjónustu á þeim kjörum sem um hana gilda. Nú lætur vígslubiskup af prestsembætti eða hlýtur prestsstarf utan umdæmis síns. Skal þá kjósa nýjan vígslubiskup. Vígslubiskupar skulu sitja í Skálholti og Hólum.
Setja skal nýjum vígslubiskupum erindisbréf.
3. gr. Um kjör vígslubiskupa fer samkvæmt starfsreglum um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa eftir því sem við getur átt.
4. gr. Sá vígslubiskup sá sem eldri er að biskupsvígslu vígir biskup Íslands er svo stendur á að fráfarandi biskup getur eigi gert það.
5. gr. Vígslubiskup sá sem eldri er að biskupsvígslu gegnir störfum biskups Íslands í forföllum hans, að því marki sem nauðsyn krefur.
6. gr. Vígslubiskupar vígja presta, djákna, kirkjur og kapellur og framkvæma önnur biskupsverk hvor í sínu umdæmi í forföllum biskups Íslands eða þegar biskup felur þeim það hlutverk.
7. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru með heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi við birtingu. Við gildistöku starfsreglnanna falla úr gildi starfsreglur um vígslubiskupa nr. 33/2022 - 2023.
Gildistaka 15. mars 2025.
Ákvæði til bráðabirgða I.
Núverandi vígslubiskupar skulu áfram gegna skyldum vígslubiskupa samkvæmt gildandi starfsreglum um vígslubiskupa nr. 33/2022-2023, til 70 ára aldurs. Áður en skipunartími hvors um sig rennur út skal bjóða þeim án auglýsingar starf sóknarprests innan umdæmis síns. Eftir það gegna þeir skyldum sínum á grundvelli þessara reglna.
Starfsreglur um vígslubiskupa nr. 33/2022-2023. Fallnar brott frá og með 15. mars 2025.
Ákvæði starfsreglnanna gilda þó tímabundið, sbr. ákvæði til bráðabirgða hér að ofan
1. gr. Ísland er eitt biskupsdæmi og skiptist í tvö vígslubiskupsumdæmi, Skálholtsumdæmi og Hólaumdæmi. Um afmörkun umdæmanna er mælt fyrir í starfsreglum um skipulag kirkjunnar í héraði.
Vígslubiskupar skulu hvor um sig hafa aðsetur í umdæmum sínum á hinum fornu stólum í Skálholti og á Hólum.
2. gr. Vígslubiskupar starfa í umboði biskups Íslands og eftir þeirri kirkjulegu skipan sem segir í starfsreglum og samþykktum kirkjuþings. Þeir eru biskupi til aðstoðar um kirkjuleg málefni og annast þau biskupsverk er biskup felur þeim svo sem að vígja presta, djákna, kirkjur og kapellur.
Vígslubiskupar hafa tilsjón með kristnihaldi í umdæmum sínum, veita andlega leiðsögn og efla kirkjulíf. Þeir hafa tilsjón með að stefnumörkun kirkjunnar sé framfylgt hvað varðar helgihald, boðun, fræðslu og kærleiksþjónustu kirkjunnar í umdæmum sínum.
Vígslubiskupar vísitera prestaköll og söfnuði í umdæmum sínum eftir áætlun biskupafundar. Vísitasíur vígslubiskupa beinast einkum að innri þáttum kirkjulífs, hinni vígðu þjónustu, helgihaldi, boðun, sálgæslu og safnaðarstarfi.
3. gr. Vígslubiskupar hafa tilsjón með starfsmannahaldi einkum hvað varðar handleiðslu, símenntun og sálgæslu presta og starfsmanna kirkjunnar í umdæminu og beitir sér í þeim efnum ef tilefni er til.
4. gr. Vígslubiskupar skulu annast sáttaumleitanir í umdæmi sínu þegar trúnaðarmönnum eða starfsmönnum kirkjunnar, launuðum jafnt og ólaunuðum, vígðum jafnt og leikum, hefur ekki tekist að jafna ágreining sín á milli og sættir hafa ekki tekist í meðförum prófasts eða hann sagt sig frá málinu.
Vígslubiskupum er heimilt að kalla til aðstoðar fagfólk á sviði sem ágreiningsmál varðar. Skila skal biskupi Íslands skriflegu áliti ef sættir takast ekki.
5. gr. Vígslubiskupar styðja við starfsemi biskupsstólanna eftir því umboði sem kirkjuþing veitir. Þeir eru biskupi og kirkjuþingi til stuðnings og samráðs í málefnum biskupsstólanna svo og öðrum kirkjulegum stjórnvöldum og koma fram í nafni staðanna og umdæmanna eftir því sem við á.
Vígslubiskupar bera ábyrgð á helgihaldi dómkirkna sinna í samstarfi við viðkomandi prest.
6. gr. Vígslubiskupar veitir úrlausn í málum sem prófastar vísar til þeirra.
7. gr. Vígslubiskup sem eldri er að biskupsvígslu, er staðgengill biskups Íslands í forföllum og leyfum biskups. Vígslubiskup, sem yngri er að biskupsvígslu, er annar staðgengill.
8. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi við birtingu.
Frá sama tíma falla brott starfsreglur um vígslubiskupa nr. 968/2016, með síðari breytingum.
Gildistaka 24. október 2022.
Starfsreglur um þingsköp kirkjuþings,
nr. 11/2021-2022, sbr. starfsrgl. nr. 13/2022-2023, nr. 45/2022-2023, nr. 41/2023-2024,
nr. 5/2024-2025 og nr. 21/2024-2025.
I. KAFLI.
Þingfundir.
1. gr. Forseti kirkjuþings boðar kirkjuþing árlega saman til fundar á haustmánuðum með eigi skemmri fyrirvara en eins mánaðar.
Kirkjuþing starfar allt að tveimur vikum í senn. Heimilt er að gera allt að sex mánaða hlé á þingfundum milli umræðna eða áður en síðari umræðu um þingmál lýkur.
Óski þriðjungur kjörinna kirkjuþingsfulltrúa eftir er forseta skylt að kalla aukakirkjuþing saman án ástæðulausrar tafar. Þá er forseta heimilt að boða til aukakirkjuþings þegar brýna nauðsyn ber til.
II. KAFLI.
Sérstakt hæfi.
2. gr. Hæfisreglur þessar taka til allra sem sitja á kirkjuþingi og skiptir þá ekki máli hvort þeir eiga atkvæðisrétt eða hafa málfrelsi. Þær taka einnig til allra sem sæti taka í nefndum, stjórnum eða ráðum sem kirkjuþing kýs.
3. gr. Hver sá sem situr á kirkjuþingi má hvorki taka þátt í umfjöllun né atkvæðagreiðslu um mál sem varðar hann sérstaklega persónulega eða fjárhagslega.
Mál telst varða sérstaka fjárhagslega hagsmuni þingfulltrúa sem eru vígðir þjónar þegar fjallað er um setningu reglna um starfskostnað vegna prestsstarfa eða gjaldskrá vegna prestsþjónustu. Hið sama gildir um þá þingfulltrúa sem eru prestar og sitja á prestssetri þegar fjallað er um það hvar prestssetur skulu lögð til og hvar þau skulu lögð niður, um leigugjöld prestssetra svo og hlunnindi og önnur fjárhagsleg réttindi er varðar slíkar eignir kirkjunnar. Þegar fjallað er um skipulagsbreytingar í tilteknu prófastsdæmi sem áhrif hafa á sérstaka hagsmuni presta, s.s. ákvörðun um hámarksfjölda starfandi presta, eru starfandi prestar í því prófastsdæmi vanhæfir sem þingfulltrúar til að taka þátt í meðferð málsins. Hið sama gildir um djákna sem þar starfa. Það varðar einnig vanhæfi ef þingfulltrúi
1. er fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila sem á þeirra hagsmuna að gæta sem um getur í 1. mgr.,
2. er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar manns sem á þeirra hagsmuna að gæta sem um getur í 1. mgr.,
3. ef mál varðar sérstaklega persónulega eða fjárhagslega hagsmuni næsta yfirmann hans,
4. ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.
Eigi er þó um vanhæfi að ræða ef þeir hagsmunir, sem málið snýst um, eru það smávægilegir eða eðli málsins er með þeim hætti að hvorki er talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á umfjöllun né atkvæðagreiðslu.
Það leiðir ekki til vanhæfis til afgreiðslu máls þegar mál varðar almenna þjóðkirkjulega hagsmuni þegar þeir sem skráðir eru í þjóðkirkjuna verða taldir eiga svipaðra hagsmuna að gæta.
Þegar kirkjuþing velur fulltrúa úr sínum röðum í nefndir eða störf á vegum þingsins eru þeir fulltrúar ekki vanhæfir sem boðið hafa sig fram eða stungið hefur verið upp á við það kjör. Þessi undantekning á þó ekki við um kjör í kjaranefnd þjóðkirkjunnar. Þeir þingfulltrúar, sem eru félagsmenn þeirra stéttarfélaga sem nefndin kemur fram sem viðsemjandi við, skulu víkja sæti við meðferð máls og kjör í þá nefnd.
4. gr. Forseti kirkjuþings gætir þess að fulltrúi eða fulltrúar sem kunna að vera vanhæfir til meðferðar tiltekins þingmáls víki sæti.
Fulltrúi á kirkjuþingi skal án tafar vekja athygli þingforseta á ástæðum sem kunna að valda vanhæfi hans til umfjöllunar og atkvæðagreiðslu um tiltekinn dagskrárlið þingsins skv. reglum þessum.
Rísi ágreiningur um túlkun þessara reglna sker forseti þingsins úr.
5. gr. Kirkjuþingsfulltrúi sem er vanhæfur til meðferðar máls má ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða atkvæðagreiðslu um það. Hann skal víkja úr fundarsal og má ekki hafa frekari afskipti af málinu á þinginu eða við störf nefnda þess sem þingfulltrúi. Þegar afgreiðslu málsins er lokið skal þingfulltrúinn kallaður inn á þingið aftur til að taka þátt í umfjöllun og afgreiðslu annarra mála.
6. gr. Kirkjuþing er ályktunarhæft við afgreiðslu máls óháð þeim fjölda fulltrúa sem eftir eru þegar vanhæfir þingfulltrúar hafa vikið sæti.
III. KAFLI
Störf nýkjörins kirkjuþings.
7. gr. Forseti kirkjuþings er kjörinn úr röðum leikmanna til fjögurra ára í senn á fyrsta kirkjuþingi að afloknum kirkjuþingskosningum. Fráfarandi forseti stýrir forsetakjöri og gegnir að öðru leyti forsetastörfum þar til nýr forseti hefur verið kjörinn. Njóti fráfarandi forseta ekki við kemur varaforseti í hans stað.
8. gr. Á fyrsta fundi eftir kirkjuþingskjör skal kjósa kjörbréfanefnd til næstu fjögurra ára. Nefndin kýs sér formann og gerir hann þinginu grein fyrir áliti og tillögum hennar um rannsókn og afgreiðslu kjörbréfa. Fresta skal þingfundi meðan á athugun kjörbréfa stendur en að henni lokinni koma þau til afgreiðslu þingsins.
9. gr. Að lokinni afgreiðslu kjörbréfa kýs kirkjuþing skriflega og í óbundinni kosningu forseta og fyrsta og annan varaforseta úr röðum leikmanna. Saman mynda þeir forsætisnefnd kirkjuþings.
IV. KAFLI
Kosningar á kirkjuþingi og nefndir kirkjuþings.
10. gr. Fastanefndir kirkjuþings eru:
1. Kjörbréfanefnd, skipuð fimm kirkjuþingsfulltrúum. Nefndin rannsakar kjörbréf, kosningu þingfulltrúa og kjörgengi.
2. Löggjafarnefnd, skipuð níu kirkjuþingsfulltrúum. Nefndin fjallar um þau mál sem fram eru borin á þinginu og varða löggjöf og starfsreglur.
3. Fjárhagsnefnd, skipuð níu kirkjuþingsfulltrúum. Nefndin fær til umsagnar fjárhagsáætlun þjóðkirkjunnar og yfirlit reikninga kirkjulegra embætta, stofnana og sjóða kirkjunnar sem sæta endurskoðun. Þá koma til kasta nefndarinnar önnur mál fjárhagslegs eðlis sem fram eru borin á þinginu.
4. Allsherjarnefnd, skipuð tíu kirkjuþingsfulltrúum. Nefndin fær þær skýrslur sem skylt er að leggja fram á kirkjuþingi til umfjöllunar og öll önnur þingmál sem falla utan verksviðs hinna nefndanna.
Forsætisnefnd ber ábyrgð á skipan fastanefnda.
11. gr. Fastanefndir kirkjuþings eru kjörnar í upphafi hvers reglulegs kirkjuþings, sbr. þó 8. gr., og gildir kosningin uns kosið hefur verið til nefndanna að nýju. Formenn og varaformenn nefndanna skulu kosnir sérstaklega á þingfundi. Forseti kirkjuþings getur kallað saman fastanefndir kirkjuþings milli þinga ef nauðsyn ber til. Þá hefur hann formenn nefndanna sér til samráðs eftir því sem honum þykir þurfa.
12. gr. Kirkjuþing kýs stjórn Þjóðkirkjunnar í samræmi við gildandi starfsreglur um kirkjuþing hverju sinni. Stjórnin er kosin í óbundinni kosningu.
Kirkjuþing kýs, samkvæmt gildandi starfsreglum eða öðrum gildandi heimildum hverju sinni, kjörstjórn og yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar.
Nýkjörið kirkjuþing kýs þrjá fulltrúa og jafnmarga til vara til fjögurra ára í launanefnd Þjóðkirkjunnar, stjórn Skálholts og í Strandarkirkjunefnd. Kirkjuþing skal kjósa formann sérstaklega. Nefndirnar og stjórnin ákveða hver skuli vera fyrsti og annar varaformaður er komi úr röðum aðalmanna. Þriðji varaformaður er kosinn sérstaklega á kirkjuþingi úr röðum varamanna. Kosning gildir frá 1. júlí árið eftir kjör til kirkjuþings. Nýkjörið kirkjuþing kýs til annarra þeirra nefnda og trúnaðarstarfa sem kveðið er á um í starfsreglum, samþykktum eða ályktunum frá kirkjuþingi svo og í lögum. Þá getur kirkjuþing jafnan kosið nefndir til að fjalla um sérstök mál. Nefndir samkvæmt þessari málsgrein skulu árlega gera kirkjuþingi grein fyrir störfum sínum.
Forsætisnefnd gerir tillögur um fulltrúa til þeirra trúnaðarstarfa sem kosið skal til á kirkjuþingi. Það gildir þó ekki um óbundnar kosningar og ekki þegar gert er ráð fyrir tilnefningum til trúnaðarstarfa. Forsætisnefnd skal við tillögugerð sína gæta þess að fylgt sé jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar. Nefndin skal leggja tillögur sínar fram með hæfilegum fyrirvara og gæta þess að tilnefndur fulltrúi sé tilbúinn til að taka starfann að sér.
Breytingartillögur við tillögur forsætisnefndar skulu hafa borist nefndinni eigi síðar en sólarhring eftir framlagningu þeirra. Þetta á þó ekki við um kjör til fastanefnda þingsins.
Telji forsætisnefnd að breytingartillaga kunni að leiða til niðurstöðu sem andstæð er jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar skal forsætisnefnd skýra kirkjuþingi frá þeirri niðurstöðu sinni áður en gengið er til atkvæðagreiðslu.
Við tilnefningar og kosningar til nefnda og annarra trúnaðarstarfa skal gæta ákvæða laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnframt skal þess gætt að hafa hliðsjón af jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar svo og þeirra jafnréttisviðmiða sem kirkjan vill byggja á, svo sem jafnræðis kynslóða og þátttöku fulltrúa frá öllum landshlutum.
V. KAFLI
Þingmál.
13. gr. Þingmál skulu almennt hafa borist forseta kirkjuþings fjórum vikum fyrir upphaf þings. Þó er nægilegt að skýrslur stjórnar Þjóðkirkjunnar og um fjármál þjóðkirkjunnar berist forseta þremur vikum fyrir upphaf þings. Ef kirkjuþingi er frestað um meira en einn mánuð er einnig heimilt að leggja fram ný þingmál fjórum vikum fyrir þann tíma að kirkjuþing, sem frestað hefur verið samkvæmt heimild í 1. gr., kemur saman að nýju. Einungis verða lögð fram þingmál skv. þessari málgrein sem eiga rót að rekja til samþykkta á fundum kirkjuþings þess sem frestað var og telja má í rökréttu og eðlilegu samhengi við samþykktir þess þings. Að öðru leyti fer um framlagningu, kynningu og málsmeðferð samkvæmt því er greinir í starfsreglum þessum um þingmál kirkjuþings. Forsætisnefnd getur veitt undanþágu frá greindum tímamörkum ef sérstök rök mæla með því. Forsætisnefnd metur hvort mál er þingtækt. Skal sérstaklega litið til þess hvort mál eigi undir valdsvið kirkjuþings og eins hvort mál hafi fengið umfjöllun eða úrlausn biskups eða annarra aðila sem mál kann að varða. Þá metur forsætisnefnd hvort mál hafi fengið nægilega kynningu og samráð innan kirkjunnar eða fyrir öðrum sem málið kann að varða, þannig að um það megi fjalla. Forsætisnefnd gætir þess að kostnaðaráætlun máls sé raunhæf. Forsætisnefnd gefur kost á því að úr annmörkum sé bætt, ef við á, en vísar ella máli frá, ef það uppfyllir ekki framangreind skilyrði.
14. gr. Kirkjuþingsfulltrúar geta boðað til sérstaks þingmálafundar í kjördæmum sínum til kynningar á þingmálum sem þeir hyggjast flytja, áður en málið er sent forseta. Aðrir sem hafa tillögurétt og málfrelsi á kirkjuþingi, skulu eiga þess kost að mæta á þá fundi og kynna mál ef þeir óska þess. Þjóðkirkjan greiðir hóflegan kostnað við fundaraðstöðu.
Sérhvert þingmál skal vera til kynningar í opinni samráðsgátt á vef kirkjunnar í að minnsta kosti tvær vikur eftir að það hefur borist forseta. Forseti getur lengt þann frest teljist mál varða mikla hagsmuni, mál er flókið eða umfangsmikið. Í samráðsgáttinni skal gefinn kostur á framlagningu umsagna sem sé að jafnaði birt. Við lok kynningar er flutningsmönnum heimilt að gera breytingar á þingmáli innan viku og senda forseta þá nýtt eintak. Heimilt er forsætisnefnd að samþykkja að birt séu í samráðsgátt áform um þingmál til kynningar samkvæmt framanskráðu. Þegar þingmál eru komin í endanlegt horf skulu þau svo skjótt sem auðið er birt á opnum vef kirkjunnar.
15. gr. Tillögur um nýjar starfsreglur eða breytingar á eldri starfsreglum skulu samdar með lagasniði. Sérhverri tillögu skal fylgja greinargerð um tilgang þess yfirleitt og skýringar á helstu ákvæðum.
Ef efni þingsmáls getur að einhverju leyti varðað jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar skal þess getið í greinargerð og jafnframt hvernig tryggt skuli að jafnréttisstefnunni verði fylgt í hvívetna. Forsætisnefnd fer yfir hvert mál með hliðsjón af því.
16. gr. Tillögur til þingsályktunar skulu vera í ályktunarformi. Þeim skal fylgja greinargerð með skýringu á efni þeirra og tilgangi.
17. gr. Forsætisnefnd getur synjað framlagningu þingmáls ef hún metur það ekki tækt til þinglegrar meðferðar. Rétt er þó að gefa flutningsmönnum áður frest til úrbóta.
18. gr. Við sérstakar aðstæður getur forsætisnefnd heimilað framlagningu nýs þingmáls á þinginu. Málið verður þá ekki tekið fyrir fyrr en næsta dag. Á hverju þingmáli skal auk flytjenda tilgreindur ákveðinn framsögumaður.
19. gr. Ef samþykkt máls felur í sér kostnað skal áætlun um slík útgjöld og skýringar við einstaka liði fylgja greinargerð. Greina skal kostnað í stofnkostnað og árlegan rekstrarkostnað ef við á. Ef samþykkt máls felur í sér tekjur skal einnig gerð grein fyrir þeim. Að jafnaði skal gerð tillaga um hvaðan fjármunir eigi að koma til greiðslu á kostnaði og hvert tekjur skuli renna. Umsögn rekstrarstofu Þjóðkirkjunnar um áætlunina skal fylgja með málinu.
20. gr. Tvær umræður skulu fara fram um hvert þingmál með að minnsta kosti einnar nætur millibili. Fastanefndir kirkjuþings fá þingmál til meðferðar milli umræðna. Skylt er að leggja fram í þingnefndum hverjar þær upplýsingar sem óskað er eftir á þingfundi eða í nefndum, nema lög mæli á annan veg.
Sé meiri hluti fastanefndar flutningsmenn máls, eða öll nefndin, skal að jafnaði vísa málinu til annarrar fastanefndar.
Heimilt er forseta kirkjuþings, mæli enginn kirkjuþingsfulltrúi gegn því, að ákveða að þingmál megi afgreiða með einni umræðu og án umfjöllunar fastanefndar kirkjuþings. Skal forseti kynna þá tillögu að ákvörðun svo skjótt sem kostur er og áður en umræða um þingmálið hefst. Heimilt er kirkjuþingsfulltrúum að óska umfjöllunar fastanefndar kirkjuþings og seinni umræðu um málið, allt fram til þess að forseti lýsir umræðu um mál lokið.
21. gr. Nefndarálit og breytingartillögur nefnda skal birt kirkjuþingsfulltrúum daginn áður en þingmál er tekið til síðari umræðu. Það skal undirritað af nefndarmönnum og framsögumaður tilgreindur. Nefndir geta skilað áliti meiri hluta og minni hluta. Leggi fastanefnd, meiri hluti eða minni hluti, til breytingar á þingmáli, sem gæti varðað jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar, skal gerð grein fyrir því í nefndaráliti hvernig jafnréttisstefnunni verði fylgt. Forsætisnefnd fer yfir þær breytingartillögur og kynnir kirkjuþingi, ef þurfa þykir, álit sitt á því sem betur mætti fara.
VI. KAFLI
Fundarsköp.
22. gr. Forseti kirkjuþings setur kirkjuþing að loknu helgihaldi og stýrir því í samráði við forsætisnefnd.
23 gr. Varaforsetar eru kjörnir á hverju reglulegu kirkjuþingi.
24. gr. Að loknu forsetakjöri fer fram kosning tveggja þingskrifara úr hópi kirkjuþingsfulltrúa og að svo búnu kosning fastanefnda þingsins.
25. gr. Skylt er kirkjuþingsfulltrúum að sækja alla þingfundi nema leyfi forseta komi til. Í forföllum kirkjuþingsfulltrúa skal ávallt kalla til varamann hans hafi tilkynning um forföll borist skriflega til forseta eigi síðar en einni viku fyrir boðaðan þingfund.
Heimilt er forsætisnefnd að ákveða að störf kirkjuþings fari fram með fjarfundarbúnaði þegar um sérstakar aðstæður er að ræða. Forseta kirkjuþings er heimilt að samþykkja að einstakir kirkjuþingsfulltrúar, sem þess óska, geti tekið þátt í störfum þingsins með notkun fjarfundarbúnaðar, kosið og greitt atkvæði með handauppréttingu eða rafrænum hætti.
26. gr. Forseti kirkjuþings stýrir umræðum og kosningum á þinginu. Kosningar skulu fara fram með handauppréttingu eða vera skriflegar sé þess óskað eða forseti ákveði það. Starfi kirkjuþing með notkun fjarfundarbúnaðar fara kosningarnar fram með rafrænum hætti. Varaforseti gegnir störfum forseta í forföllum hans. Ef forseti tekur þátt í umræðum, öðrum en þingstjórn gefur tilefni til, víkur hann sæti á meðan og varaforseti stýrir fundi.
27. gr. Forseti kirkjuþings ákveður fyrir lok hvers fundar dagskrá fyrir næsta fund og birtir á opnum vef kirkjunnar. Þar skal tilgreint hvenær næsti fundur verður.
Forseti getur ákveðið og tilkynnt þingheimi að til næsta fundar verði boðað með dagskrá sem þá verði komið til kirkjuþingsfulltrúa.
Forseti getur breytt röð á þeim málum sem eru á dagskrá og einnig tekið mál út af dagskrá. Forseti getur ákveðið, ef enginn kirkjuþingsfulltrúi andmælir því, að umræður fari fram um tvö eða fleiri dagskrármál í einu eftir því sem hentugt þykir.
Dagskrár, umræður og úrslit mála má birta jafnóðum í fjölmiðlum.
28. gr. Málfrelsi og tillögurétt á fundum kirkjuþings hafa auk kirkjuþingsfulltrúa, biskup Íslands, vígslubiskuparnir í Skálholti og á Hólum, framkvæmdastjóri Þjóðkirkjunnar, fulltrúi guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands og fulltrúi kirkjuþings unga fólksins. Biskup Íslands og forseti kirkjuþings geta falið fulltrúa sínum að gera grein fyrir þingmáli og taka þátt í umræðum fyrir sína hönd.
29. gr. Forseti kirkjuþings heldur mælendaskrá og gefur kirkjuþingsfulltrúum orðið í þeirri röð sem þeir æskja þess. Forseti getur þó vikið frá þeirri reglu ef hann telur ástæðu til vegna umræðunnar.
30. gr. Á hverju kirkjuþingi skal vera sérstakur þingfundur þar sem kirkjuþingsfulltrúum gefst kostur á að bera fram fyrirspurnir til biskups Íslands, vígslubiskupanna í Skálholti og á Hólum og stjórnar Þjóðkirkjunnar.
Fyrirspurnir skulu vera skriflegar og þeim svarað skriflega. Fyrirspyrjandi gerir grein fyrir fyrirspurninni í umræðu og sá sem fyrirspurn er beint til gerir jafnframt nánari grein fyrir svari sínu í umræðunni. Fyrirspurnum skal skilað til forseta með að minnsta kosti sólarhrings fyrirvara.
Á hverju kirkjuþingi má hafa sérstakan þingfund þar sem kirkjuþingsfulltrúum gefst kostur á að ræða mál sem ekki eru á dagskrá þingsins. Óskum kirkjuþingsfulltrúa um slíkar umræður skal komið til forseta með að minnsta kosti sólarhrings fyrirvara. Forsætisnefnd metur hvort við beiðnum skuli orðið.
Forseti getur ákveðið að einn þingfundur á hverju kirkjuþingi skuli helgaður tilteknu málefni án þess að sérstök ósk hafi komið fram um það frá kirkjuþingsfulltrúum.
31. gr. Flutningsmaður máls, en ekki nema einn þótt fleiri flytji, og framsögumenn nefnda mega við hverja umræðu um mál tala þrisvar, í fyrsta sinn í allt að þrjátíu mínútur, í annað sinn í allt að tíu mínútur og í þriðja sinn í allt að fimm mínútur.
Aðrir en framsögumenn mega tala tvisvar, í tíu mínútur í fyrsta sinn og fimm mínútur í annað sinn.
Fyrirspyrjandi, en ekki nema einn þótt fleiri séu flutningsmenn fyrirspurnar, og sá sem svarar fyrirspurn mega tala tvisvar, í fyrra skiptið í fimm mínútur og í síðara skiptið í þrjár mínútur.
Málshefjandi samkvæmt 4. mgr. 30. gr. má tala tvisvar, í fyrsta skiptið í fimmtán mínútur og síðara skiptið í fimm mínútur. Aðrir mega tala tvisvar, í tíu mínútur í fyrsta sinn og fimm mínútur í annað sinn.
Forseti getur heimilað lengri ræðutíma en að framan greinir ef hann telur þess þörf. Þá getur forseti takmarkað ræðutímann eða slitið umræðu með samþykki meirihluta kirkjuþingsfulltrúa. Á þingfundi samkvæmt 5. mgr. 30. gr. ákveður forseti tilhögun umræðunnar, þar á meðal lengd ræðutíma.
Fari umræður fram um tvö eða fleiri þingmál í einu, gilda ofangreindar reglur um ræðutíma eftir því sem við á.
32. gr. Ræðumenn á kirkjuþingi eiga ekki að ávarpa aðra en forseta þingsins. Forseta er þó rétt að ávarpa þingið í heild. Ræðumenn skulu halda sig við málefni það sem til umræðu er hverju sinni. Þegar flutningsmenn mæla fyrir málum eða framsögumenn fyrir ályktunum nefnda geta þeir vísað til prentaðrar greinargerðar eða nefndarálits en eiga ekki að lesa skjölin í heild. Ræðumenn skulu æskja leyfis forseta ef þeir hyggjast lesa upp aðfengið prentað mál.
33. gr. Við fyrri eða síðari umræðu er heimilt að bera fram tillögu um frávísun máls. Hún kemur til afgreiðslu við lok umræðunnar.
Í umræðum má leggja fram rökstudda dagskrártillögu þess efnis að umræðu um fyrirliggjandi mál skuli lokið og fyrir tekið næsta mál á dagskrá. Skulu atkvæði þá greidd um hana án frekari umræðna.
Flutningsmaður máls getur dregið mál til baka allt til þess að það er komið til endanlegrar atkvæðagreiðslu. Dragi flutningsmaður mál til baka getur annar kirkjuþingsfulltrúi eða sá sem situr á þinginu með málfrelsi og tillögurétt tekið það upp á því stigi og gerst flutningsmaður málsins.
34. gr. Kjörnir þingskrifarar halda gerðabók undir umsjón forseta. Þar skal geta framlagðra og fyrirtekinna mála ásamt meginatriða umræðna og úrslita mála. Heimilt er að ráða sérstakan ritara sem annast færslu fundargerða á ábyrgð hinna kjörnu þingskrifara. Fundargerð skal liggja frammi í upphafi fundar og geta kirkjuþingsfulltrúar gert athugasemdir við þingskrifara til næsta fundar. Þá verður fundargerð undirrituð af forseta og skrifurum. Hljóðrita skal umræður á kirkjuþingi og varðveita upptökur.
35. gr. Fundir kirkjuþings fara fram í heyranda hljóði nema þingið ákveði annað.
VII. KAFLI
Atkvæðagreiðsla.
36. gr. Atkvæðisrétt á kirkjuþingi hafa kjörnir kirkjuþingsfulltrúar einir. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Starfi kirkjuþing með notkun fjarfundarbúnaðar fara atkvæðagreiðslur fram með handauppréttingu eða rafrænum hætti. Afgreiðsla mála er því aðeins gild að 2/3 hlutar kirkjuþingsfulltrúa séu á fundi, sbr. þó 6. gr.
37. gr. Við lok fyrri umræðu um þingmál skulu atkvæði greidd um það hvort málinu verði vísað til síðari umræðu. Hljóti það ekki samþykki telst málið fellt. Ef samþykkt er að vísa máli til síðari umræðu skulu atkvæði greidd um það hvaða fastanefnd kirkjuþings fái það til umfjöllunar. Framsögumaður máls flytur tillögu um vísun til nefndar en hljóti hún ekki brautargengi leitar forseti annarra tillagna.
Við lok síðari umræðu eru atkvæði greidd um endanlega afgreiðslu máls. Heimilt er að fresta afgreiðslu máls úr þingnefnd og seinni umræðu til næsta kirkjuþings á eftir. Allar tillögur um málsmeðferð og úrslit mála skulu vera skriflegar.
38. gr. Atkvæðagreiðsla fer fram með handauppréttingu. Skylt er að viðhafa nafnakall eða skriflega atkvæðagreiðslu ef einhver kirkjuþingsfulltrúa óskar þess. Forseti getur endurtekið atkvæðagreiðslu ef hún þykir óglögg. Að atkvæðagreiðslu lokinni lýsir forseti úrslitum.
VIII. KAFLI
Afbrigði og breytingar á þingsköpum.
39. gr. Að tillögu forseta má bregða út af þingsköpum þessum ef 2/3 þeirra þingmanna er um það greiða atkvæði samþykkja.
40. gr. Þingsköpum kirkjuþings verður ekki breytt nema 2/3 hlutar greiddra atkvæða komi til enda séu 2/3 kirkjuþingsfulltrúa á fundi.
IX. KAFLI
Gildistaka.
41. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru með heimild í 8. gr. laga um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, öðlast gildi 1. janúar 2022. Frá sama tíma falla brott starfsreglur nr. 949/2009 um þingsköp kirkjuþings, með síðari breytingum.